Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:56:10 (3847)

1996-03-12 17:56:10# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:56]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem með þá athugasemd við málflutning hv. síðasta ræðumanns að ein af ástæðunum fyrir því að þetta land er byggt er hvað veðurfar er hér hagstætt. Það er staðreynd málsins ef við berum okkur saman við umheiminn að veðurfar er mjög hagstætt á Íslandi. Það er t.d. afar sjaldgæft að menn þjáist hér fyrir sakir hita, sem er mjög algengur kvilli víða erlendis og menn taka út miklar þjáningar sakir hita. Það er einnig mjög sjaldgæft að menn þjáist reyndar fyrir kulda sakir og það er rétt að minna á það að Íslendingar hafa tekið þátt í ráðstefnum vetrarborga nú í nokkur skipti og þar hefur það komið Íslendingum að sjálfsögðu gleðilega á óvart að í löndum þar sem við höfum talið í fáfræði okkar að væri miklu þægilegra veðurfar eins og í víðáttumiklum svæðum Kanada eða jafnvel Rússlands eru raunar ekki nema um tveir mánuðir sem eru þægilegir, þ.e. vormánuður og haustmánuður, en á veturna eru menn að deyja úr kulda. Ég nefni sérstaklega borgina Calgary, þar eru menn að deyja úr kulda á vetrum en á sumrin eru menn að deyja úr hita. Mig langar til þess að varpa þeirri hugmynd fram hvort það sé ekki kominn tími til þess að menn átti sig fyllilega á því hvað veðurfar er hagstætt á Íslandi.