Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 15:13:14 (3989)

1996-03-18 15:13:14# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:13]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, sem er á þskj. 703 og allshn. hefur komið sér saman um að flytja. Skaðabótalög tóku gildi á Íslandi 1. júlí 1993. Fram til þess tíma höfðu uppgjör bótamála mótast af venjum þar sem fordæmisúrlausnir dómstóla skiptu mestu máli.

Með skaðabótalögunum var að mestu horfið frá svokölluðu læknisfræðilegu örorkumati í sambandi við skaðabætur fyrir líkamstjón yfir í fjárhagslegt örorkumat. Þá fólst í lögunum mikil breyting frá eldra kerfi sem fyrst og fremst lýsir sér í tilhneigingu til þess að staðla og einfalda aðgerðir við tjónsuppgjör. Tilgangur laganna var ekki síst að stuðla að fækkun deilumála sem leggja þurfti fyrir dómstóla. Fljótlega kom þó í ljós mikil óánægja meðal lögmanna, sérstaklega með þann margfeldisstuðul sem útreikningur á fjárhagslegu örorkumati byggir á. Töldu menn þennan stuðul of lágan og mikill fjöldi tjónþola væri því að fá mun lægri bætur vegna örorku sinnar en sem næmi því fjárhagslega tjóni sem þeir urðu fyrir Þetta leiddi til þess að 18. febr. 1994 skipaði dómsmrh. nefnd þriggja manna til þess að leggja mat á það hvort ástæða væri til þess að breyta nýsettum skaðabótalögum út frá þeirri gagnrýni sem fram hefði komið. Í nefndinni áttu sæti þeir Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Skaftason, fyrrv. hæstaréttardómari, og Gunnlaugur Claessen, þáv. ríkislögmaður, nú hæstaréttardómari.

[15:15]

Nefnd þessi klofnaði í afstöðu sinni. Gestur og Gunnlaugur lögðu til að gerðar yrðu tvennar breytingar á lögunum, þ.e. að margfeldisstuðullinn yrði hækkaður í 10 og að það lágmarksmiskastig, sem bætur til tekjulausra einstaklinga grundvölluðust á, yrði lækkað úr 15% í 10%. Guðmundur taldi ekki þörf á að breyta lögunum.

Dómsmrh. sendi allshn. þessar tillögur en nefndin leit svo á að ekki væri komin næg reynsla af lögunum til þess að rétt væri að gera breytingar á þeim að svo stöddu og skilaði nefndin skýrslu til þingsins í því sambandi. Í dómi Hæstaréttar frá 30. mars 1995 mótaði rétturinn nýja stefnu um hvaða frambúðarávöxtun eigi að reikna með að fáist af greiddum bótum fyrir varanlega örorku. Í dóminum er gengið út frá því að miða skuli við 4--5% frambúðarávöxtun en samkvæmt eldra fordæmi réttarins hafði framkvæmd stuðst við 6% ávöxtun. Þessi dómur leiddi til þess að bætur fyrir varanlega örorku lækkuðu. Í tilefni af dóminum sendi allshn. þeim Gesti og Gunnlaugi bréf þar sem hún fól þeim að taka á ný upp fyrri athugun sína með hliðsjón af niðurstöðu dómsins. Jafnframt var þeim falið að yfirfara önnur ákvæði laganna og leggja mat á hvort breyta þyrfti einhverju þeirra og þá hvernig. Var þeim falið að semja frv. til laga um breytingu á skaðabótalögunum í samræmi við niðurstöður sínar.

Gestur og Gunnlaugur skiluðu álitsgerð sinni til nefndarinnar þann 10. nóv. 1995 og fylgdu henni fullbúin drög að frv. til breytinga á skaðabótalögunum, samanber fskj. með frv. því sem hér er mælt fyrir. Í tillögum þeirra eru lagðar til miklar breytingar á gildandi lögum þótt áfram sé í aðalatriðum miðað við þá stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993. Megintilefni tillagnanna er:

1. Allir séu felldir undir fjárhagslegt örorkumat, þ.e. þeir sem hafa engar eða takmarkaðar tekjur, t.d. námsmenn, atvinnulausir og heimavinnandi sbr. 8. gr. gildandi laga fái bætur fyrir varanlega örorku eftir sömu sjónarmiðum og sams konar mati og þeir sem hafa atvinnutekjur.

2. Tekinn verði upp samfelldur margföldunarstuðull til útreiknings á varanlegri örorku sem nái frá 0--83 ára aldurs og miðist hann við 4,5% frambúðarávöxtun. Stuðullinn verði hæstur við 17 ára aldur en fari síðan stiglækkandi með hækkandi aldri. Gengið er út frá að bætur til barna séu ávaxtaðar miðað við að þeim sé ætlað að bæta tekjur frá 17 ára aldri.

3. Við útreikning bóta sé miðað við meðaltal árslauna síðustu þriggja almanaksára fyrir slys í stað tekna síðustu 12 mánuði áður en slys átti sér stað.

4. Sett séu í lögin ákvæði um lágmarkslaun sem bætur taki mið af en nauðsynlegt er að hafa einhverja slíka lágmarksviðmiðun ef taka á alfarið upp fjárhagslegt örorkumat. Gert er ráð fyrir að lágmarkslaunin verði miðuð við 1,4 millj. kr. árslaun.

5. Bætur fyrir varanlegan miska verði látnar stiglækka um fjórðung frá 50--70 ára aldurs í stað þess að helmingast á tímabilinu frá 60--70 ára.

Allshn. sendi tillögurnar til umsagnar hjá ýmsum aðilum og fékk jafnframt marga gesti á fund sinn vegna málsins. Flestir þeir aðilar töldu að rétt gæti verið að huga að breytingum á gildandi lögum í þá átt að hækka bætur. Hins vegar kom fram hjá sumum gagnrýni á einstaka þætti tillagnanna. Sérstaklega er þar um að ræða þrjú atriði:

1. Lágmarkslaunaviðmiðunin gæti valdið ósanngjarnri niðurstöðu í sumum málum og að óeðlilegt sé að afmarka bótarétt fyrir varanlega örorku við eitthvert tiltekið aldursmark.

2. Tillögurnar leiði í ýmsum tilvikum til ofbóta, þ.e. að heildarbætur til hins slasaða verði hærri en nemur tekjutjóni hans þar sem áfram verði í gildi reglur laganna um að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá bótakröfu.

3. Aukinn bótaréttur gæti leitt til umtalverðrar hækkunar iðgjalda.

Allshn. hefur í vetur farið mjög ítarlega yfir málið út frá framangreindum tillögum. Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá nefndinni við skoðun málsins, svo sem hvort rétt sé að víkja frá þeirri stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993 með því að láta bætur frá öðrum en hinum bótaskylda hafa áhrif á skaðabótakröfu, hvort unnt sé að láta sömu meginreglur gilda við ákvörðun skaðabóta til tjónþola, hvort sem þeir hafa aflað sér atvinnutekna fyrir slys eða ekki og hvort rétt sé að lögfesta lágmarksviðmiðun í því sambandi, hvort réttara sé að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslu skaðabóta þegar örorkustig er hátt og hinn bótaskyldi er fær um að taka á sig slíkar skuldbindingu, hvort eðlilegra sé að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum hins slasaða fremur en heildarárslaunum, hvort möguleikar á frambúðarávöxtun séu aðrir en Hæstiréttur gengur út frá í dómi sínum frá 30. mars 1995, hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða tillögurnar ef frv. það sem ríkisstjórnin hefur látið vinna fjármagnstekjuskatt verður að lögum o.s.frv.

Nefndin telur að of mörgum spurningum sé ósvarað enn til að hægt sé að framkvæma allar þær lagabreytingar sem fram komu í tillögum tvímenninganna að sinni. Nefndin leggur því til að dómsmrh. verði falið að skipa nefnd sérfræðinga til að yfirfara skaðabótalögin í heild sinni. Í þeirri endurskoðun yrði þó sérstaklega hugað að skaðabótum fyrir líkamstjón, m.a. með hliðsjón af þeim tillögum sem allshn. lét vinna og þeim athugasemdum sem fram komu í nefndinni. Í því sambandi yrði einnig skoðað hvort þörf sé á að setja skýrari ákvæði í lögum um mat á miska og varanlegri örorku sem og eftir hvaða reglum skaðabótaskyldir aðilar eigi að greiða kostnað til sérfræðinga, þar á meðal lögmanna. Í sambandi við heildarendurskoðun laganna að öðru leyti vill nefndin benda á að á fundum hennar fór m.a. fram umræða um hvort ástæða væri til að rýmka skilyrði til miskabóta. Frv. gerir ráð fyrir að nefndinni væri gert að ljúka störfum það tímanlega að ráðherra geti eigi síðar en í október 1997 lagt tillögu nefndarinnar fyrir Alþingi í formi lagafrv.

Með hliðsjón af tillögum tvímenninganna og með tilliti til fram kominna athugasemda telur allshn. þó að ekki verði hjá því komist að gera strax á þessu þingi ákveðnar lágmarksbreytingar á lögunum. Þannig virðist alveg ljóst að sá margföldunarstuðull sem fram kemur í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaganna sé ekki nægilega hár til þess að slasað fólk fái fullnægjandi bætur fyrir fjártjón sem leiðir af varanlegri örorku. Nefndin leggur til að stigið verði það skref að þessi stuðull verði hækkaður úr 7,5 í 10 eða um þriðjung, þ.e. að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku verði árslaun tjónþola eins og þau eru skilgreind í 7. gr. margfölduð með tölunni 10. Bætur fyrir varanlega örorku munu þannig hækka um 33%. Jafnframt leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á 8. gr. laganna sem fjallar um bætur til þeirra sem hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur þannig að lágmarksákvæði 1. málsl. 2. mgr. um að engar örorkubætur greiðist þegar miskastig er minna en 15% verði breytt þannig að lágmarkið verði fært niður í 10% og gerðar samsvarandi breytingar á reiknireglu 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.

Frv. þetta gerir ráð fyrir að breytingarnar taki gildi um mitt þetta ár. Tryggingafélögin lögðu áherslu á að þar sem vátryggingariðgjöld væru yfirleitt greidd fyrir fram væri nauðsynlegt að hafa ársfyrirvara á lagabreytingum sem leiddu til hækkunar bóta. Á móti kemur að með hliðsjón af breyttri viðmiðun á frambúðarávöxtun er orðið knýjandi að hækka margföldunarstuðulinn sem fyrst. Nefndin telur rétt að fara bil beggja í þessu efni og leggur því til að gildistakan miðist við 1. júlí nk.

Breytingarnar sem nefndin er að leggja til að gerðar verði á lögunum byggjast á fyrri tillögum þeirra Gests og Gunnlaugs sem fram koma í meiri hluta nefndarinnar sem dómsmrh. skipaði 1994. Þær tillögur miðuðust reyndar við 6% frambúðarávöxtun bóta fyrir varanlega örorku en ekki 4,5% ávöxtun.

Allshn. bað Vátryggingareftirlitið að leggja mat á hvaða áhrif þessar breytingar mundu hafa á iðgjöld tryggingafélaganna. Í bréfi eftirlitsins til nefndarinnar frá 13. mars sl. kemur fram að áhrifin af breytingunni á 8. gr. séu óveruleg en þriðjungshækkun á margföldunarstuðli 6. gr. leiðir til þess að skaðabætur fyrir líkamstjón hækki í heildina um 21--25%. Er þá miðað við að allar bætur, þ.e. bætur á grundvelli miskastigs skv. 4. og 8. gr., þjáningarbætur á grundvelli 3. gr. og bætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem hlýst af. Breyting margföldunarstuðulsins hefur aðeins áhrif á bætur fyrir varanlega örorku skv. 5. gr., sbr. 5. og 6. gr. laganna. Vátryggingareftirlitið byggir í útreikningum sínum á sjö dæmum sem sett voru fram í meirihlutaáliti Gests og Gunnlaugs frá 23. júní 1994 þar sem bætur samkvæmt skaðabótalögunum voru bornar saman við reiknaðar bætur samkvæmt eldri aðferðum. Vátryggingareftirlitið reiknar þessi dæmi upp á nýtt miðað við að margföldunarstuðullinn sé 10. Með sömu forsendum fær Vátryggingareftirlitið út að heildarbætur, þ.e. jafnt fyrir líkamstjón sem annað tjón, muni hækka um 7%. Eftirlitið telur að iðgjöld ásamt fjármagnstekjum ættu að nægja fyrir tryggingafélögin til að mæta þeirri hækkun.

Allshn. leggur áherslu á að takmarkið hljóti ávallt að vera að menn fái fullar bætur fyrir það tjón sem þeir verða fyrir. Þegar um líkamstjón er að ræða getur hins vegar oft verið erfitt að meta hvað séu fullar bætur, sérstaklega þegar um ungt fólk er að ræða sem hefur ekki enn fundið sitt framtíðarstarf. Sambærileg örorka getur skert möguleika eins mjög mikið meðan hún hefur óveruleg áhrif á framtíð annars. Svo lengi sem gengið verður út frá þeirri grundvallarreglu að menn eigi að fá tjón sitt bætt að fullu er samt nauðsynlegt að hafa lögin þannig úr garði að sem sanngjörnust niðurstaða fáist í hverju tilviki fyrir sig.

Í því sambandi er vafasamt að velta sér of mikið upp úr því hvort hugsanlegar lagabreytingar hafi áhrif á iðgjöld tryggingafélaganna. Hins vegar virðist nefndinni með hliðsjón af framangreindum útreikningum Vátryggingareftirlitsins að þær breytingar sem hún leggur til að gerðar verði á lögunum strax á þessu þingi eigi ekki að þurfa að leiða til hækkunar iðgjalda.

Virðulegi forseti. Að lokum nota ég þetta tækifæri til að þakka þeim Gesti og Gunnlaugi fyrir þá miklu og vönduðu vinnu sem þeir lögðu í þetta mál. Jafnframt þakka ég nefndarmönnum fyrir einstaklega gott samstarf að málinu en nefndin lagði sig alla fram um að gera þessu máli eins góð skil og kostur var. Það er von okkar að vinna við heildarendurskoðun laganna geti farið af stað sem allra fyrst því eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir í frv. að ráðherra leggi nýtt frv. til breytinga á skaðabótalögum í síðasta lagi í upphafi haustþings á næsta ári. Nefndin óskar þess að sátt muni ríkja í þjóðfélaginu um þetta mikilvæga mál.

Að svo komnu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr.