Fjarnám

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 13:55:17 (3216)

1996-02-21 13:55:17# 120. lþ. 94.2 fundur 291. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[13:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er alltaf erfitt að fullyrða hve hratt verður gengið fram í þessum efnum en það er alveg ljóst að tæknin er fyrir hendi. Það skortir ekkert á það hér á landi. Tæknin er fyrir hendi. Það er hægt að nýta þá tækni sem er í skólunum til þess að bjóða upp á þetta nám. Hér á landi er útbreiðsla á tölvum, sem eru tengdar inn á fjarskiptanet sem menn geta nýtt sér til að öðlast þekkingu í gegnum fjarnám, meiri en nokkurs staðar annars staðar, að talið er. Þarna eru fyrir hendi tæki og aðstæður sem við getum nýtt okkur og eigum að sjálfsögðu að nýta okkur. Vandinn er að það þarf að útbúa kennsluefnið. Það kostar eitthvað, en það held ég að sé ekki sú mikla hindrun í þessu efni heldur hvernig menn skipuleggja tíma sinn og haga miðlun á fræðsluefni. Raunar hefur verið bent á að það sé eitt af einkennum á skólakerfinu, ekki aðeins hér heldur alls staðar annars staðar í heiminum, að það er ákaflega lengi að laga sig að breytingum. Menn telja enn að það sé nauðsynlegt að menn fari inn í kennslustofur og hlýði á kennara til þess að öðlast fræðslu, en auðvitað er hægt að nota þessa nýju tækni til þess að miðla fróðleik, bæði hér og annars staðar.

Varðandi sjónvarpið og nýtingu á því, þá er rétt að vekja athygli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur á því að nú er þróunin orðin sú að þetta fellur orðið saman, tölvutæknin og sjónvarpstæknin. Póstur og sími býður nú upp á svokallað ISDN-kerfi í fjarskiptum sem gerir mönnum kleift að nýta tölvurnar eins og sjónvarpstæki þannig að þessi munur er raunverulega horfinn og allt það kennsluefni sem útbúið er til fjarnáms í tölvum er nú útbúið þannig að um er að ræða efni sem mætti alveg eins flytja í sjónvarp en menn fara ekki með í sjónvarp af því að tölvurnar geta fullnægt þeim kröfum sem menn gerðu áður til sjónvarpsins.