Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:38:34 (3347)

1996-02-27 19:38:34# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem tímanum vindur fram skýrast málin nokkuð frekar þannig að ágætt væri að hafa svolítinn tíma til að ræða þetta fram eftir kvöldi og vita hvort menn gætu þá ekki fengið svör við þeim spurningum sem maður er að leita eftir. Ég heyri að það hafa engar ráðstafanir verið gerðar af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að fara með fastakostnað á síma elli- og örorkulífeyrisþega. Ég geri mér fulla grein fyrir því að skiptar skoðanir eru um fyrirkomulag á því. Ég held að þingmenn séu almennt sammála um að það eigi að veita tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum þennan afslátt. En það er ljóst af svörum ráðherrans að ekki hefur verið hugsað fyrir þessu atriði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Því beini ég því til þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar að það verði sérstaklega skoðað en það mál ekki skilið eftir í lausu lofti ef þessi formbreyting á að eiga sér stað.

Í fimmta skipti, herra forseti, beini ég þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort starfsmenn Pósts og síma lúti lögum --- ég þarf líklega að setja þetta með teskeið til hæstv. ráðherra því hann nær þessu greinilega ekki --- um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og vera þá opinberir starfsmenn eða mun verða sú breyting á varðandi þeirra réttarstöðu að starfsmennirnir muni lúta lögum sem gilda um almenna vinnumarkaðinn. Ég vek athygli á því að þetta er í fimmta sinn sem ég spyr þessarar spurningar.