Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:44:45 (3791)

1996-03-11 18:44:45# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns er nauðsynlegt að fram komi að það sem ég hef verið að gagnrýna, og reyndar fleiri í dag, er að það er verið að bregðast allt öðruvísi við gagnvart skuldugum heimilum en lofað var, t.d. af hálfu framsóknarmanna fyrir kosningar. Það er alveg ljóst að framsóknarmenn eru á flótta undan sínum eigin loforðum. Ég fæ ekki betur séð af ummælum þeirra sjálfstæðismanna sem hafa talað hér í dag en að greiðsluaðlögun muni aldrei verða að veruleika fyrr en sjálfstæðismenn fara úr Stjórnarráðinu. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég hef verið að gagnrýna það hér, virðulegi forseti, að með þessu er ekki verið að fara í almenn réttindi handa fólki eins og hefði verið með greiðsluaðlögun. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að hér er miklu frekar um að ræða frv. til laga um að greiða lögmönnum við ákveðin skilyrði þóknun sína sem er vissulega hægt að taka undir með honum að er mjög sérkennilegt hvernig að eigi að standa. Það er fyrst og fremst að það hafa verið skapaðar miklar væntingar í þjóðfélaginu um það hvernig eigi að taka á skuldavanda heimilanna og ég held að það sé alveg ljóst að með þessu frv. erum við að stíga mjög smátt skref. Jafnvel þótt við tökum inn þau frv. sem hv. þm. nefndi áðan held ég að verið sé að grípa til úrræða sem eru langt frá þeim væntingum sem ríkisstjórnin og ekki síst hæstv. félmrh. hefur gefið fólkinu í landinu sem á greinilega ekki að standa við.