Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:13:35 (3632)

1996-03-06 15:13:35# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:13]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu og hefur verið tekið upp utan dagskrár af hv. 14. þm. Reykv. er í rauninni angi af þeirri deilu eða þeirri uppsögn heilsugæslulækna sem rædd var utan dagskrár á Alþingi á dögunum. Málið snýst fyrst og fremst um skipulag í grunnþjónustu í heilbrigðismálum hérlendis. Það hefur verið spurt um skoðun og stefnumótun í málefnum heilsugæslunnar. Það er fljótsögð mín skoðun á því máli. Ég tel að heilsugæslan eigi að sinna grunnþjónustu í heilbrigðismálum hérlendis og aðgerðir eigi að miðast við það. Það er alveg ljóst og það vita hv. þingmenn að uppbygging heilsugæslunnar í Reykjavík hefur gengið hægt og hægar en úti á landsbyggðinni. Það er m.a. vegna þess að hér eru ýmsir sérfræðingar á fleti fyrir. Það hefur fjölgað mikið í þeirri stétt og eru því átök þarna á milli.

Þessi mál verður auðvitað að leysa og er unnið að því. Ég er sannfærður um að niðurstaða mun fást í þau mál, en mín skoðun er að það verði að vera á þeim nótum að heilsugæslan sinni grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ég er sannfærður um að það er ódýrasti og hagkvæmasti kosturinn. Ég hef reynslu af því þar sem ég er alinn upp við þetta heilsugæslukerfi, ég hef góða reynslu af því (ÖS: Og berð þess góð merki.) Og ber þess merki, eins og hv. 15. þm. Reykv. segir réttilega. Ég hygg að við leysum ekki þessi mál utan dagskrár í dag en ég hef lýst minni skoðun á hlutverki heilsugæslunnar í landinu.