Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 18:57:52 (3657)

1996-03-06 18:57:52# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að bera fyrrv. oddvita reykvískra sjómanna það á brýn að innri órökvísi gæti í því sem hann segir en mér fannst það á köflum í hans ágætu ræðu áðan. Hann talaði í þá veru að mér fannst eins og hann væri ekki sammála þeirri meginstefnu sem kemur fram í frv. að það eigi að stefna að því að sameina stofnanir sem er þrátt fyrir allt, herra forseti, hluti af stefnu hans eigin flokks. Einmitt sú stefna hefur verið burðarásinn í einum fjórum ráðstefnum sem hæstv. fjmrh. hefur haldið þegar hann hefur verið að kynna stefnu sína um nýskipan í ríkisrekstri, stefnu sem má raunar rekja aftur til síðustu ríkisstjórna, stefnu sem ég styð að verulegu leyti.

Í lok ræðu sinnar hins vegar lét hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson í ljós þá frómu ósk að hann vænti þess að innan mjög skamms tíma yrði þessi stofnun gerð enn stærri og yrði sameinuð Landhelgisgæslunni. Ég, herra forseti, tek undir það. Ég held að það sé það sem við eigum að reyna að skoða og kem að þeirri stefnu síðar í máli mínu.

Ég vildi hins vegar í upphafi, herra forseti, segja að þó að ég sé búinn að hlaða lofi á hv. þm. og formann samgn. Einar K. Guðfinnsson, verður aldrei nógsamlegu lofi hlaðið á þann góða dreng og þá ágætu nefnd fyrir það hvernig hún hefur tekið á málinu. Eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag var þetta mál hraksmánarlega búið af hendi ráðuneytisins og kom í ljós að það þurfti hina vösku menn hv. samgn. og þrekmenni, sem er starfsmaður nefndarinnar, til þess að gera fjöldamargar breytingar á málinu sem tengist sameiningu þessara stofnana.

[19:00]

Ég er að öllu leyti sammála þeim breytingartillögum sem koma fram í áliti samgn. Það er einungis eitt sem ég vildi þó beina til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hann gat þess að það hefði verið niðurstaða eftir talsverða umfjöllun í nefndinni að hafa ekki stjórn yfir stofnuninni. Mér þótti í sjálfu sér vænt um að það væri ekki flasað að þeirri niðurstöðu heldur væri það niðurstaða rökræðu og umfjöllunar í nefndinni. Ég er honum hins vegar ósammála, þótt ég þekki þessa stofnun ekki líkt því eins vel og hann eftir þá miklu umfjöllun sem hann hefur staðið fyrir innan samgn. Ég verð að segja, herra forseti, af þeirri reynslu sem ég hef af því að reka íslenskt ráðuneyti að þau eru vanbúin að mannafla og illa í stakk búin til þess að standa fyrir rekstri stofnana án þess stuðnings sem er að finna í stjórnum. Ég studdi það t.d. mjög á sínum tíma þegar verið var að stokka upp Náttúrufræðistofnun Íslands að sett yrði þriggja manna stjórn yfir stofnunina, einmitt af þessum ástæðum. Við getum tekið ráðuneyti eins og heilbr.- og trmrn. sem dæmi. Það stýrir 40% af útgjöldum íslenska ríkisins, en þar starfa einungis 24 eða 25 menn og undir þá heyra fjölmargar stofnanir. Auðvitað hlýtur svo að fara að þær stofnanir sem ekki hafa stjórn yfir sér detta á milli skips og bryggju og oft og tíðum hafa þær litla umsjón af hálfu ráðuneytisins. Þetta er mín reynsla sem fyrrv. ráðherra. Þess vegna tel ég að það væri æskilegt við flestar aðstæður að hafa stjórn yfir þessum stofnunum. Ég tel það sérstaklega nauðsynlegt þar sem um er að ræða stofnanir sem að einhverju leyti eiga að hafa eftirlit og þetta er að öðrum þræði eftirlitsstofnun. Það er bráðnauðsynlegt að yfir slíkum stofnunum sé stjórn sem menn og hagsmunaaðilar, sem eru margir í þessu tilviki, geti leitað stuðnings hjá. Sú staða kann að koma upp að sá starfsmaður ráðuneytisins sem er viðkomandi stofnun til halds og trausts eða jafnvel stýrir henni af hálfu ráðherra sé ekki viðræðuhæfur um tiltekin mál, hafi ekki tíma til að sinna málunum eða hafi einfaldlega ekki áhuga á því. Þess vegna vísa ég því til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hvort það væri ekki ráð að kanna þetta svolítið betur.

Herra forseti. Áður en lengra er haldið vil ég velta því aðeins fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að stíga skrefið svolítið lengra við þessa sameiningu, þ.e. hvort ekki hefði verið mögulegt að koma einhverju af verkefnum sem eru innan þessarar stofnunar út á almennan markað. Ég er þeirrar skoðunar að það séu ákveðin verkefni á vegum ríkisins sem eigi að bjóða út í ríkari mæli en gert er núna. Ég er að vísu meðvitandi um að hæstv. fjmrh. hefur á síðustu árum hrint í framkvæmt útboðsstefnu á vegum ríkisins sem ég tel að hafi verið ríkissjóði og almenningi til heilla, en á vegum t.d. Vita- og hafnamálastofnunar er hönnunardeild, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson drap hér lítillega á og því ekki að leggja hana niður og setja verkefni hennar á almennan markað? Nú er það svo að einmitt þessi grein íslensks atvinnulífs, þ.e. verkfræðileg ráðgjöf, býr við mjög veika markaðsstöðu. Hún hefur ekki náð að þróast eðlilega að því er ég hygg vegna þess að ríkið hefur ginið yfir hönunarverkefnum. Þessi verkefni hefur vantað til útboðs á almennum markaði og mig langar að varpa þeirri spurningu til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hvort þetta hafi ekki verið rætt í tengslum við þessa uppstokkun. Nú geri ég mér að vísu grein fyrir, herra forseti, að þarna er verið að stíga mjög stórt skref í þróun þessarar stofnunar og kannski hafa menn ekki talið ráðlegt að stíga það skref um leið. En ég vildi samt, herra forseti, nota þetta tækifæri til þess að reifa í víðara samhengi hugmyndir mínar um t.d. tilflutning á svona verkefnum yfir á almennan markað. Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að ræða hugmyndir mínar um almenna uppstokkun á stofnanastrúktúr ríkisins.

Áður en ég hverf frá hönnunardeild Vita- og hafnamálastofnunar langar mig að benda á að einnig Vegagerðin hefur yfir gríðarlega öflugri hönnunardeild að ráða. Ég velti því fyrir mér hvort það sé eitthvað sjálfgefið. Er nauðsynlegt að þannig verði það um aldur og ævi? Er ekki allt í lagi að menn leyfi sér þann munað að hugsa upphátt hvort ekki sé rétt að fara í vaxandi mæli út í að flytja þessi verkefni yfir á almennan markað?

Ég vil aðeins halda áfram með vita- og hafnamál. Ég minnist þess að þegar við vorum að ákveða, íslenska þjóðin fyrir skömmu, að fara í að bæta við álverið í Straumsvík þá var að sjálfsögðu farið í það að hanna stækkun hafnarinnar í Straumsvík og völdum hópi fyrirtækja boðið að vera með í útboði. Á þeim lista var til að mynda fyrirtækið Vita- og hafnamálastofnun. Þar tók með öðrum orðum ríkisfyrirtæki þátt í útboði á almennum markaði. Maður veltir því fyrir sér af hverju þetta ríkisfyrirtæki var að því. Væntanlega vegna þess að á fjárlögum gerum við kröfur um ákveðnar sértekjur til þess að endar nái saman. Og má þá ekki halda þessari hugsun áfram og segja sem svo: Eru skattborgararnir þar með ekki að niðurgreiða þessa samkeppni? Og hvað með hin almennu fyrirtæki, einkafyrirtækin sem háð eru samkeppni? Þetta er ekki réttlát samkeppni og þetta eru hlutir sem við þurfum líka að hugsa um.

Ég vil segja, herra forseti, að ég fagna þeirri hugsun sem kemur þarna fram. Þarna er verið að feta þá braut að sameina stofnanir og það er nauðsynlegt að gera það miklu víðar. Ég held að eitt af því sem hlýtur að vera meðal brýnustu verkefna í ríkisrekstrinum sé einmitt að stokka upp stofnanastrúktúrinn íslenska. Við búum þar að danskri arfleifð og ég hygg að lögunum um Stjórnarráðið hafi ekki verið breytt í næstum því 30 ár, eða síðan 1969. Það er staðreynd að stofnanir okkar eru allt of margar, þær eru allt of fámennar og þær eru allt of veikburða. Það þarf að stækka þær með sameiningu og gera þær að sterkari heild. Sumar má e.t.v. leggja niður að hluta. Ég held að aðalatriðið sé að menn reyni að gera þær að burðugri heild. Þegar menn fara í svona verkefni er ekki bara verið að sameina tvær stofnanir í nýja stofnun sem sinnir sömu verkum og áður. Það er líka verið að setja stofnuninni hinni nýju þau verkefni að endurskilgreina sjálfa sig og það er það sem mér finnst vanta eftir náin kynni mín af nokkrum íslenskum ríkisstofnunum. Það vantar hvata fyrir þessar stofnanir til að endurskoða markmið sín, kanna hvort verksvið þeirra sé rétt, hvort það sé ekki eitthvað sem mætti e.t.v. sleppa eða færa út á almennan markað og hvort það séu ekki önnur verkefni sem þarf að leggja meiri áherslu á.

Ég hef hins vegar orðið var við það á mínum tiltölulega skamma ferli sem stjórnmálamaður að það er gríðarlega erfitt að ná þessu fram. Ég minnist t.d. þess að í síðustu ríkisstjórn kom upp hugmynd um að sameina Sjómælingar og Landmælingar og af því að málið var mér skylt kannaði ég lítillega hvort ekki væri grundvöllur fyrir því. Það reyndist að sjálfsögðu enginn grundvöllur fyrir því. Og af hverju? Vegna þess að þarna var tekið á því sem hefur verið hluti hinna helgu véa í íslenskum ríkisrekstri, það eru landamerkin milli ráðuneyta. Það má aldrei íhuga að sameina stofnanir sem eru ekki undir sömu ráðuneytum og af því að sjómælingar voru undir öðru ráðuneyti en landmælingar, var þessi fína hugmynd skotin niður eins og rjúpa á flugi. Þessi hefðbundnu mörk milli ráðuneytanna eru nefnilega óumbreytanleg í landslagi ríkisins alveg eins og Esjan er í landslagi okkar Reykvíkinga. Það er þessi ósýnilega fimmta herdeild embættismannanna sem jafnan kemur til sögunnar þegar að þessum hlutum kemur.

Ég minnist þess líka, herra forseti, að ég gerði veikburða tilraun til að sameina örsmáa stofnun, sem nokkuð er kunn orðin og heitir embætti veiðistjóra, Náttúrufræðistofnun. Þá risu auðvitað upp smákóngar í a.m.k. tveimur flokkum sem töldu að með því væri verið að vega að íslenskri bændastétt. En ég veit að eftirmaður minn í embætti umhvrh., hæstv. ráðherra Guðmundur Bjarnason, er kjarkmenni og hann mun þegar fram líða stundir freista þess að sameina þetta aftur á nýjan leik.

Auðvitað eru margar svona stofnanir sem þyrfti að ráðast í og fyrst ég er kominn í þennan stofnanaham vil ég taka fleiri dæmi. Hvað vinna margar stofnanir á sviði matvælarannsókna? Það er Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, það er hið fræga embætti yfirdýralæknis, það er Rannsóknastofa landbúnaðarins, það er komin ný stofnun á Akureyri, það er Hollustuvernd ríkisins og nú síðast fréttist af því að landlæknir er búinn að stofna rollubú austur á fjörðum til að kanna hvaða áhrif fitusýrur hafa á hjartalag Egilsstaðabúa miðað við Vestur-Íslendinga. (Gripið fram í.) Já, og hér er enn ein stofnun nefnd til sögunnar. Það sem ég er að leggja áherslu á, herra forseti, er að ég fagna því að hér er kominn vísir að því sem ég vænti að verði uppstokkun á öllu ríkiskerfinu. Ég held t.d. að það sé nauðsynlegt fyrir atvinnulífið að rannsóknastofnunum verði steypt saman í burðugri heild.

Ég minnist þess, herra forseti, að á síðasta kjörtímabili sat ég sem almennur þingmaður í nefnd sem var fengið það verkefni að véla um sameiningu þriggja rannsóknastofnana atvinnulífsins, Orkustofnunar, Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar. Formaður þessarar nefndar var einn af hinum ungu kraftmiklu spútnikum í athafnalífinu og tillögur nefndarinnar voru mjög góðar, en auðvitað voru þær drepnar af smákóngum í kerfinu. En, herra forseti, það ber að fagna því sem vel er gert og ég fagna því að loksins er hæstv. fjmrh. hættur að tala um að sameina stofnanir. Hann er farinn að framkvæma, að vísu í gegnum aðra ráðherra, en þetta er stefna sem voru lögð drög að í tíð síðustu ríkisstjórnar og þetta er partur af vissri uppstokkun í ríkisrekstrinum sem Alþfl. ásamt Sjálfstfl. í tíð fyrrv. ríkisstjórnar átti frumburðarrétt að og við munum að sjálfsögðu ganga eftir því að þessari stefnu verði enn frekar hrint í framkvæmd. Það er ekki nóg að láta staðar numið við þessar stofnanir, það þarf að fara víðar. Það þarf t.d. að taka þær stofnanir sem ég drap á hér áðan. Herra forseti. Aftur færi ég hv. samgn. þakkir mínar fyrir afskaplega vel unnið verk.