Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:25:53 (4045)

1996-03-19 15:25:53# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gefst nú tækifæri síðar til að ræða ýmis efnisatriði sem komu fram í ræðu hv. þm. En ég vil vegna orða flokksbróður hans hér fyrr á fundinum, þar sem hann kvartaði undan hroka, aðeins rifja upp fáein atriði úr ræðu hv. þm. Í fyrsta lagi --- hann er að vísu óháður en hann er með Alþb., hefur ekki svarið sig af þeim enn þá --- hann talaði um að ég væri í hlutverki böðulsins. Hann talaði tvisvar sinnum um þá mannfyrirlitningu sem væri að finna hjá mér. (ÖJ: Og ég meina það.) Hann sagði til viðbótar að ég málaði opinbera starfsmenn upp sem spillta forréttindastétt. Það hefur kannski farið fram hjá þessum ágæta hv. þm. sem er forustumaður BSRB að fjmrn. gekkst fyrir hugmyndastefnu síðasta haust þar sem sérstök áhersla var lögð á að sýna allar þær framfarir og hugmyndir sem hafa orðið til í opinberum rekstri, í kennslu, í heilbrigðismálum, orkumálum og víða í opinberum rekstri sem sýndi það hvers megnugir opinberir starfsmenn og stjórnendur þeirra eru. Allir þeir sem töluðu þar og ræddu málin voru sammála um að það horfði til bóta ef aukið frjálsræði væri gefið í ríkisrekstrinum. Ég veit ekki hvort hv. þm. fór á þessa hugmyndastefnu. Ég hef ekki hugmynd um hvort hann hefur kynnt sér það sem er að gerast hjá opinberum stofnunum. Ég held að áður en hv. þm. notar slík orð sem hann notaði hér í ræðustólnum og hefur notað og öllu háfleygari annars staðar að undanförnu, ætti hann að kynna sér það hvernig fjmrn. og fjármálaráðherra hefur kynnt opinberan rekstur og það sem þar er að gerast að undanförnu. Þá mundi hann hugsanlega haga orðum sínum eilítið öðruvísi.