Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:06:58 (3753)

1996-03-11 16:06:58# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:06]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að gera örlitla athugasemd við þennan málflutning. Þar var nánast fullyrt að það væru 20--40 sem mundu leita sér þessarar aðstoðar og það mundi kosta 4--10 millj. En það stendur mjög skýrum stöfum í áliti eða umsögn fjmrn. að það sé algjörlega ógerlegt að meta hversu margir einstaklingar mundu nýta sér þessa aðstoð. En færi svo að þeir yrðu 20--40, það er bara tekið sem dæmi, þá mundi það kosta 4--10 milljónir. Ég get því ekki setið undir því að það sé nánast fullyrt að það verði einungis 20--40 sem muni leita sér þessarar réttaraðstoðar.

Það er líka ágætt að minnast á það í leiðinni að í bígerð er að koma fram með frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem innheimtumenn geta mælt með því að farið sé í nauðasamninga ef það er bæði skuldara og ríkissjóði í hag. Það liggur líka fyrir frv., sem hæstv. félmrh. Páll Pétursson mun mæla fyrir á eftir, um Innheimtustofnun sveitarfélaga og samkvæmt því fá meðlagsgreiðendur, sem skulda háar fjárhæðir, tækifæri til að fara í nauðasamninga og fá þar felldan niður höfuðstól ef þeir hafa greitt lækkaðar mánaðargreiðslur í a.m.k. þrjú ár. Það verður því að skoða þetta allt í heild. Þessi þrjú frumvörp munu vinna saman og ég tel að það geti verið mjög ásættanleg niðurstaða sem við fáum fyrir það fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum þegar þau verða öll komin til framkvæmda.