Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:35:12 (3159)

1996-02-19 18:35:12# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:35]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Fjármagnið er eins og vatnið, sagði hv. þm., og leitar leiða hins minnsta viðnáms og vitnaði í Henry George og Retsforbundet. En ræðan snerist síðan um það að hann setti allt sitt traust á hina formlegu lagasetningu.

Nú er það svo að hér er flutt frv. sem á að tryggja markmiðið, forræði yfir auðlind en flutningsmaðurinn, ríkisstjórnin að baki, lýsir því yfir að ekkert hald sé í þessu frv. Hér voru lög sem bönnuðu erlenda fjárfestingu hvort heldur væri í veiðum eða vinnslu en við vitum af mörgum dæmum að það þarf verulegt fjármagn, að vísu lánsfjármagn, sem er með þeim hætti að menn lána fé til innlendra fyrirtækja til þess að kaupa kvóta, til þess að tryggja sér hráefni og hafa þar með fengið ráðstöfunarrétt á afurð auðlindarinnar.

Það eru lög í landinu um það að þjóðin eigi auðlindina. Ríkisvaldið tekur síðan að sér að takmarka aðgang að þessari auðlind, skammtar sumum en synjar öðrum og veiðileyfin, sem verða þannig að fémætum eignum, ganga kaupum og sölum, þær eru leigðar, veðsettar, erfðar og það er einmitt vegna þessa skömmtunarhlutverks ríkisvaldsins sem þær eru verðmæti.

Ef það er nú svo, af því að kapítalið leitar leiða hins minnsta viðnáms, að erlendir aðilar geta með óbeinni eignaraðild náð forræði og stjórnun á fyrirtækjum sem veitir þeim aðgang að auðlindinni, forræði yfir veiðiheimildum jafnvel innan ramma laga, að þau geti flutt óunninn fisk úr landi og tekið arðinn annars staðar, þ.e. í erlendri lögsögu, hvar er þá viðnámið? Hvar er þá vörn þjóðríkisins og laganna? Seinasta vörnin er sú að segja: Til þess að tryggja eigandann yfir auðlindinni --- og nú er það alveg sama hvort það er sjávarútvegsauðlindin eða orkulindirnar --- lágmarksarð að þessari auðlind, þá er tekið gjald fyrir veiðileyfin eða fyrir virkjunarréttinn vegna þess að lögin sem kveða á um það hvernig fyrirtækin eru samsett halda ekki, vegna þess að formið heldur ekki fyrir kapítalismanum. Það leitar leiða hins minnsta viðnáms og fer sínu fram.