Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 21:57:02 (4080)

1996-03-19 21:57:02# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[21:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar í dag að hann talaði um að í þessu frv. mætti finna afnám málfrelsis hjá embættismönnum ef ég skildi hann rétt. Líklega er verið að vísa til 18. gr. frv. og 40. gr. sem fjallar um verkfallsréttinn ef ég man rétt. Báðar þessar greinar, bæði 18. gr. og 40. gr., eru í lögum nú. Önnur er í lögum frá 1915 en hin er í lögunum um opinbera starfsmenn. (ÖJ: .... sem heyra undir þessar greinar.) Já, það er hugsanlegt ef niðurstaðan verður sú að 7. tölul. í skiptingunni á milli embættismanna og annarra verður eins og hann er í frv. Ég hef margoft lýst því yfir að það er enn þá opið og ég kem að því síðar. Þetta vildi ég bara segja til þess að það sæti ekki eftir hér í umræðunni. Það er ekki verið að gera neinar breytingar á núgildandi lögum í þessu efni. Í raun og veru eru verkföll opinberra starfsmanna að meginstefnu til bönnuð í gömlum lögum en undanþága er gerð með nýrri lögum. Auðvitað vita forustumenn opinberra starfsmanna hvert formið er á löggjöfini.

Eins og hér er kallað fram í þá er í frv. gengið út frá því að lögreglumenn, fangaverðir og tollverðir verði embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þeir njóta þannig meira öryggis í starfi en aðrir en hafa á móti hvorki samnings- né verkfallsrétt ef frv. yrði að lögum. Þetta er þó ekki fastákveðið. Þetta var eitt þeirra atriða sem við vildum gjarnan ræða við forustumenn starfsmanna ríkisins og forustumenn þeirra félaga sem þarna eiga í hlut en sú umræða gat ekki orðið á því stigi málsins. En ég vek sérstaka athygli á því að á sama tíma og hv. þm. Ögmundur Jónasson fer hér geyst og segir að þarna sé verið að taka réttindi af mönnum, og það er út af fyrir sig rétt að samningsrétturinn mundi hverfa, þá er félagi hans í Alþb., sem sýnir hver munurinn er á óháðum og alþýðubandalagsmönnum, að gagnrýna það og segir að það sé verið að búa til fyrsta flokks embættismenn með sérréttindi. Í þeirri yfirlýsingu hv. þm. felst það að í frv. sé verið að gera fangaverði, tollverði og lögregluþjóna að einhvers konar fyrsta flokks embættismönnum. Ég vek athygli á því hve mikið misræmi er í málflutningi þessara manna sem koma hvor úr sinni áttinni en eru þó samstarfsmenn á yfirstandandi kjörtímabili.

Ég ítreka það enn á ný að það er ekki verið að skerða nein réttindi sem samið var um í kjarasamningum. Þau réttindi sem hér er um að ræða voru tekin í lög 1954, átta árum áður en opinberir starfsmenn fengu samningsrétt en það gerðist fyrst 1962.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson taldi að gildissvið laganna væri þrengt. Sannleikurinn er sá að gildissviðið er rýmkað en ekki þrengt því að það nær nú til allra starfsmanna sem samið er við hvort sem þeir eru í félögum svokallaðra opinberra starfsmanna eða í öðrum félögum. Þetta er þess vegna réttarbót fyrir stóran hóp starfsmanna ríkisins.

Ákvæðið í 2. gr. frv. er hins vegar í samræmi við núgildandi lög, þ.e. að starfsmenn hlutafélaga í eigu ríkisins heyra ekki undir lögin nr. 38/1954, né heldur banka --- ja, reyndar bankastarfsmenn í þeim skilningi að dómstólar hafa jafnað skyldum stundum til þeirra, það er áhorfsmál hvort þeir hafi biðlaunarétt o.s.frv. Um auglýsingarnar hef ég áður talað.

Það var mjög athyglisvert að hlusta á hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ræða hér málið í dag því hann var á móti því að halda æviráðningunni. Það tók enginn meira upp í sig í því máli en hann. Hann var á móti því að biðlaunarétturinn tvöfaldaði laun í sömu störfum hjá sama vinnuveitanda og hann fagnaði valddreifingu til stofnana. En svo sagði hann: Ég er á móti því að verið sé að afnema áunnin réttindi og dæmið sem hann tók þar var að nú fengju menn ekki lengur fyrirframgreidd laun. Það skal tekið fram sem hv. þm. vissi ekki ... (Gripið fram í: Hann tók samningsrétt og líka þetta.) Já, en hann tók þetta sérstaklega fyrir. Það var búið að svara því. Í andsvari sem ég flutti í dag tók ég sérstaklega fram það sem ég sagði nú fyrr í minni ræðu að það mál er allt opið og er til samninga enn þá. Það er ekkert verið að slá neinu föstu í sambandi við lögreglumennina, fangaverðina eða tollverðina. En í sambandi við fyrirframgreiðsluna, þá mun hún að sjálfsögðu gilda fyrir alla núverandi starfsmenn ríkisins og þessi regla gildir einungis fyrir þá sem munu fá störf eftir gildistöku frv. þegar það verður að lögum. (Gripið fram í.) Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði að því í sinni ræðu og ástæðan er einfaldlega sú að þetta er regla sem er meginreglan á íslenskum kjaramarkaði. Þannig er farið að víðast. Ég sé ekki ástæðuna fyrir því nú þegar opinberir starfsmenn hafa upp til hópa samnings- og verkfallsrétt eins og aðrir eigi þeir að fá fyrirframgreidd laun fyrir vinnu sem þeir hafa ekki enn þá unnið, þannig er það sjaldnast. Hitt er svo annað mál að þetta er ekki það atriði sem mér er fastast í hendi í frv., ég skal taka það fram.

Hv. þm. Ágúst Einarsson fjallaði um tilflutning í störfum. Það skal tekið fram að ákvæði 36. gr. frv. er byggt á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar sem veitir forseta Íslands, það á að skiljast ráðherrum, heimild til að flytja embættismenn úr einu embætti í annað. Það er til í lögum. Ákvæðið í 2. mgr. 46. gr. frv. er að finna í niðurlagi 1. mgr. 15. gr. núgildandi starfsmannalaga þannig að þar er ekkert nýtt á ferðinni. Það ákvæði fjallar um uppsagnir starfsmanna og hvenær megi halda þeim að störfum.

Og í 2. mgr. 47. gr. þar sem fjallað er um þá sem kjósa að standa utan stéttarfélaga og menn hafa gert hér mikið mál úr, þá er nákvæmlega þessi hugsun til í núgildandi lögum, þ.e. í 2. mgr. 7. gr. núgildandi laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Þetta er í lögum. Þetta er ekkert nýtt. Það er ekkert verið að gera neitt nýtt.

[22:00]

Hv. þm. Svavar Gestsson taldi að með frv. væri verið að ganga á svig við þær hugmyndir sem komu fram hér við breytingar á stjórnarskránni. Það er ekki ætlunin í þessu frv. Ég minni á að til skamms tíma voru í gildi ákvæði sem ég man ekki hvort enn þá eru í gildi um það að ráðherra getur raðað mönnum ef ákveðnir aðilar æskja þess. Mig minnir að því hafi verið breytt þegar kjaranefndin kom til skjalanna. En þannig var það. Menn gátu komið til ráðherrans og óskað eftir að verða ráðherraraðaðir eins og það kallaðist. Ég veit að þetta þekkir t.d. formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hann veit líka hvernig það var notað af ráðherrum í gegnum tíðina þó ég hafi losað mig frá því og ekki staðið sjálfur að slíku á undanförnum árum.

Ég segi um biðlaunaréttinn að hann er einstaklingsbundinn réttur. Hann er ekki réttur sem byggir á kjarasamningum. Ég endurtek að það stríðir gegn allri sanngirni að menn séu á tvöföldum launum í sömu störfum hjá sömu aðilum. Og af því það var spurt um Póst og síma þá er þannig gengið frá hnútunum í því sambandi að ef þessi frv. verða að lögum eins og þau standa núna með gildistökuákvæðum mun þetta frv. taka gildi fyrr og tilvísunin í póst- og símalögunum vísar til nýju laganna því það er tilvísun til starfsmannalaganna í póst- og símafrumvarpinu. Þá skal geta þess að það er þrengri markaður fyrir starfsmenn Pósts og síma en fyrir ríkisstarfsmenn því að biðlaunarétturinn verður ekki til þegar mönnum er sagt upp heldur þegar störf eru lögð niður.

Mig langar til að lesa hér, með leyfi forseta, klausu sem er svona: ,,Til að samræma framleiðniaukningu og umbætur í launamálum telur samninganefnd ríkisins að efla verði valdsvið, ábyrgð og skyldur forstöðumanna ríkisstofnana og fyrirtækja þannig að þeir geti haft frumkvæði í auknu fjárhagslegu forræði stofnananna.``

Þetta er yfirlýsing sem ég stóð að á sínum tíma og var samin af þáv. formanni samninganefndar ríkisins og flutt af honum í samningum sem hann stýrði fyrir hönd ríkisvaldsins. Sá maður er hv. þm. Ágúst Einarsson og sýnir að hann styður væntanlega þá valddreifingu sem verið er að leggja til í frv. Og ekki einungis hann. Ég ætla að lesa hér fleira, með leyfi forseta. Hér segir í ræðu sem nýlega var flutt hjá borginni:

,,Borgarstjórn gerir stofnanirnar sjálfstæðari og um leið ábyrgari fyrir verkefnum sínum.`` Síðar segir: ,,Borgarstjóri láti stofnanirnar sjálfar ráða sér dugandi starfsmenn á þeim kjörum umfram lög og samningsbundin kjör eins og hver stofnun treystir sér til. (ÖS: Það er búið að lesa þetta í dag.) Aldrei er of góð vísa oft kveðin, eins og einhver sagði. En þetta var Birgir Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri BHM, og hann styður það eins og BHM að færa vald út til stofnananna.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði síðastur fyrir kvöldmatarhlé og ræddi um ýmis atriði og hann eins og fleiri kom eðlilega að lífeyrismálunum. Ég vil enn á ný undirstrika það sem ég hef sagt margoft að það er verulegur munur á réttindunum sem eru í lífeyrissjóðafrv. og lífeyrissjóðalögunum, réttindum sem þar er að finna og hinum réttindunum sem eru í þessu frv. og er breyting á lögum sem voru til áður en samningsrétturinn varð til. Það er verulegur munur á þessu tvennu. Og ég ætla að reyna að segja frá því til viðbótar að þegar fulltrúar opinberra starfsmanna komu á fund ríkisstjórnarinnar fyrir u.þ.b. þremur til fjórum vikum, fjögurra ráðherra í Stjórnarráðinu, var nokkuð rætt um þessi mál. Þá kom fram af hálfu Páls Halldórssonar að hann taldi að væntanlegur réttur opinbers starfsmanns sem t.d. hefði starfað í einn mánuð hjá ríkinu, væntanlegur réttur hans sem gæti komið upp 30--40 árum seinna vegna 95 ára reglunnar, væri í raun og veru áunnin réttindi. Þessi yfirlýsing ásamt sumu öðru benti til þess að hér er um að ræða mjög vandmeðfarin einstaklingsbundin réttindi og okkur þótti ástæða til að láta lögfræðinga kanna þetta mjög rækilega. Til þess starfs var efnt í nefnd sem fjórir forustumenn opinberra starfsmanna eiga sæti í. Það er þessi lífeyrisnefnd og þetta er til skoðunar núna þessa dagana. Þetta hefur tafið málið og orðið til þess að ég get ekki á þessari stundu nákvæmlega sagt hvenær frv. kemur fram. Þannig að það hefur legið fyrir í nokkrar vikur að það frv. er ekki tilbúið og á eftir að breytast. Það er líka hárrétt að tryggingastærðfræðingur komst að þeirri niðurstöðu að líkast til mundu ákvæði frumvarpsdraganna skerða réttindin. Ég býst við því að tryggingastærðfræðingur sem er að vinna á vegum fjmrn. --- og ég heyrði líka í fréttum, hafði nú ekki séð neitt, heyrði bara í fréttum eins og formaður BSRB, hefði skilað niðurstöðum. Ég hafði ekki hugmynd um það sjálfur. Ég er ekkert hissa á því þótt hann kæmist að svipuðum niðurstöðum því forsendur þeirra eru mjög líkar. Þetta þarf að skoða mjög rækilega því það hefur aldrei staðið til og ég vil ítreka það enn einu sinni að það hefur aldrei staðið til að skerða áunnin réttindi opinberra starfsmanna. Það hefur alltaf staðið til að réttindi þeirra yrðu eftir breytinguna samsvarandi og fyrir breytinguna. (ÖJ: Samt ... ekki tillögur í þá veru.) Það er ekki rétt. (ÖJ: Jú, það er rétt.) Það getur orðið tilfærsla á milli réttindanna. (ÖJ: Þá á ráðherrann ... áunnin réttindi.) Ég á náttúrlega fyrst og fremst við það sem er alveg augljóst og það er sá réttur sem hefur orðið til vegna framlaga í sjóðinn frá upphafi. (ÖJ: Allra framlaga?) Já, allra framlaga frá upphafi. Spurt er hvort það megi loka þeim réttindum í þeim skilningi að meta stöðuna nú til fjár og frysta hana og verðabæta fram í tímann. Nú má ég til með, fyrst farið er að ræða um frv. sem alls ekki er hér til umræðu, að skýra það sem ég hef ekki gert fyrr í dag. Það er að ástæðan fyrir því að það er verið að reyna að útrýma 32 ára reglunni, 95 ára reglunni sem er ekki til hjá sveitarfélögunum, hún er ekki til hjá Reykjavíkurborg, og eftirmannsreglunni er eingöngu sú að það er ekki hægt fyrir vinnuveitandann að greiða í sjóðinn ákveðna upphæð sem svarar til útborgunar þegar útborgunin er svo óviss að enginn veit fyrir fram hver hún verður vegna þess að hún miðast við eitthvað allt annað en innborgunina. Og það er af þessari ástæðu sem menn eru að reyna að finna lausn á þessu máli. Það stendur ekki til að ríkið sé að spara á þessu. Þvert á móti má gera ráð fyrir því t.d. að á greiðslugrunni aukist halli ríkissjóðs um milljarða vegna þessara breytinga vegna þess að það er verið að stefna að því að ríkið leggi til hliðar jafnóðum þá fjármuni sem þarf að leggja fram. En ég segi: þetta frv. er ekki hér til umræðu. Frumvarpsdrögin liggja í nefnd. Í nefndinni eru fulltrúar opinberra starfsmanna og menn eru að reyna að finna sameiginlegar forsendur í málinu. Svo einfalt er það mál. Svo geta menn leikið sér að því að segja að forsætisráðherra hafi slegið á puttana á fjármálaráðherra og fjármálaráðherra sé ekki á sama máli og forsætisráðherra. Menn mega leika sér eins og þeir vilja í þeim efnum en þetta eru staðreyndir málsins.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi um upplýsingaritið. Ég get sagt honum að hann getur fengið að sjá reikningana yfir það. Það er mjög ódýrt. Það var gert eins ódýrt eins og hægt var. Ég tel það skyldu mína, það er lýðræðisleg skylda mín að skýra út hvað er í þessum frv., ekki síst eftir að útspil opinberra starfsmanna kom þar sem ranglega var farið með mörg atriði. (ÖJ: Hvaða atriði?) Með fjölda atriða vegna þess fyrst og fremst að upplýsingar ef kalla má þetta upplýsingar opinberra starfsmanna eða áróður þeirra miðaðist við frumvarpsdrög sem voru ekki endanleg og í öðru lagi vegna þess að sumir forustumenn opinberra starfsmanna misskildu greinilega það sem kom fram í frv. (ÖJ: Hverjir?)

Varðandi fæðingarorlof og veikindaréttindi hef ég áður rætt. Það stendur ekki til og er ekki verið að breyta því í frv.

Ég hef reynt að ræða hér um áunnin réttindi. Hvað eru áunnin réttindi? Nú get ég ekki --- það verða betri lögfræðingar en ég að skoða það rækilega --- en ef talað er um áunnin eignarréttindi þá er gert ráð fyrir því almennt að þau séu það sem kallað er lögvarin af stjórnarskránni. Með öðrum orðum að einföld lög eins og þessi lög sem við erum að fást við núna eða lög um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna mundu ekki verða til þess, þó þau yrðu samþykkt hér, að menn misstu eignir sínar. Það verða að koma bætur í staðinn. (Gripið fram í: Eftir því hverjar eignirnar eru.) Já. Spurningin er svo: Hver eru þessi áunnu eignarréttindi? Það er verið að skoða núna. Tveir prófessorar í háskólanum voru fengnir til að skoða þetta mál rækilega því þetta snertir miklu fleiri og stærri mál en þetta lífeyrissjóðamál. Ég veit að það eru mjög góðir lögfræðingar í þingflokki Alþb. sem geta áreiðanlega skýrt þetta miklu betur út á þingflokksfundum þar en ég geri hér úr ræðustóli. (ÖS: Skortir lögfræðinga .. ?) Nei, nei, nei. Það er ágætur lögfræðingur og þá hef ég sérstaklega í huga hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur svo það fari nú ekki milli mála. (Gripið fram í: Já. Þetta er rétt.)

Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi sérstaklega þessi mál og spurði um ýmislegt. Hann spurði t.d. um grunnskólafrv. og samband þess við þau frv. sem hér hafa verið til umræðu, einkum og sér í lagi frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en einnig um frumvarpsdrögin um lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Ég ætla að reyna að svara því eftir bestu getu.

[22:15]

Í fyrsta lagi vil ég taka fram að í vinnunni við yfirfærsluna var fjmrn. mjög áberandi. Guðmundur H. Guðmundsson deildarstjóri var formaður réttindanefndarinnar og Halldór Árnason skrifstofustjóri stýrði nefndinni sem fjallaði um skiptin á milli ríkis og sveitarfélaga. Báðir komu sem sagt úr fjmrn. Það er alveg kristaltært að þegar verið var að klára frv. um réttindi og skyldur kennara var sagt frá því mjög skýrt að það stæði til að endurskoða þessa löggjöf og það var skrifað inn í frv. að viðstöddum fulltrúum opinberra starfsmanna. Það er bókað, skjalfest. (ÖJ: Hvað var þeim ljóst?) Þeim var ljóst að það stæði til að leggja frv. fram. Á bls. 9 í frv. sem búið er að vísa til menntmn. segir orðrétt, með leyfi forseta, og hlusti menn vel á:

,,Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, eru nú í endurskoðun og hyggst ríkisstjórnin leggja fram frv. til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþingi 1996. Ef það frv. nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frv. þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja.``

Þetta lá fyrir. (ÖJ: Þetta var ekki partur af samkomulaginu við kennarana.) Það er enginn að tala um það. Það er einungis verið að segja frá því að þessar upplýsingar lágu fyrir þegar gengið var frá frv. (ÖJ: Ekki hvað ætti að gera.) Að sjálfsögðu ekki. Frv. um réttindi og skyldur var ekki til á þeirri stundu. Það er verið að blanda inn í þetta frv. um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Hér á þingpöllunum er t.d. formaður Kennarasambands Íslands sem ég sé að kókiterar við flokksbræður sína. (Gripið fram í: Fáum hann í salinn.) Nei. En ég ætla að lýsa því yfir til þess að hann geti þá vottað það á eftir fyrir framan dyr, hann hefur ekki málfrelsi hér, að þegar gengið var frá verkefnayfirfærslunni og minnst á lífeyrisréttinn var það fyrst og fremst til þess að lýsa því yfir að við yfirfærsluna héldu kennarar réttindum sínum. Það var fyrst og fremst slík yfirlýsing. Þegar því nefndarstarfi lauk var hafinn undirbúningur á breytingu á lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins. Það er hins vegar jafnljóst að það lá ekkert frv. eða engin frumvarpsdrög fyrir á þessari stundu. (Gripið fram í: Og engin efnisatriði í málinu.) Engin efnisatriði í málinu, það er alveg hárrétt. Enginn hefur haldið öðru fram. Hins vegar gátu menn sagt sér sjálfir út á hvað þessar breytingar mundu ganga, sérstaklega vegna uppsöfnunar.

Ég vil einnig taka fram að það fara fram gagnlegar umræður í þessari nefnd. Ég tel að á 11 fundum hafi farið fram góðar og umfangsmiklar viðræður og ég vona að þeim haldi áfram í nefndinni sem fjallar um lífeyrismálin.

Ég hef reynt að fjalla um hvað það þýddi þegar forsrh. sagði: ,,eða höfðu ástæðu til að búast við``, þ.e. réttindi sem ríkisstarfsmenn höfðu ástæðu til að búast við í lífeyrismálunum. Ég get ekki svarað því öðruvísi en ég hef gert. Það er verið að kanna hvað þetta þýðir lögfræðilega.

Hv. þm. spurði hvenær frv. kæmi. Því get ég ekki svarað öðruvísi en ég hef þegar gert. Það kemur vonandi sem fyrst. En það kemur ekki fyrr en nefndarmennirnir í nefndinni sem eru að fjalla um lífeyrismálin eru komnir að niðurstöðu um sameiginlegar forsendur, ekki um sameiginlegar niðurstöður heldur um sameiginlegar forsendur sem þarf að byggja á, bæði tryggingafræðilegar og lögfræðilegar. Um það snýst málið. Ég vonast til þess að frv. verði lagt fram í vor. Það er bráðnauðsynlegt allra vegna að fá lausn á þessu máli sem allra fyrst. Það gæti því miður dregist til næsta hausts. Um það get ég ekkert sagt á þessari stundu. Ég tók eftir því að þegar hv. þm. Kristinn Gunnarsson flutti sitt mál, hurfu hv. alþýðubandalagsmenn úr salnum. Hann flutti ræðu sem var líklega merkilegasta ræðan sem flutt var hér í kvöld. Hann flutti ræðu sem hefði getað verið flutt af mér, þeim sem hér stendur. Hún fjallaði um lífeyrismálin eins og þau blasa við þeim sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar, fulltrúar þess fólks sem ekki eru opinberir starfsmenn. Það sem hann sagði á erindi til hv. alþýðubandalagsmanna. Ég vona að þeir hugleiði aðeins ræðu hv. þm. Kristins Gunnarssonar því að hann minntist einmitt á hættuna sem hefur komið fram vegna uppsöfnunar skuldbindinga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessari ræðu verða gerð skil í t.d. fjölmiðlum sem fylgjast með þessari umræðu í kvöld.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvernig ráðherrann hefði hugsað sér að farið yrði með mismunandi réttindi annars vegar kennaranna hjá sveitarfélögunum og hins vegar hjá starfsmönnum ríkisins. Því er til að svara að í dag eru mjög mismunandi réttindi hjá opinberum starfsmönnum eftir því hvort þeir starfa hjá sveitarfélögunum eða hjá ríkinu. Margir starfsmenn ríkisins sem eru t.d. í almennum verkalýðsfélögum hafa miklu minni réttindi en hinir sem eru félagsmenn hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þetta verða menn að hafa í huga.

Ég hef minnt á það að 95 ára reglan, sem menn eru að verja með kjafti og klóm, er ekki til í Lífeyrissjóði Reykjavíkurborgar. Í dag eru því margs konar réttindi til hjá opinberum starfsmönnum og ekkert nýtt að þau séu misjöfn. Þegar réttindin voru samin fyrir kennarana, og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það er ótal margt í því frv. sem er öðruvísi en þetta, þá var bara eitt haft að leiðarljósi. Það var að endurspegla öll þau réttindi sem voru í frv. frá 1954, hversu vitlaus sem þau voru. Og af hverju var það gert? Af hverju tóku menn sig ekki til og leiðréttu frv. og settu það til nútímahorfs? Vegna þess að niðurstaðan varð sú að halda algerlega óbreyttum réttindum því að lögin sem sett voru í fyrra skylduðu ríkisstjórnina til að flytja slíkt frv. Þess vegna var farin þessi svokallaða endurspeglunarleið. Ég skil vel að mönnum þyki það arfavitlaust en þetta var niðurstaða vegna kröfu kennaranna á sínum tíma og þeir fengu auðvitað það sem þeir vildu. Hitt er svo annað mál að það verður þeirra mál og sveitarstjórnanna hvort það eigi að breyta þeim lögum einhvern tíma á síðari stigum. Og ég er sannfærður um það að þessum lögum verði breytt innan tíðar. (SvG: Um kennarana?) Um kennarana, ég er sannfærður um það. Það verður ekki gert að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. En það verður áreiðanlega gert að frumkvæði sveitarfélaganna og kannski fremur kennaranna af því að í þessum lögum er fullt af úreltum hlutum sem endurspegla yfir 40 ára gömul sjónarmið. (SvG: Af hverju varstu að skrifa undir þetta?) Vegna þess að ég fór að lögum, hv. þm., og ef ég má nú ljúka máli mínu einsamall, það er að vísu pláss fyrir tvo í ræðustólnum, þá vil ég gjarnan fá að halda áfram því að margar voru spurningar hv. þm. sem nú hefur talað í dúett með mér.

Ég hef nú reyndar svarað flestöllu af því sem hv. þm. spurðist fyrir um, en ég ætla enn að undirstrika hvernig hann horfði á sundurliðunina í 40. gr. Hann sagði: Hér er verið að skipa menn sem fyrsta flokks embættismenn og síðan hina hér. Þeir sem fóru í fyrsta flokkinn voru tollverðirnir, lögreglumennirnir og fangaverðirnir sem hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að ég sé að svíkja. Svona stangast þessi málflutningur á. (ÖJ: Þetta er útúrsnúningur, Friðrik minn.) Ég veit ekki hver er Friðrik hans hérna, en það er annað mál.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti ræðu í kvöld og í henni kom í sjálfu sér ekkert nýtt fram. Það kemur í ljós að það takast á tvö sjónarmið í þessu máli. Annars vegar eru sjónarmið þeirra sem skynja að við getum ekki setið uppi með ríkisrekstur óbreyttan alveg burt séð frá því hvernig tímarnir breytast. Þau sjónarmið sem skilja það að við verðum að færa ríkisreksturinn í nútímahorf, við verðum að gera hann þannig að hann styrki samkeppnisstöðu Íslands og stuðli að betri þjónustu fyrir almenningi. Hins vegar eru þeir sem vilja miðstýra með mjög afturhaldssömum sjónarmiðum kjarasamningum opinberra starfsmanna og þora ekki að takast á við þá valdreifingu sem er nauðsynleg til þess að skilvirkni verði til í opinberum rekstri. Þetta kristallar mismunandi sjónarmið. Í flestum löndum í kringum okkur hafa menn haft vit á að gera þær breytingar sem þarf að gera og ég vænti þess og veit að Alþingi Íslendinga mun fara þá leið því að það horfir til framfara fyrir land og þjóð.