Réttur bænda o.fl. til atvinnuleysisbóta

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:19:02 (3741)

1996-03-11 15:19:02# 120. lþ. 104.1 fundur 218#B réttur bænda til atvinnuleysisbóta# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er sannarlega gott að vita að hæstv. ráðherra hefur ekki skipt um skoðun. Hann stendur við allt sem hann hefur sagt um að þetta ástand sé gjörsamlega óþolandi og réttarstaða aðila, sem borga iðgjöld að fullu í sjóðinn en njóta sáralítils eða einskis verðs réttar, gangi ekki.

Hitt er öllu lakara að hæstv. ráðherra, á því hefur hv. þm. Pátt Pétursson e.t.v. ekki átt von þegar hann hafði uppi þessi stóru orð svo seint sem 3. febr. 1995, hefur núna vald til þess að breyta þessum hlutum. Það vill nefnilega svo til að það er í reglugerðarvaldi hæstv. ráðherra að stórbæta stöðu þessara hópa gagnvart þessum hlutum. Við deildum á síðasta kjörtímabili á fyrrv. félmrh. Alþfl. fyrir að útfæra ekki þessa hluti þannig með reglugerð að bændur, sjómenn og aðrir slíkir nytu meiri réttar. Nú hefur hæstv. félmrh. Páll Pétursson þetta vald og er búinn að hafa hátt í ár. Það er því heldur dauflegt miðað við hin stóru orð og hinn einbeitta ásetning hæstv. ráðherra að skjóta sér á bak við einhverjar tvær nefndir sem séu að damla í þessu. Hæstv. ráðherra hefði strax daginn eftir að hann tók við embætti getað gert alvöru úr stóru orðunum með þeim einfalda hætti að hafa samband við hæstv. fjmrh. og tilkynna honum um að hann mundi gefa út reglugerð um bætta réttarstöðu þessara hópa.