Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:27:00 (3330)

1996-02-27 18:27:00# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Rödd þingmannsins er sem ljúf tónlist í eyrum mér þannig að það er mjög freistandi að svara ekki til þess að maður fái að heyra hv. þm. taka aftur til máls.

Hv. þm. byrjaði ræðu sína á því að ræða um fund sem efnt var til af starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar fyrir síðustu kosningar í gamla Sjálfstæðishúsinu. Það er laukrétt hjá hv. þm. að ég lýsti því yfir að ég teldi óhjákvæmilegt að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag eða annað rekstrarform sem væri á sama grundvelli. Slíkt rekstrarform er ekki til samkvæmt íslenskum lögum en ég held að óhjákvæmilegt væri að búa til einhvern efnahagsreikning hvert sem rekstrarformið er. Þegar við erum að tala um hlutafélag með þeim hætti að það verði eitt hlutabréf sem verði í eigu ríkisins sem ekki er heimilt að selja nema samþykki Alþingis komi til þá erum við að tala þar um hvert sé eigið fé ríkissjóðs í hinu nýja fyrirtæki sem arðgreiðslur miðast síðan við. Þegar hv. þm. og ýmsir aðrir eru að tala um einhverja aðra gerð af fyrirtæki er vitnað til annarra landa. Ég hef t.d. ekki séð löggjöf um það hvernig fyrirtæki póst- og símaþjónustunnar er í Frakklandi. Einhver var að giska á það við mig að menn væru byrjaðir að selja hlutabréf. Það væri búið að breyta því í hlutafélag nú. Ég veit ekki hvort það er rétt. En aðalatriðið er að það er Alþingis að ákveða hvort hlutabréf verði seld í Pósti og síma hf. Burt séð frá því hvort þetta frv. verður samþykkt eða ekki getur Alþingi síðar samþykkt slíkt frv.