Vaxtamál

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:23:46 (3243)

1996-02-26 15:23:46# 120. lþ. 95.1 fundur 200#B vaxtamál# (óundirbúin fsp.), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:23]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að það séu aðstæður til að lækka vexti en ég held að ríkið verði þar að vera leiðandi aðili eins og oft áður. Hins vegar sé ég að hæstv. ráðherra blekkir sig með því að lesa upplýsingar Morgunblaðsins því að þær eru því miður ekki alltaf réttar. Þær upplýsingar sem hann vitnar til snúa að nafnvöxtum. Ég held nefnilega að ekkert sé mikilvægara nú en að fara yfir hverjir eru raunverulegir vextir og ráðast að vandanum, ráðast að raunvaxtastiginu. Ég er sannfærður um að það yrði mikil breyting ef ríkisvaldið og stærstu fjárfestingaraðilarnir, þ.e. lífeyrissjóðirnir sem atvinnulífið og fólkið í landinu ræður, næðu saman um þetta mál með samstilltu átaki. Þá gætu raunvextir e.t.v orðið, ég vil segja, um 7% í staðinn fyrir 9--10%.

Ég vænti nú þess að hæstv. fjmrh. fari vel yfir þetta og ríkið verði skynsamt á þessum markaði á árinu. Það er lykillinn að því að það takist. (SJS: Hvað um viðskrh.? Er hann ekki til?) Ég treysti honum fullkomlega.