Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:59:35 (4118)

1996-03-20 14:59:35# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þeim stundum fjölgar sem ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson náum því að vera sammála um náttúruvernd á seinni tímum. Ég er alveg sammála honum um það að ef Náttúruverndaráð væri frjáls hugmyndabanki frjálsra félagasamtaka væri ekkert óeðlilegt við að leita álits hjá slíku ráði. Það er einmitt mergur málsins í minni gagnrýni. Ég tel nefnilega að á einhverju stigi ætti að leita álits hjá því sem við getum kallað rödd hinna frjálsu félagasamtaka á þessu sviði. Það hefði verið hægt að nota Náttúruverndarráð til þess ef hægt væri að líta á það sem vettvang slíkra félaga. Það er ekki hægt að gera það eins og ráðið á að verða samkvæmt nýlegu frv. Þá er með engu móti er hægt að kalla það óháðan vettvang slíkra félagasamtaka og verður aldrei á meðan það er kostað af ríkinu og er á fjárlagalið umhvrn. Samkvæmt frv. sem liggur fyrir er gert ráð fyrir að það verði ráðgjafahópur hæstv. umhvrn. um náttúruverndarmál og meðan ráðið er lögbundið sem slíkur ráðgjafaraðili fyrir ráðherrann held ég að með engu móti verði hægt að líta svo á að það sé vettvangur frjálsra félagasamtaka. Það er skoðun mín að frv. sem felur í sér slíka formbreytingu Náttúruverndarráðs muni leiða til þess að það verði hvorki fugl né fiskur og hefði verið farsælla að fylgja þeim sem vildu fremur gera það að vettvangi hinna frjálsu félagasamtaka. Ég tel þess vegna að það hefði verið miklu vitlegra að taka einhver önnur samtök eins og Líf og land eða Landvernd og gera að umsagnaraðila.

Að því er varðar 6. gr. var ég einfaldlega að gera því skóna að það væri eðlilegt að tekið væri fram að þarna skyldu vera menn sem hefðu sérfræðiþekkingu á vistfræði, á dýrafræði, á grasafræði fyrst verið er að tala um einhverjar sérstakar fræðigreinar. Að öðru leyti vil ég líka segja að ég skildi greinina þannig að þetta ætti að vera ráðgjafarnefnd ráðherra. Það hafa fleiri en ég í umhverfisgeiranum skilið það svo en það kann vel að vera rangur skilningur og ég fagna því þá að búið er að leiðrétta hann.