Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:37:52 (3666)

1996-03-06 19:37:52# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:37]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir hugleiðingar hv. 4. þm. Austurl. um spurninguna um stjórn stofnana. Ég tel eins og ég hef þegar sagt nokkrum sinnum í dag mikilvægt að við mörkum þessu almenna stefnu. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að við tökum ákvörðun um þetta í eitt og eitt skipti. Það er eðlilegast að við höfum um þetta ákveðna stefnumótun og vinnum síðan í anda hennar. Í raun og veru hefur sú þróun átt sér stað undanfarin ár að við höfum verið að setja stjórnir yfir stofnanir í ríkari mæli. Ég man ekki eftir stofnun þar sem stjórn hefur beinlínis verið lögð af en ég man hins vegar eftir nýlegu dæmi þar sem það var ákveðið að setja stórri ríkisstofnun stjórn, þ.e. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem nýlega var sett stjórn og ég tel að hafi verið mjög skynsamlegt. (Gripið fram í: Gleymdu ekki Löggildingarstofunni.) Hv. þm. bætir við Löggildingarstofunni. Ég tel það mjög eðlilegt varðandi t.d. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem er fyrirtæki sem er komið í nýtt umhverfi. Það þarf að geta brugðist hratt við og þarf að geta unnið býsna sjálfstætt. Inn á hennar borð koma mörg mál sem er langeðlilegast að stjórn stofnunar taki ákvörðun um en lendi ekki sífellt á ráðherraborði eins og við þekkjum mörg dæmi um, samanber það að jafnvel ákvarðanir um opnun einstakra útibúa Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins voru á ákvörðunarvaldi hæstv. fjmrh.

Ég er líka sammála því sem hér hefur komið fram að það sé eðlilegt að stjórnir fylgi ráðherra og skipt sé um stjórnir að loknum alþingiskosningum. Það er raunar gert. Ákveðin stefnumótun kemur fram í því máli í breytingartillögum samgn. varðandi skipan bæði hafnaráðs og siglingaráðs. Þar er gert ráð fyrir mikilli breytingu frá því sem var í upphaflegu frv. Það er einmitt gengið í þá átt sem hv. 4. þm. Austurl. var að segja varðandi skipan stjórnarinnar þannig að ég held að þeirrar stefnumótunar sjái stað í þessum breytingartillögum.