Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:58:19 (3285)

1996-02-27 14:58:19# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:58]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. kvað fast að orði um hug hæstv. samgrh. Ég vil vera sanngjarn og bera blak af hæstv. ráðherra. Það var ekki svo að hann hafi haft í ljósi skoðanir um að það ætti að selja fyrirtækið. Hins vegar töldum við að skýr ákvæði þyrftu að vera um þessi efni, ekki síst í ljósi reynslunnar af hinni svonefndu einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem hv. þm. þekkir m.a. frá ráðherratíð sinni. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. skilji það og geri sér grein fyrir því.

Afstaða Framsfl. kemur m.a. skýrt fram í þessu efni í frv. og ég held að ég geti ekki svarað því nánar. Ég get hins vegar ekki horft í neina kristalskúlu og sagt fyrir um hvað muni gerast í framtíðinni þegar einhverjir allt aðrir hv. þingmenn munu sitja í þingsal eftir einhver ár. Ég þori ekkert um það að segja frekar en ég geri ráð fyrir að hv. þm. geti komið og lýst því yfir.