Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:43:49 (3764)

1996-03-11 16:43:49# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Umræðan um þetta frv. hefur tekið dálítið sérkennilega stefnu í dag. Það er hæstv. dómsmrh. sem leggur fram frv. en allir þeir sem taka til máls um það kjósa fremur að eiga orðastað við hæstv. félmrh. Það er auðvitað skiljanlegt vegna þess að hæstv. dómsmrh. gengur erinda hæstv. félmrh. og leggur fram frv. til laga um réttaraðstoð við einstaklinga sem vilja leita nauðasamninga. Og að því er manni skilst á framsögu málsins er þetta partur af því að standa við það loforð sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem drepið var á húsnæðismál.

Herra forseti. Ég sagði: ,,þar sem drepið var á húsnæðismál`` vegna þess að húsnæðismál voru varla tilgreind sérstaklega í stefnuyfirlýsingunni og það sætti miklum undrum þegar hún loksins sá ljós vegna þess að hæstv. félmrh. og hans flokkur hafði í heilli kosningabaráttu varla haft annað á vörunum en það að nú yrði loksins kippt í lag öllum vanda þeirra sem ættu við erfiðleika að glíma í húsbyggingum og vegna húsnæðislána. En það vakti sérstaka eftirtekt, herra forseti, að eftir allt geip þeirra framsóknarmanna, eftir öll loforðin um greiðsluaðlögun og eftir öll frýjunarorð þeirra í síðustu ríkisstjórn er hvergi að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar neitt sem lýtur að greiðsluaðlögun. Orðið greiðsluaðlögun kemur þar ekki fyrir, herra forseti. Það er þess vegna ekkert skrýtið þó að menn kjósi að leyfa hæstv. dómsmrh. að sofa áfram værum blundi í sínum sessi vegna þess að menn hafa engan sérstakan áhuga á því að eiga við hann orðastað um þetta. Menn þakka þetta ágæta frv. sem hér er lagt fram en það nær ærið skammt. Menn vilja hins vegar eiga orðastað við hæstv. félmrh. vegna þess að það er hann sem flutti loforðin og það er hann sem hefur svikið loforðin. Það þykir mér slæmt vegna þess að ég tel rétt að það komi fram að mér þykir að hæstv. félmrh. hafi að mörgu leyti góð tök á sínum málaflokkum. En hann nær því ekki að efna loforðin sem voru gefin fyrir hönd Framsfl. í síðustu kosningabaráttu.

[16:45]

Ég hef áður tekið það fram að hæstv. félmrh. var ekki sá framsóknarmanna sem mestu lofaði en hann var eigi að síður partur af þeirri forustu sem bjó til væntingar gagnvart fátæku fólki úti um allt þjóðfélag, um að kæmist Framsfl. til valda yrði þeirra vanda kippt í lag. Menn bera ákveðnar skyldur. Hæstv. félmrh. er partur af forustu flokksins sem lagði fram þessi loforð og það er hann sem er ábyrgur fyrir þessum málaflokki og þess vegna er það hans að efna loforðin sem fyrir hans hönd og forustu Framsfl. voru gefin.

Herra forseti. Það var óvenjuauðmjúkur félmrh. sem sté í stólinn fyrr í dag þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að inna hann eftir því hvað liði hundsbótunum eins og hann sjálfur kallaði bætur til einyrkja á síðasta kjörtímabili. Þá var það auðmjúkur hæstv. félmrh. sem sté í stólinn og sagði veikum rómi að vissulega vildi hann að hlutirnir gengju eilítið hraðar en þeir gera. Nú er það svo að ég tel engin föng til þess að ásaka hæstv. félmrh. fyrir það að hlutirnir gangi eitthvað hægar hjá honum en öðrum ráðherrum Framsfl., nema síður væri. Það er hins vegar svo að þó að hann verði kannski ekki ásakaður um að hafa fætur úr gúmmíi virðist samt sem áður svo að hann hafi kiknað gagnvart Sjálfstfl. Það var hæstv. félmrh. sem tók það að sér að hrinda í framkvæmd þeim væntingum sem Framsfl. hafði skapað. Og það var eitt mál sérstaklega sem Framsfl. hafði dregið úr pússi sínu og hafði lofað í þessum þingsölum og frammi fyrir þjóðinni, í ræðum forustumanna og í auglýsingum sem forustumennirnir keyptu í dagblöðum þjóðarinnar. Það var greiðsluaðlögunin.

Hverjir voru það, herra forseti, sem komu aftur og aftur upp í tíð síðustu ríkisstjórnar og ragmönuðu menn um að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun þegar þeim þótti hægt ganga? Hvað gerðu þeir þá? Þeir lögðu fram sitt eigið frv. Það var Framsfl. sem lagði fram frv. um greiðsluaðlögun í þessum sölum. Það vakti ánægju víða, það vakti fögnuð og það sem var kannski verst, það kveikti vonir með fátæku fólki sem var kannski í nauðum statt. Framsfl. hlaut brautargengi út á þessi miklu loforð. Það voru ekki síst loforðin í húsnæðismálunum sem gerðu það að verkum að fullt af fólki treysti flokknum og greiddi honum atkvæði sitt og fleytti til valdastóla. Menn bíða enn eftir því að lagt verði fram frv. um greiðsluaðlögun.

Það kom skýrt fram til að mynda í grein sem hæstv. viðskrh. skrifaði að mig minnir 29. mars sl. í Tímanum að ef Framsfl. næði þeim áfanga að komast í ríkisstjórn yrði þetta frv. um greiðsluaðlögunina endurflutt. Er það rangminni hjá mér, herra forseti, að einn af flm. hafi heitað Páll Pétursson, þáv. hv. þm. og núv. mikilsvirtur ef ekki hæstv. félmrh.? Ég held að það sé ekki misminni hjá mér. Hann var einn flutningsmanna og fyrir hönd hans lofaði hæstv. viðskrh. því að lagt yrði fram frv. um greiðsluaðlögun. Nú virðist mér á þeirri umræðu sem hefur spunnist í tengslum við þetta frv. til laga um réttaraðstoð við þá einstaklinga sem vilja leita nauðasamninga að það komi ekkert frv. um greiðsluaðlögun.

Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. félmrh. lýsi því yfir á eftir hvort við því sé að búast að fram komi frv. um greiðsluaðlögun. Mér er að vísu kunnugt um það, herra forseti, að hann hefur skipað ýmsum af nýsveinum Framsfl. í nefndir hist og her úti um þjóðfélagið. Þeir eru að vinna að hinum og þessum málum og allt eru þetta góðir og gegnir menn sem læra vafalaust margt af því að fá að leika hálffrjálsum hala undir handarjaðri hæstv. félmrh. En ef það er svo að þetta er eini afraksturinn af verkum þessara ágætu nýsveina Framsfl. og ef það er einvörðungu með þessum hætti sem hæstv. félmrh. ætlar að efna loforð sín þá segi ég tvennt, herra forseti: Litlu verður Vöggur feginn. Í öðru lagi segi ég til nýsveina Framsfl.: Ill var þín gangan fyrsta, ef þetta er það eina sem út úr þessu kemur, herra forseti.

Ég held að nauðsynlegt sé, herra forseti, að menn rifji aðeins upp málflutning hæstv. félmrh. og Framsfl. á síðasta kjörtímabili. Þá var það eitur í þeirra beinum ef þáv. félmrh. settu niður nefndir til þess að kanna vandann. Það var Framsfl. sem sagði aftur og aftur að það þyrfti ekkert að kanna vandann. Ég minnist þess, herra forseti, að það var núv. hæstv. ráðherra, Finnur Ingólfsson, sem stóð í nákvæmlega sömu sporum og ég stend núna en hann sagði 27. des. 1994, með leyfi forseta:

,,Herra forseti. Staðreyndin er nú sú að það er ekki þörf á neinni sérstakri úttekt á þeim erfiðleikum sem blasa við. Erfiðleikarnir eru alveg ljósir og ástæður þeirra eru líka alveg ljósar.``

Herra forseti. Á þessum tíma var það niðurstaða Framsfl. að málið væri alveg klárt. Greiðsluerfiðleikar fólksins í landinu lægju ljósir fyrir og það þyrfti ekkert að skoða þá frekar.

Það var þáv. hv. þm. Finnur Ingólfsson, núv. hæstv. ráðherra, sem sagði í þessari grein sem ég vísaði til áðan og birtist í Tímanum 29. mars, þar er hv. þm. og núverandi ráðherra að tala um þetta merka frv. sem hann flutti ásamt núv. félmrh. um greiðsluaðlögun og þar segir þingmaðurinn, með leyfi forseta:

,,Það er mat okkar framsóknarmanna, sem flytum þetta frv. að nú sé tími kannana og skoðana á ástandinu liðinn. Aðstæður fólksins liggi fyrir og aðstæður greiðsluerfiðleikanna séu kunnar. Því sé nú runninn upp tími aðgerða og því var þetta frv. um greiðsluaðlögun lagt upp á Alþingi.``

Herra forseti. Nú blasir við þegar maður skoðar það að hið eina sem hæstv. félmrh. hefur gert í þessum efnum er að setja menn til verka í nefndum hér og hvar. Hann telur bersýnilega með verkum sínum að það sem hæstv. viðskrh. sagði fyrir kosningar hafi verið bull og þvæla. Og, herra forseti, ég er sammála hæstv. félmrh. um það. Það var bull og þvæla sem núv. hæstv. viðskrh. sagði þá. Það var þörf á því að kanna málin en, herra forseti, undir lok síðasta kjörtímabils birtist úttekt sem sýndi vandann í hnotskurn. Það þurfti ekkert frekari kannanir. Samt sem áður er enn þá bið á frv. um greiðsluaðlögunina sem hv. þm. Páll Pétursson flutti á síðasta kjörtímabili og hæstv. ráðherra, Páli Péturssyni, ber siðferðileg skylda til þess að flytja núna. Ef hann gerir það ekki er hann ómerkingur orða sinna vegna þess að þetta voru væntingarnar sem hann skapaði á síðasta kjörtímabili með flutningi málsins. Hann sagði: ,,Svona á að leysa vandann.`` Þetta sagði hann á meðan hann var óbreyttur þingmaður. Nú er hann orðinn ráðherra, nú fer hann með málaflokkinn, nú hefur hann valdið og dýrðina. Honum ber siðferðileg skylda til þess að flytja málið og ef hann gerir það ekki er hann ekki merkur sinna orða.

Herra forseti. Ég skal hins vegar ekki gera þá kröfu til hans að hann svari því endilega hér og nú hvenær frv. kemur. Það kann vel að vera að það hafi verið allt saman rangt, málið væri svo skýrt að það þyrfti ekkert að hugsa það frekar. Það kann vel að vera að það þurfi nokkra mánuði í viðbót. Ég er alveg reiðubúinn til þess að gefa honum átta mánuði í viðbót til þess að leggja fram þetta frv.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. er það merkur ráðherra að hann skuldar okkur sem hlýddum á orð hans á síðasta kjörtímabili, hann skuldar fólkinu sem greiddi honum atkvæði og hann skuldar öllum kjósendum Framsfl. fyrst og síðast að leggja fram þetta frv.

Nú er það auðvitað svo, herra forseti, þó að hæstv. félmrh. sé maður á besta aldri og ern eftir því kann vel að vera að sökum mikilla anna í ráðuneyti sínu búi hann við mikið álag og það kann vel að vera að það leiði til þess að minni hans sé ekki jafngott og það var á síðasta kjörtímabili. En hann er heppinn. Hann á vini á óvæntum stöðum, menn sem eru alltaf til í að rifja upp hlutina fyrir honum, herra forseti, og mér finnst af þessu tilefni að nauðsynlegt sé að rifja lítillega upp hvað það var sem fleytti Framsfl. til þess mikla sigurs sem flokkurinn vann í síðustu kosningum. Það voru loforðin um húsnæðismálin og í hnotskurn, herra forseti, hvað var það sem Framsfl. lofaði?

Hann lofaði í fyrsta lagi að setja lög um greiðsluaðlögun fyrir fólk í langvarandi greiðsluerfiðleikum og það var þetta frv. sem núv. hæstv. félmrh. flutti og sem honum ber siðferðileg skylda til þess að flytja áður en allt of langur tími er liðinn.

Í öðru lagi lofaði Framsfl. að lækka tímabundið vexti af húsnæðisskuldum fólks í fjárþröng. Það gerði núv. hæstv. iðnrh. í Tímanum í lok mars en eins og þjóð veit er hann alveg sérstakur sérfræðingur um vaxtamál og hefur sérstaka yfirlýsingu um það frá einum af bankastjórum Landsbankans. Sjálfstfl. lofaði líka að frysta skuldir meðan leitað væri lausna fyrir fólk í tímabundnum erfiðleikum. Framsfl. lofaði líka að lækka beinlínis skuldir samkvæmt auglýsingu sem flokkurinn birti í DV 3. apríl. Það hefur enginn heyrt um nokkrar af þessum fyrirætlunum síðan. Hæstv. iðnrh. endurtók þetta í blaðagrein en hann er sennilega búinn að tapa minninu jafnríkulega og hæstv. félmrh. Það bólar ekkert á því, herra forseti, að skuldirnar séu lækkaðar. Það bólar ekkert á því að þær séu frystar og það bólar ekkert á frv. um greiðsluaðlögunina.

Herra forseti. Ég held að af verkunum eigi menn að dæma þessa ágætu menn og minn dómur er þegar að hníga að því að það sé ekkert að marka það sem þeir sögðu fyrir síðustu kosningar og ég held að áður en langt um líður munu kjósendur komast að sömu niðurstöðu.

Herra forseti. Það er hæstv. félmrh. sem á að fylgja eftir þeim loforðum sem forusta Framsfl. flutti. Síðan er það einstakra þingmanna Framsfl. að fylgja eftir ákveðnum loforðum sem þeir gáfu, jafnvel þó að viðkomandi mál njóti ekki hljómgrunns innan þeirra flokks.

Ég nefni t.d. að áðan kom upp vösk þingkona Framsfl., hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Hún lagði sitt af mörkum til að gera sem gildasta innstæðuna í loforðabankanum. Það var hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem í grein í Tímanum sagði að það væri hennar skoðun að það ætti að stefna að því að greiðsluhlutfallið við fyrstu íbúðarkaup færi upp í 80%. Þetta er göfugt markmið í sjálfu sér. En, herra forseti, þessi ungi, nýi þingmaður Framsfl. hefur ekkert gert svo að við í þessum þingsölum höfum séð til þess að hrinda þessu í framkvæmd.

Að lokum, herra forseti, um leið og ég spyr hæstv. félmrh. hvenær kemur að því að hann leggi fram frv. um greiðsluaðlögunina þá spyr ég líka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur: Hvenær kemur að því að hún leggur fram frv. um að lánið fari upp í 80% af kostnaði fyrstu íbúðar?