Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 15:57:31 (3994)

1996-03-18 15:57:31# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, VS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:57]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð inn í þessa umræðu sem er um mjög mikilvægt mál og formaður hv. allshn. hefur gert grein fyrir því frv. sem lagt er fram af hv. allshn. Ég met mjög mikils að það náðist samstaða um að flytja þetta mál sem hér er á dagskrá. Það er rétt sem hefur komið fram að þetta er ákveðin millileið sem hér er farin, ákveðinn áfangi sem tekinn er í því að koma á réttlátari lögum um skaðabótarétt.

Hv. 12. þm. Reykv., Bryndís Hlöðversdóttir, taldi að þetta væru ekki metnaðarfullar breytingar sem hér er lagt til að gera á lögunum. Ég mótmæli því því að sannleikurinn er sá, og það held ég að við séum öll sammála um sem höfum setið í hv. allshn., að hér er um mjög flókið og vandasamt mál að ræða sem er þessi löggjöf. Við stóðum einfaldlega frammi fyrir því að ráða ekki við það að koma með heildartillögur um breytingar á lögunum á þeim tíma sem eftir er af þessu þingi eftir að hafa kynnt okkur það mjög vel. Ég er nokkurn veginn sannfærð um það að ef hv. þm. hefði setið í allshn. og fylgst með þessu máli frá upphafi þar hefði hún verið annarrar skoðunar.

Hvað er það sem við setjum fram sem aðalatriði við þessa löggjöf? Það hlýtur að vera að móta reglur sem leiði til þess að tjón verði að fullu bætt þó að það sé alltaf erfitt nákvæmlega að skilgreina hvað eru fullar bætur. Sannfæring mín er sú að þær tillögur sem lagðar eru fram og unnar af þeim félögum, Gesti Jónssyni og Gunnlaugi Claessen, hefðu leitt það af sér að það hefði orðið um verulegar ofbætur að ræða. Það er ekki það sem við viljum. Auðvitað er enginn vandi að búa til reglur ef við óttast ekki ofbætur, ef við hugsum bara um það eitt að allir fái örugglega nóg og enginn of lítið. En mér finnst að ofbætur séu ekki verjandi í verulegum mæli. Auðvitað er aldrei hægt að koma málum þannig fyrir að þær geti ekki átt sér stað í einstaka tilfellum, en í mínum huga geta ofbætur verið vandamál. Þess vegna þarf að skoða þetta mál í heild sinni og það er einmitt það sem lagt er til í þessu frv.

[16:00]

Annað var það sem hv. þm. nefndi og það var um gildistökuákvæði frv. sem hún taldi algerlega óskiljanlegt. Það má segja að þar sé kannski líka farin ákveðin samningaleið og sáttaleið. Það voru bæði hugmyndir um það í nefndinni og hjá okkar viðmælendum að lögin tæku gildi strax og eins hitt að þau tækju gildi eftir ár. Ástæða þess að það þykir ekki rétt að lögin taki gildi strax er sú að tryggingafélögin hafa gert samninga til langs tíma. Margir samningar eru frá mars og til árs og þar með hafa þau skuldbundið sig eða gert samninga á grundvelli þeirra laga sem eru í gildi í dag. Hvort sem við tölum um að tryggingafélögin séu allt of vel stæð efnahagslega eða ekki, þá hlýtur að vera skiljanlegt að þau þurfa aðlögunartíma. Þótt mér finnist að ár hafi verið allt of langt í þeim efnum, finnst mér vel hægt að sættast á að lögin taki gildi eins og lagt er til í frv. (KHG: Er þm. andvígur því að lögin taki strax gildi?) Já, þingmaðurinn er ekki fylgjandi því að þessi lög taki strax gildi. Þess vegna styður þingmaðurinn þetta frv. sem fram er komið og hljóðar upp á að þau taki gildi 1. júlí.

Ég vil aðeins koma inn á atriði sem kannski styður það sem ég hef verið að segja um hugsanlegar ofbætur. Samkvæmt upplýsingum sem hv. allshn. fékk frá Vátryggingareftirlitinu, hefur farið fram könnun hjá einu vátryggingafélaganna sem nær til allra tjóna sem urðu á síðari helmingi ársins 1993 og tilkynnt höfðu verið til ársloka 1995. Hafa tjónbætur verið endurreiknaðar og endurmetnar með tilliti til fyrirliggjandi tillagna fyrir hvern bótaþátt. Niðurstöður, og þá er ég að tala um tillögur tvímenninganna, eru þær að bæði tilkynnt tjón, bæði uppgerð að fullu og tjón sem að hluta til eru uppgerð, hefðu verið bætt með 35--45% hærri fjárhæðum ef fyrirliggjandi tillögur hefðu gilt sem lög á árinu 1993. Mestu munar um hækkun vegna varanlegrar örorku, þ.e. bóta vegna missis atvinnutekna og bóta til tekjulausra sem um það bil tvöfaldast samanlagt, þ.e. hækka um 100% frá gildandi skaðabótareglum en sá þáttur er um 60% bótanna samanlagt. Þetta finnst mér að séu rök inn í þá umræðu og rök fyrir því frv. sem hér er lagt fram.

Þá eru líka nýrri upplýsingar frá Vátryggingareftirlitinu. Miðað við það frv. sem nú liggur fyrir frá hv. allshn. telur Vátryggingareftirlitið að það sé ekki ástæða til að óttast verulega hækkun tryggingaiðgjalda, þótt ég vilji taka fram að mér finnst það í sjálfu sér sé ekki aðalatriði í þessu máli. Við hljótum fyrst og fremst að hugsa um að lögin séu þannig úr garði gerð að þau bæti skaða að fullu. En iðgjaldaþátturinn hefur komið inn í þessa umræðu og að mati Vátryggingareftirlitsins er ekki ástæða til þess að ætla að iðgjöld hækki verulega vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. (KHG: Hafa þau þá ekki verið of há?) Hv. þm. er örugglega heimilt að setja sig á mælendaskrá og taka þátt í þessari umræðu, þar sem ég heyri að hann hefur mikinn áhuga á málinu. (Gripið fram í: Það er skemmtilegra að gera það svona.) Sem sagt, það sem lagt er til af hv. allshn. er millileið og skref í þá átt að lögunum verði breytt frekar. Í sjálfu sér má segja að það sé slæmt að þurfa strax að breyta þessum lögum þar sem ekki er komin á þau nægilega mikil reynsla, en allshn. taldi svo greinilegt að stuðullinn væri of lágur, ekki síst eftir dóm Hæstaréttar, að það væri ekki verjandi að lögin væru óbreytt mikið lengur. Þess vegna er það ósk mín að þetta frv. verði samþykkt á þessu vorþingi.