Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:24:22 (3270)

1996-02-27 14:24:22# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:24]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að láta í ljós þá skoðun að hv. þm. var mun jákvæðari í ræðu sinni en ég átti von á og kom greinilega fram í máli hans, ekki síst undir lokin, að hann tekur a.m.k. undir það að rétt sé að athuga með hvaða hætti hægt sé að breyta Póst- og símamálastofnun þannig að hún geti starfað úti á hinum frjálsa markaði eftir þeim lögmálum sem gilda um hlutafélög og önnur slík fyrirtæki. Mér þótti þetta satt að segja athyglisverð yfirlýsing. Hann skírskotaði í þessu sambandi annars vegar til Landsbankans og þeirra laga sem um hann gilda og hins vegar til laga um Landsvirkjun sem ríkið á 50% í, en Reykjavíkurborg um 45% og Akureyri um 5% ef ég man rétt. Það er alveg til í dæminu að það geti verið skynsamlegri leið að Póstur og sími hf. verði ekki að öllu leyti í eigu ríkisins heldur sé rétt að skipta eignaraðildinni milli fleiri aðila. Ég hef verið þeirrar skoðunar að hitt sé rétt að ríkið eitt eigi Póst og síma hf. Ég hef ekki talið rétt að sveitarfélög eða aðrir aðilar komi þar inn, lífeyrissjóðir eða hvað það er sem hv. þm. hefur í huga. En með skírskotun sinni til Landsvirkjunar talaði hann um dreifða eignaraðild og jafnframt talaði hv. þm. um að það væri rétt að eigendur bæru óbeina ábyrgð á öllum skuldbindingum Pósts og síma eftir breytinguna. Það er það sem við leggjum til og hlutafélagsformið er valið svo að ríkissjóður beri ekki eigendaábyrgð á Pósti og síma hf. Póstur og sími yrði þannig sjálfstætt fyrirtæki og óháð ríkinu.