Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:01:49 (3766)

1996-03-11 17:01:49# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. er vammi firrtastur allra ráðherra Sjálfstfl. og hann á ekki að vera að blanda sér í þessa orðræðu mína við Framsfl. með svona málefnalitlu skæklatogi. Ég heyrði það hins vegar á máli hans að honum rennur til rifja að ekki skuli þokast betur í sameiningarmálum jafnaðarmanna. Má vera að það þurfi einhvern leiðtoga til að sameinast um og kannski hæstv. dómsmrh. bjóði sjálfan sig fram. A.m.k. hygg ég að mörg okkar gætu samþykkt að sameinast um þann forsetaframbjóðanda sem hann hefur lýst yfir stuðningi við. En að öðru leyti, herra forseti, er það svo eins og hæstv. dómsmrh. sagði: Félmrh. síðustu ríkisstjórna lögðu grunninn að lausn vandamálanna með því að gera úttekt á þeim. Það er byrjunin og hún lá fyrir. Hverjir sögðu að það lægi fyrir? Það voru engir aðrir en þingmenn Framsfl. sjálfs sem sögðu fyrir síðustu kosningar að nú þyrfti ekki að kanna hann frekar vegna þess að við værum búin að því, nú væri kominn tími aðgerðanna. Hvaða aðgerðir voru það sem við áttum von á? Auðvitað það sem þeir höfðu sagst ætla að gera á meðan þeir voru óbreyttir þingmenn í stjórnarandstöðu. Hvað er það sem skiptir mestu máli fyrir illa stadda skuldara þessa lands, þá sem hafa lent í erfiðleikum og nauðum vegna erfiðra húsbygginga? Það eru lög um greiðsluaðlögun. Og hverjir voru það sem lofuðu því? Það var maðurinn sem situr þarna. Hann lofaði því. Hann ber móralska skyldu til að leggja fram þetta frv. vegna þess að hann sagði að hann mundi gera það, hæstv. dómsmrh., ef hann kæmist til valda. Illu heilli hleypti þjóðin honum til valda. Þótt hann sé ágætur ráðherra miðað við hina, brennur það samt á honum að leggja fram þetta frv. vegna þess að hann lofaði því.