Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 16:03:13 (3402)

1996-02-28 16:03:13# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það eru örfá atriði sem komu fram í umræðum einstakra hv. þm. sem ég vil nefna. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði t.d. um sölu á ríkiseignum og að það hefði verið greinilegt að eignir sem voru keyptar á 227 millj. hefðu verið seldar á 31 millj. Þetta verður að leiðrétta. Hér er ekki um sölu að ræða og það var ekki heldur um kaup að ræða. Úreldingarféð var ekki kaup á neinum eignum. Ríkið eignaðist aldrei þessar eignir og varð aldrei þinglýstur eigandi þeirra. Hagræðingarféð er til að fá viðkomandi fyrirtæki til þess að skipta um atvinnustarfsemi, að hætta að vinna úr mjólkurafurðum og fara í einhverja aðra starfsemi. Væntanlega hefur engum dottið í hug að þessar eignir yrðu ekki notaðar til áframhaldandi atvinnustarfsemi. Fólkið sem vann þar og vinnur enn hefur a.m.k. miklar væntingar til þess svo að þetta verður að leiðrétta. Og frádrátturinn sem hv. þm. nefndi, um 30 millj. kr., var helmingurinn af því matsverði sem samkomulag varð um milli ráðherra og Kaupfélags Borgfirðinga. Það segir í reglunum að heimilt sé að draga allt að helming af þessu verði frá úreldingarfénu. Þegar ég segi við hv. þm. Ágúst Einarsson að ég hafi farið svo til í öllu að tillögum nefndarinnar, þá er munurinn á tillögum hennar og því sem endanlega varð samkomulag milli mín og forsvarsmanna kaupfélagsins, 4 millj. kr. Þetta liggur fyrir, hv. þm.

Síðan svar við lokaspurningu hv. þm. sem varla er tími til: Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir endurskipulagningu í mjólkurframleiðslu þannig að samkeppnislög móti umgerð atvinnugreinarinnar? Nú verð ég aftur að ítreka það sem fram kom í máli mínu í upphafi og hv. þm. sagði að hefðu verið veigalítil svör og lítils virði, lítið ætti að gera og skoða betur, að ég hef lýst því yfir bæði nú og áður að ég vil athuga þessi mál í samráði við bændastéttina og í samráði við landbúnaðinn sem atvinnugrein. Sú stefna á að ráða ferðinni. Ég hef líka minnt á það áður að við höfum stigið fyrstu skrefin til þessarar breytingar í samningunum um sauðfjárræktina. Þar höfum við stigið skref sem eru veigamikil til breytinga á verðlagsmálum í þessari atvinnugrein og e.t.v. mótandi fyrir það sem kann að vera framhaldið í þessu efni. Ég mun reyna að stuðla að því að slíkar óhjákvæmilegar breytingar verði í sem nánustu samráði við bændastéttina og verði sem sársaukaminnstar. Ég býst við því að þær geti þýtt erfiðleika fyrir stéttina og þá sem vinna úr landbúnaðarafurðum og hafa afkomu sína af landbúnaði. Þess vegna þarf að skoða þetta allt saman í heild og í samhengi við aðra hluti eins og hér hefur ítrekað komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum.