Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 12:36:29 (4156)

1996-03-21 12:36:29# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[12:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fátæklegu orð hæstv. ráðherra breyta í engu því sem ég sagði áðan. Upphafleg markmið þessa samráðs voru að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði. Eru það með öðrum orðum viðhorf hæstv. ráðherra að framganga hans hér, þessar tillögur hans sem birtast okkur í frumvarpsformi með þeim hætti sem hér um ræðir, séu til þess fallnar að bæta þessar samskiptareglur á vinnumarkaði?

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að tilgangurinn var sá að koma á samráðsvettvangi þar sem frjálsir aðilar vinnumarkaðarins sætu yfir og færu yfir þá möguleika sem í stöðunni væru til bættra samskipta og að fulltrúi félmrn. væri eins konar verkstjóri þeirra viðræðna en ekki það að hann tíndi í umboði ráðherra út eitt og annað, hugmyndir og viðhorf, eins og hæstv. ráðherra orðaði það og flytti hér í frumvarpsformi gegn háværum mótmælum fjölmargra þeirra sem í nefndinni sátu. Því segi ég enn og aftur: Þetta er að hafa endaskipti á hlutunum, virðulegi forseti.