Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:18:14 (3770)

1996-03-11 17:18:14# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:18]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. svaraði áðan fyrirspurn minni um hvers vegna framsóknarmenn hefðu skyndilega komist að þeirri niðurstöðu að greiðsluaðlögun hentaði ekki íslenskum aðstæðum. Hann svaraði því til að hann hefði sett á stofn nefnd og nefndin hafi talið skynsamlegra að fara þá leið sem ríkisstjórnin fór og snúa þá baki við hugmyndum um greiðsluaðlögun. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið en ég tel það hins vegar ekki nægjanlega skýrt. Ég vil nota tækifærið hér og spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann sjálfur þetta vera skynsamlegri leið en greiðsluaðlögun? Telur hann hagsmuni þeirra einstaklinga sem leita aðstoðar nægilega borgið með því að gera þeim kleift að leita nauðasamninga eins og frv. gerir ráð fyrir? Ég vil líka spyrja hann sömu spurningar og ég spurði reyndar hæstv. dómsmrh. áðan: Hvað verður um þetta fólk ef það getur ekki staðið við nauðasamningana? Gilda þá almenn ákvæði gjaldþrotaskiptalaga og gjaldþrot blasir við og það sem því fylgir?