Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:57:02 (4117)

1996-03-20 14:57:02# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:57]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt úr máli hv. 15. þm. Reykv. sem ég vil gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi það sem snertir 6. gr. frv. sem hefur að geyma ákvæði um ráðgjafarnefnd sem hv. þm. kallaði ráðgjafarnefnd ráðherra. Það er misskilningur að mínu viti. Þetta er ráðgjafarnefnd skipuð af ráðherra en henni er ætlað mjög víðtækt hlutverk.

Það er einnig misskilningur hjá hv. þm. að þar sé talað sértsaklega um sérfróða aðila um erfðabreytingar. Þvert á móti segir þar að við skipan í nefndina skuli m.a. höfð í huga tengsl við sérfræðistofnanir í náttúrufræði og siðfræði. Hér er því hugsað vítt í þessum efnum og svigrúmið er rúmt eins og vera ber. Svið náttúrufræða er stórt og því er til haga haldið.

Hitt er aftur það sem snýr að Náttúruverndarráði og hv. þm. er enn að gera að umtalsefni. Mér finnst sérstakt rannsóknarefni hvers vegna hv. þm. agnúast út í það við þessa umræðu eins og 2. umr. að Náttúruverndaráði skuli ætlaður umsagnarréttur samkvæmt frv. Ef hlutverki þess verður breytt frá núgildandi lögum eins og tillögur hafa komið fram um er heldur engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu efni, ekki nokkur ástæða. Ef ráðið á að vera umsagnaraðili, frjáls hugmyndabanki eins og sumir hafa talað fyrir, er einmitt ástæða til að ætla því hlutverk í svo þýðingarmiklu máli. Auðvitað eiga síðan aðrir að koma til, jafnvel sérfræðingar í geldingu laxfiska. Þeir eiga að geta komið að þessu máli. Það er því fyrir flestu hugsað í frv. og engin ástæða til að hafa áhyggjur af því.