Skattlagning happdrættisreksturs

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:08:20 (3220)

1996-02-21 14:08:20# 120. lþ. 94.3 fundur 299. mál: #A skattlagning happdrættisreksturs# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Það er sagt að hver fjögurra manna fjölskylda hér á landi eyði um 75 þús. kr á ári í happdrætti ýmiss konar, þ.e. þegar við teljum spilakassa, lottó og 1X2 og hvað þetta heitir allt saman til happdrætta þannig að hér er um verulegar upphæðir að ræða. Þessar upphæðir renna sem betur fer til góðra málefna. Í sumum tilvikum er um verulegar upphæðir að ræða sem fara til frjálsra félaga sem síðan nota þá peninga til ýmissar starfsemi.

Mér er ekki kunnugt um að það sé gengið eftir því af yfirvöldum að um skilagrein sé að ræða, en þó veit ég að sum félögin gefa út ársreikninga þar sem blasir við hvernig fjármunirnir eru notaðir og að sjálfsögðu er það þannig með háskólann, sem er langstærstur á þessum markaði, að reikningar hans liggja fyrir og öllum er ljóst til hvers happdrættispeningarnir fara, enda gilda um það lög og reglur.

Ég vil taka fram af þessu tilefni að það er full ástæða til þess að fá skilagrein þessara aðila, ekki síst af því að hér er um jafngildi ríkisframlaga að ræða að mínu viti og þá þarf líka að huga að því að ýmsir þeir sem fá framlag af fjárlögum hverju sinni þurfa ekki að gera grein fyrir því hvernig þeim fjármunum er ráðstafað. Ég er þeirrar skoðunar, og hef reyndar rætt það í ríkisstjórn og hyggst beita mér fyrir því, að allir þeir sem fá verulega fjármuni frá ríkinu þurfi að standa skil á þeim fjármunum, sýna hvernig þeir eru notaðir og helst með þeim hætti að það sé gerður samningur á milli ríkisins og viðkomandi aðila. Það kannski á ekki við þegar um happdrættisfé er að ræða, en það mætti a.m.k. fara fram á skilagrein eins og hv. þm. minntist á í sinni ræðu.