Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:52:59 (3795)

1996-03-11 18:52:59# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum. Í 1. gr. frv. er lagt til að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði heimilt að gera tímabundna samninga við skuldara sem kveða á um að lægri upphæð verði greidd en fellur til mánaðarlega. Slíka samninga skuli endurskoða á sex mánaða fresti. Jafnframt er lagt til að stjórnin fái heimild til að afskrifa höfuðstól eða hluta hans ef um sérstakar aðstæður er að ræða hjá skuldara svo sem félagslega erfiðleika, enda séu aðstæður skuldara þannig að hann geti ekki greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans auk meðlaga sem falla til mánaðarlega. Gert er ráð fyrir að heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans verði bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 1. málsl. málsgreinarinnar.

Eins og reyndar hefur komið fram í umræðum um málið sem hér var til meðferðar næst á undan hefur verulegur vandi skapast á allmörgum heimilum, allt of mörgum heimilum, vegna vangreiddra barnsmeðlaga. Samband ísl. sveitarfélaga óskaði eftir því við mig fljótlega eftir að ég tók við embætti félmrh. að farið yrði í að reyna að leysa þennan vanda. Ég skipaði nefnd undir forustu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar. Hún var með þátttöku Sambands ísl. sveitarfélaga og þetta frv. er ávöxtur af vinnu hennar. Ég ætla ekki að orðlengja þetta, herra forseti. Frv. er nokkuð ljóst og bætir úr mjög brýnni þörf því meginatriðið er að reyna að hjálpa skuldurunum til að komast á fætur og standa í skilum. Barnsmeðlög voru hækkuð um þriðjung fyrir fáeinum árum og það varð til þess að allt of margir hættu að greiða og fóru að safna skuldum. Það er ekki góð aðferð. Það er gengið hart að mönnum sem eru í vinnu og allt of margir hafa séð sér það úrræði eitt að vinna svart eða fara á atvinnuleysisbætur vegna þess að það hefur verið gengið svo hart í kaupið þeirra. Meginatriðið er að koma mönnum í skil og láta þá halda áfram að vera í skilum. Skuldirnar við Innheimtustofnun sveitarfélaga eru yfir 5 milljarðar í meðlögum og þar af er mat manna að 4 milljarðar séu óinnheimtanlegir. Það er náttúrlega þýðingarlaust að vera að hafa þess háttar í bókhaldi.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að frv. verði sent hæstv. félmn. til meðferðar.