Kirkjugarðurinn á Bessastöðum

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:24:04 (3745)

1996-03-11 15:24:04# 120. lþ. 104.1 fundur 219#B kirkjugarðurinn á Bessastöðum# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:24]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Í fjölmiðlum nýverið hefur komið fram að svonefnd Bessastaðanefnd hefur tekið ákvörðun um það að loka kirkjugarðinum á Bessastöðum. Með öðrum orðum að íbúar Bessastaðahrepps hafi þar ekki lengur möguleika til þess að grafa sitt fólk. Nú veit ég vel að Bessastaðanefnd heyrir undir hæstv. forsrh., en þar sem staðgengill hans er ekki til staðar í dag þykir mér við hæfi að beina fyrirspurn til hæstv. kirkjumrh. og spyrjast fyrir um það hvort ákvörðun af þessu tagi hafi verið tekin, með heimild hvers og síðast en ekki síst hvers vegna. Samkvæmt þessum sömu heimildum sem ég vísaði til þýðir þetta í raun að íbúum Bessastaðahrepps verður væntanlega vísað í önnur sveitarfélög þegar að þessum stóradómi kemur. Ég sé engin efnisrök standa til þess að þetta höfuðból, Bessastaðir, kirkjustaður til alda, og með nauðsynlegri þjónustu sem því fylgir, skuli vera lokaður heimamönnum eins og hér um ræðir.

Ég vænti þess að hæstv. kirkjumrh. geti upplýst um málið.