Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 16:54:05 (3308)

1996-02-27 16:54:05# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það verður að segja alveg eins og er að hæstv. samgrh. er afar lunkinn í einu í málflutningi og það eru útúrsnúningar. Hér síðast kom eitt alveg ágætt dæmi um það þegar hann þóttist hafa heyrt það í mínu máli að ég væri á einhvern hátt að vega að embættismönnum eða starfsmönnum nefndarinnar sem slíkum. Það vill svo til að ég margendurtók að þarna væri á ferðinni hið ágætasta fagfólk, prýðilega hæft og vinir mínir og kunningjar upp til hópa í kaupbæti. Málið snérist ekki um það. Ég var ekki að gagnrýna þetta fólk heldur það með hversu þröngum hætti hæstv. ráðherra lét undirbúa málið. Það er annar hlutur, hæstv. ráðherra. Vill nú ekki hæstv. ráðherra reyna að skilja að það á að vera hægt að greina á milli þess að fjalla um hlutina annars vegar gagnvart faglegri hæfni og ágæti einstaklinga og hins vegar þess hvaða vinnubrögð og aðferðir eru viðhafðar. Kannski skilur hæstv. ráðherra þetta ekki, e.t.v. ekki fyrr en á morgun. Þá ræðum við saman þegar þar er komið að þetta hefur komist í gegnum þokuna.

Varðandi samkeppnislögin held ég að ég leyfi mér að setja mig á háan hest og segja að ég þekki þau miklu betur en hæstv. ráðherra. Það vill svo til að ég sat í efh.- og viðskn. og lagði mikla vinnu í þau lög. Ég hafði sjálfur áður flutt frv. um heildarendurskoðun á samkeppnislögum eða lögum um Verðlagsstofnun sem þá hétu og tel mig kunna þetta satt best að segja nokkuð vel. Ég hef líka reynt að fylgjast með framkvæmd þeirra síðan. Staðreyndin er sú að samkeppnislögin varða einmitt leið til þess að stofnanir eins og Póstur og sími geti starfað áfram, því þar er kveðið á um að um bókhaldslegan og fjárhagslegan aðskilnað einkareksturs eða einkaleyfastarfsemi og samkeppnisþátta skuli vera að ræða. Það er akkúrat ekki þannig að samkeppnislögin banni ríkisstofnanir. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra sem mátti skilja á honum hér áðan. Ef menn ætla að túlka samkeppnislögin eða hugsanlega hinn evrópska rétt svo kaþólskt að það megi ekki vera um ríkiseign á neinu að ræða sem er í samkeppni, þá er komin upp ný staða. En svo hefur ekki verið gert hingað til. Einstöku menn eru að vísu að reyna að kæra okkur Íslendinga í útlöndum á þessum forsendum en mér er ekki kunnugt um að úrskurðir hafi fallið sem hafi verið svo kaþólskir. Þess vegna er mikill misskilningur að það sé eitthvað í samkeppnislögunum sem geri það sjálfkrafa að verkum að stofnanir geti ekki haldið áfram að vera til sem ríkisstofnanir.