Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:09:55 (4123)

1996-03-20 15:09:55# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:09]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvað þeir voru að skrafa um, hæstv. umhvrh. og hv. formaður umhvn., Ólafur Örn Haraldsson, en hitt veit ég að um útflutninginn var rætt í nefndinni. Vegna þess sem ég tiltók var ekki nauðsynlegt að setja sérstakar lagareglur um það.

Hvað varðar Náttúruverndarráð og umsagnir frá sérfræðingum vildi ég nefna tvennt. Í þeim breytingartillögum sem hafa verið lagðar fram, held ég að það styrkist mjög við það að Náttúrufræðistofnun komi skilmerkilega að þeim þætti og það eigi að geta komið í veg fyrir að Hollustuvernd þurfi að koma upp einhverju sérstöku apparati þar sem Náttúrufræðistofnun gæti hlaupið í skarðið á fullkomlega gildan hátt og eins hitt að gert er ráð fyrir því í þessum lögum að haldnir verði upplýsingafundir þar sem almenningur á að geta komið fram sjónarmiðum sínum en sérstaklega sérfræðingar eiga að geta komið þar með sjónarmið sín til þess að stjórnvöld geti tekið þau til greina.