Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 19:06:59 (3872)

1996-03-12 19:06:59# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[19:06]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram um margt mjög áhugaverðar umræður um byggðamál. Ég held að það sé mjög gott að á Alþingi skuli menn ræða þessi mál því að það virðist ekki alltaf vera mikill áhugi á þessum málaflokki. Það sem ég vildi vitna í er t.d. það sem hv. 5. þm. Vestf. nefndi að hér duga ekki eingöngu skýrslugerðir og tölusafnanir heldur er hér um mjög pólitísk mál að ræða og það þarf að taka pólitískar ákvarðanir.

Hv. 2. þm. Vesturl. nefndi t.d. raforkumálin. Ég vil taka undir að það er þáttur sem þarf virkilega að taka á og það er pólitísk stefnumótun að það skuli vera neytendur raforku á svæðum Rariks og Orkubús Vestfjarða sem byggja upp dreifikerfið í sveitum landsins. Það hlýtur að vera pólitísk stefnumótun. Ekki eru það íbúar höfuðborgarsvæðisins sem taka þátt í því verkefni. Það er að mörgu að hyggja í þessu.

Ég vil einnig nefna það að menn hafa dundað við svona skýrslugerðir fyrr og margar ágætar. Ég vil minnast á skýrslu sem var gerð hjá Byggðastofnun árið 1989. Það var Ársæll Guðmundsson sem tók þessa skýrslu saman og hún heitir Kostnaður þéttbýlismyndunar.

Ég hef ekki orðið sérstaklega vör við það að menn hafi tekið mikið mið af þessu í sinni pólitísku stefnumótun að undanförnu en þá þótti mönnum rétt að líta á það hvernig þessi þróun væri og hvaða kostnað hún hefði í för með sér fyrir þjóðarbúið. Það verður að segjast eins og er að heildaráhrifin af þeirri byggðaþróun sem við höfum horft upp á eru afskaplega neikvæð í heild sinni fyrir þjóðarbúið. Maður hefur samt sem áður ekki séð að þetta hafi skipt verulega miklu máli í pólitískum ákvörðunum og því sem menn hafa verið að framkvæma núna á allra síðustu árum. Þessi skýrsla varð gerð 1989 og satt að segja lítið verið hampað. Þar er lagt mat á ýmsa þætti, skóla, dagvistun, vatnsveitur, vegagerð og samgöngutæki og mjög margt fleira. Eins eru huglægir þættir eins og lífskjör sem eru tekin út frá öðrum þáttum en beinum hagrænum sjónarmiðum og þróun félagsmála. Þetta þykir mér afskaplega merkileg skýrsla. Ég held að það sé ástæða til þess að fara í slíka skýrslugerð aftur. Þá á ég við að menn reyni að meta það hvert þessi þróun er að leiða okkur. Á endanum ef þetta breytist ekki, sitjum við uppi með borgríki. Það bara leiðir af sjálfu sér. Ég held að það sé ekki nokkur maður sem hefur í rauninni áhuga á því. En til þess að breyta þessari þróun verður að spyrna við fótum og það fyrr en seinna, mundi ég halda.

Að síðustu vil ég vitna í það sem hv. flm., Sighvatur Björgvinsson, sagði í upphafi að byggðamál væru sjálfstæðismál. Ég held að það sé akkúrat punkturinn og við verðum að vinna út frá því sjónarmiði.