Ómskoðanir

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:38:19 (3603)

1996-03-06 13:38:19# 120. lþ. 101.1 fundur 311. mál: #A ómskoðanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þeim samningum sem verið hafa í gildi milli sérfræðinga og Tryggingastofnunar ríkisins mega kvensjúkdómalæknar einungis beita ómskoðun 50 sinnum á ári eða tæplega einu sinni í viku. Þeir kvensjúkdómalæknar sem veita slíka þjónustu á stofu hafa fyrir löngu rekið sig á að kvótinn er allt of lítill og yfirleitt búinn þegar komið er fram yfir mitt ár. Þá er um þrennt að ræða. Í fyrsta lagi að veita slíka skoðun ókeypis, í öðru lagi að láta viðkomandi konu greiða fyrir skoðun og í þriðja lagi að senda hana annað sem kann að kosta bið og hafa aukinn kostnað í för með sér.

Í bréfum sem ég hef undir höndum frá einum kvensjúkdómalækni til Tryggingastofnunar ríkisins segir, með leyfi forseta:

,,Staðreyndin er sú að með heimild til einungis 50 ómskoðana á ári er ekki með nokkru móti hægt að halda sér í þeirri þjálfun sem nauðsynleg getur talist. Hvað þá að standa undir þeim kostnaði sem þessi þjónusta hefur í för með sér. Ómskoðun, einkum vaginal, ætti að vera snar þáttur og sjálfsögð þjónusta í daglegu starfi allra kvennlækna sem reka stofur. Öll greining verður skjótari og öruggari og hefur í för með sér verulega fækkun aðgerða, svo sem útskafana og kviðspeglana, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir í dag ómældar upphæðir fyrir.``

Í öðru bréfi frá sama lækni segir, með leyfi forseti:

,,Að hafa kvóta á slíkum rannsóknum stríðir gegn siðareglum lækna sem er skylt að veita þá bestu og öruggustu læknisþjónustu sem býðst á hverjum tíma. Í ljósi þessara upplýsinga vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.:

1. Hversu margar ómskoðanir á konum (framkvæmdar hjá kvensjúkdómalæknum á stofum) voru greiddar af Tryggingastofnun á síðasta ári?

2. Hvaða reglur gilda um ómskoðanir kvensjúkdómalækna á eigin stofum?

3. Telur ráðherra að sá kvóti, sem settur hefur verið á ómskoðanir á stofum, dugi til að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og forvarnir?