Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:36:16 (3346)

1996-02-27 19:36:16# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði að vísu um persónubundna samninga. Hafi ég sagt samningsrétt voru það augljós mismæli. 14. gr. hljóðar svo:

,,Nú óska stjórnvöld eftir því að Póstur og sími hf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skilar arði og skal þá gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Pósts og síma hf.``

Ég held að það sé alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki beinan íhlutunarrétt að þessu leyti í stjórn Pósts og síma hf. Það er eðlilegt að ákvæði af þessu tagi sé hér.

Í sambandi við elli- og örorkulífeyrisþega rifja ég upp að á meðan við vorum saman í ríkisstjórn, ég og hv. þm., var það skoðun beggja stjórnarflokkanna að það væri eðlilegt að kvaðir af þessu tagi væru skilgreindar í fjárlögum. Eða það kæmi fram í fjárlögum hverjar ættu að vera greiðslur Tryggingastofnunar til Pósts og síma fyrir þá tilhliðrun sem þarna var gerð fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Ég hygg að hafi flestir verið sammála um það. Þetta er auðvitað fyrirkomulagsatriði. Þessi tilhliðrun kostar ákveðna fjármuni. Það er verið að tala um að gera útgjöld ríkisins gagnsæ eins og nú er tíska að tala. Meiningin er auðvitað sú að skattborgararnir viti hvert peningarnir fara. Ég tel eðlilegt að þeirri stefnu sé fylgt. En þetta mál hefur ekki verið rætt sérstaklega við fjmrh. eða heilbrrh. hvernig á þessum málum verður haldið. En auðvitað verður tekið tillit til þess. Við erum að tala um 30--40 millj. kr.