Vaxtamál

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:16:11 (3239)

1996-02-26 15:16:11# 120. lþ. 95.1 fundur 200#B vaxtamál# (óundirbúin fsp.), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:16]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Það hefur nú staðið yfir mikil hrina í vaxtamálum til þess að ná niður vöxtum. Það er mjög mikilvægt. Þetta hefur eins og oft áður snúið fyrst og fremst að nafnvöxtum og óverðtryggðum reikningum. Hitt er annað mál að til þess að atvinnulífið og unga fólkið ráði við sín mál er fátt mikilvægara en að ná niður vöxtum á Íslandi.

Ef við skoðum línurit sem ég er með í höndunum, þá sjáum við tekin tilboð í þriggja mánaða ríkisvíxla og að þar hefur verið mikill stígandi í vöxtunum frá því í haust. Þeir voru lægstir í október, um 7% og hæstir í janúarlok, þá komnir í 7,60%. Síðan virðast þeir vera heldur á niðurleið aftur (Gripið fram í.) en það kemur heim og saman við það sem er að gerast.

Ég ætla að spyrja hæstv. fjmrh. spurningar. Eitt sinn fékk hann sex stjörnur hjá mér. Það var haustið 1993 þegar hann breytti rekstrarumhverfi fyrirtækja og skuldugra á Íslandi með einni setningu. Þá sagði hæstv. fjmrh. eitthvað á þá leið við íslenska fjárfesta: Ef þið kaupið ekki ríkispappírana núna í þessu útboði á 5%, þá er ég farinn með þá á erlendan markað. Það sem gerðist í framhaldi af þessu var að fjárfestarnir keyptu pappírana. Þá lækkuðu raunvextir í kjölfarið um 2--3% og hér hófst í rauninni nýtt tímabil og sókn í atvinnulífinu sem gerbreytti stöðunni hjá fyrrv. hæstv. ríkisstjórn undir forsæti hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar.

Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Kemur til greina nú að segja það sama við fjárfestana og gert var þá og ná á nýjan leik umskiptum í efnahagsmálum á Íslandi?