Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:30:07 (4071)

1996-03-19 18:30:07# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:30]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ánægjulegt að heyra að hv. þm. er tilbúinn til að taka þátt í því í nefndarstarfinu, hann á sæti í hv. nefnd sem fær málið til meðferðar, að prófa sig áfram með það hvernig þessar reglur gætu litið út. Mér finnst vel koma til greina að skrifa þær annaðhvort í lagatexta eða lýsa því með öðrum hætti, t.d. í nál., hvernig þessar reglur ættu helst að líta út. Við fáum tækifæri til að ræða það frekar við 2. umr. Með þessari yfirlýsingu hefur hv. þm. viðurkennt að málið fái einhvers konar meðferð í nefndinni og ég fagna því að sjálfsögðu.

Varðandi bráðabirgðalögin vil ég leggja áherslu á það að að mínu mati, kannski á það ekki að heyra undir þessa umræðu, er harla sérkennilegt að hlusta á ræðumenn Alþb. koma hingað og tala um að við séum að skerða kjör og réttindi í þessu máli þegar ljóst er að af sumu er verið að taka og annars staðar er verið að bæta við eftir atvikum. Frv. er lagt fram á þinginu vel undirbúið en ekki eins og gert var þegar ríkisstjórnin á sínum tíma samdi fyrst við opinbera starfsmenn, þar á meðal kennara, en nokkrum vikum síðar voru kjarasamningar teknir úr sambandi með bráðabirgðalögum um hásumar. Þessir menn eru ekki í góðri stöðu til að gagnrýna núverandi ríkisstjórn. Ég er hvenær sem er reiðubúinn til að bera saman afrek núverandi ríkisstjórnar og fyrrverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og svo ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar í þessum málum. Varðandi kjör minnist ég þess ekki að þar hafi verið um margt annað en kjaradóminn fræga að ræða sem ég held að Alþb. hafi stutt mjög fast að yrði afnuminn með bráðabirgðalögum. Það held ég að hv. þm. muni votta.