Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:28:42 (3638)

1996-03-06 15:28:42# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:28]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða deilu sem staðið hefur lengi. Hún hefur ekki staðið í nokkra mánuði, hún hefur staðið í mörg ár. Hér er spurt að því hvar þessar viðræður standi. Þær standa þannig að það var búið að halda marga fundi þegar þessi deila komst í hámæli. Fulltrúar ráðuneytisins og fulltrúar heilsugæslunnar hafa setið þessa fundi og eftir því sem ég veit best er næsti fundur í fyrramálið.

Það er búið að leita ýmissa leiða til að ná samkomulagi og ég á von á að það samkomulag náist. En það verða örugglega ekki allir ánægðir með það. Það verður örugglega annar hópur sem þá rís upp og þá verður örugglega beðið um aðrar utandagskrárumræður. Þannig er þessum málum háttað.

En það er rétt sem fram hefur komið í umræðunum. Ef við ætlum að byggja upp heilsugæsluna á Reykjavíkursvæðinu eins og hefur verið gert víðast hvar um landið, þarf til þess mikið fjármagn. Heilsugæsluuppbygging á Reykjavíkursvæðinu hefur verið svelt til margra ára. Það er einföld staðreynd. Við getum farið vítt og breitt um landið og séð þar mjög stórar og myndarlegar heilsugæslustöðvar, fullstórar á mörgum stöðum. Á sama tíma búa margar heilsugæslustöðvar hér við mikil þrengsli. Til þess að leysa þetta vandamál þarf fjármagn.

Það er alveg ljóst að þessi deila verður ekki leyst í sölum Alþingis frekar en aðrar deilur.