Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 17:50:48 (4178)

1996-03-21 17:50:48# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[17:50]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum í dag er bæði gott mál og þarft og hæstv. félmrh. á heiður skilið fyrir sinn hlut í því. Það gengur reyndar ekki eins langt og ég hefði óskað en er þó mikil bót í mörgum málum.

Upphlaupið sem þetta frv. hefur valdið í þjóðfélaginu minnir um margt á baráttu forréttindastétta gegn breytingum á stöðu sinni. Talsmenn verkalýðsfélaga, sjálfskipaðir fulltrúar almennings, tala um aðför að þessum sama almenningi. En það er regindjúp á milli verkalýðsrekanda og þess fólks sem skyldað er til að borga félagsgjald til þeirra.

Herra forseti. Íslenska þjóðin hefur á undanförnum áratugum þurft að horfa upp á verkföll og aftur verkföll og hún hefur þurft að líða fyrir skaðsemi þessara sömu verkfalla. Atvinnulífið hefur þurft að búa við það ár eftir ár að geta ekki staðið við samninga við útlendinga sem þeir hafa gert og menn hafa séð margra ára markaðsstarf hrynja trekk í trekk vegna verkfallsgleði. Verkfall sjómanna t.d. á síðasta ári kom fram í reikningum margra útgerðarfélaga sem tap. Menn töluðu um tugi milljóna. 60 millj. kr. tap var talað um í einni ársskýrslunni vegna verkfalls sjómanna. Atvinnulífið í heild sinni líður fyrir þetta og þjóðin í heild sinni líður fyrir þetta líka. Ég minni á það að þetta sama verkfall sjómanna olli því að síldveiðiflotinn var dreginn út úr síldarsmugunni og minnkar væntanlega möguleika okkar á að fá kvóta þar til allrar framtíðar. Við erum að missa réttindin. Við erum að tapa stórfé, Íslendingar, á þessum lögum eins og þau eru í dag og stöðunni eins og hún er í dag.

Herra forseti. Tengsl verkalýðsfélaga og félagsmanna þeirra eru umræðuverð. Meðan verkalýðsfélögin innheimtu félagsgjaldið hjá hverjum og einum félagsmanni voru tengslin persónuleg og náin en eftir að þetta fór í gegnum tölvur og er innheimt af félagsmönnum sem 1% af launum varð það ópersónulegt og án nokkurra tengsla. Fjöldi fólks sem skyldað er til að borga félagsgjald til verkalýðsfélaganna sér þetta bara sem skatt, lítur á þetta sem skatt nákvæmlega eins og tekjuskattinn og iðgjaldið í lífeyrissjóðinn. Þetta er bara eitthvað sem tekið er frá manni, maður fær ekkert fyrir það og það er bara svona. Og fólkið er gjörsamlega varnarlaust. Svo er tekinn orlofsheimilasjóður, félagsheimilasjóður og sjúkrasjóður og allt rennur þetta til þessarar verkalýðshreyfingar, til verkalýðsrekendanna og fjármagnar verkalýðsiðnaðinn. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það er nefnilega reginmunur á verkalýðnum sjálfum eða almenningi og verkalýðsfélögunum sem hafa notað verkalýðinn sem eins konar verkalýðsiðnað og lifa góðu lífi. Það hefur komið fram að þeir eru með miklu hærri laun en umbjóðendur þeirra sem þeir eru að berjast fyrir með kjarasamningum.

Herra forseti. Við ræðum ekki um stéttarfélög og vinnudeilur án þess að koma inn á það ægivald sem þessir aðilar hafa í gegnum lífeyrissjóðina. Ólýðræði eða lýðræðisleysi í verkalýðshreyfingunni kallar fram sambærilegt lýðræðisleysi hjá atvinnurekendum og saman fara þessi ólýðræðislega skipuðu samtök með fjöregg þjóðarinnar, lífeyrissjóðina, með 260 milljarða. Það eru 2 millj. á hvern vinnandi mann sem þessir menn fara með. Ég hef ekki kosið þá og flestir Íslendingar hafa ekki kosið þá til þeirra starfa. Það vantar lýðræði í verkalýðshreyfinguna.

Herra forseti. Það má líka horfa á það hvernig við stöndum í jafnréttisbaráttunni og þá á ég við jafnrétti fólks almennt, ekki bara kynjanna. Sú verkalýðsbarátta sem hér hefur verið háð í fjölda ára með verkföllum og kostnaði fyrir þjóðina hefur ekki fleygt þjóðinni framar en það að hæsti taxti VR fyrir skrifstofustjóra eftir 10 ára starf er undir 70 þús. kr. Auðvitað ræður enginn skrifstofustjóra á þessum launum. Þetta er allur árangurinn af baráttunni. Auðvitað verður nánast hver einasti Íslendingur að semja sjálfur um sín laun vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur klikkað á því. Hún er að búa til einhver gervilág laun og hverjir lenda á þeim? Fólk sem ekki er nógu duglegt og nógu frekt í baráttunni og fólk sem er óframfærið. Og því miður sjáum við að mjög margar konur lenda á þessum lægstu töxtum öllum til skammar.

Svo sjáum við aftur ferlið í þessum samningum. Menn eru alltaf að mala um láglaunabætur til lægst launaða fólksins. Það er heilagt orð í munni þessara manna. Það er talað aftur og aftur um að nú skulum við bæta kjör þeirra lægst launuðu og það er byrjað að koma með einhverja krónutöluhækkun. Svo er öllum stóra massanum, Verkamannasambandinu og Dagsbrún, att út á foraðið og þeir ná fram samningum og ríkisvaldið er kallað til. Og það á að fara að bæta kjör lægst launaða fólksins. Hvað kemur svo? Það er varla þornað blekið hjá þessum stóru samtökum. Þá koma iðnaðarmannasamtökin. Ég minni á Rafiðnaðarsambandið sem samdi þá um prósentuhækkun, láglaunahækkun eða prósentuhækkun að vali. Og svo þegar þeir eru búnir, þá koma hátekjustéttirnar og semja. Niðurstaðan þegar upp er staðið verður að láglaunafólkið fær minnst, líka í prósentum, ekki bara í krónum.

Við búum hérna á Íslandi við fáránlega lága taxta sem afleiðingu af öllu þessu basli og öllum þessum verkföllum. Það sem þetta frv. gerir er að klóra í forréttindi verkalýðsfélaganna og verkalýðsrekendanna og það klórar hugsanlega í skylduaðildina því að allt þetta byggir á því að menn eru skyldaðir með einhverjum furðulegum hætti til að vera í verkalýðsfélögum. Menn fá ekki vinnu ella. Þannig er nú staðan og auðvitað ganga menn í verkalýðsfélag heldur en að ganga um atvinnulausir. Lengi vel var það jafnvel þannig að menn fengu ekki einu sinni atvinnuleysisbætur nema vera í stéttarfélagi.

Verkfallsrétturinn er mjög verðmætt vopn og það er heilagur réttur launþega. Hér fyrr á árum, fyrir áratugum var þetta mikilvægasta vopn manna til að leiðrétta kjör sín. Það hefur snúist upp í andhverfu sína þannig að þeir menn sem valda mestu tjóni með verkfalli sínu, án eigin framlags, hagnast best. Þeir fá hæstu launin. Ég nefni flugmenn, flugumferðarstjóra og fleiri. Þeir menn sem geta valdið milljónatjóni með verkfalli sínu fá hæstu launin. En þeir menn sem valda litlu tjóni fá lægstu launin, ég nefni kennara. Verkfallsvopnið hefur snúist upp í andhverfu sína.

Herra forseti. Ég hef lent í þeirri stöðu að ráða fólk til vinnu. Ég hef aldrei getað notað kjarasamninga, ekki launin. Ég hef þurft að semja við hvern einasta mann um launin og yfirleitt er það svona 50% hærra eða tvöfalt hærra en taxtinn segir til um. Það var engin stoð í því fyrir mig sem atvinnurekanda að nota allt þetta dýra batterí sem við erum með, fleiri hundruð manns á launum við að ráða kjörum þjóðarinnar. Það var engin stoð í því. Ég þurfti að semja við hvern einasta mann. Sumir komu oft. Sumir komu einu sinni í mánuði að heimta hærri laun. Aðrir komu aldrei eða sjaldan. Hógvært fólk og samt duglegt. (Gripið fram í: Hverjum gekk best?) Ég reyndi að passa það, hv. þm., ég reyndi að passa það að allir fengju jafnt svo að ég missti ekki góða fólkið frá mér eða það yrði óánægt. En það var virkilega erfitt. Og þeir frekustu fengu auðvitað mest og þeir fá mest. Þeir sitja eftir sem eru duglegir og samviskusamir en ekki eru alltaf að ota sínum tota og það er oft og tíðum betra fólkið og oft og tíðum konur. Ég leyfi mér að fullyrða það.

[18:00]

Nú erum við í reynd með sérsamninga við hvern einasta Íslending. Við erum með 160 þúsund samninga í gangi, alla daga. Með því að taka upp vinnustaðarsamninga er hreinlega að vera að viðurkenna staðreynd og það mundi hugsanlega stórbæta stöðuna.

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum um er til mikilla bóta. Þó gengur það ekki nógu langt að mínu mati. Við skulum t.d. líta á þær kosningar sem gert er ráð fyrir í frv. og menn hafa verið að setja út á hérna. Það er furðulegt mál. Kjarasamningur getur verið felldur ef einn fimmti félagsmanna kýs og helmingur þeirra sem kjósa ákveður að fella hann, þ.e. 10,1% geta fellt kjarasamning fyrir hinum 90% eða 89,9%. Þannig er þetta frv. og gengur ekki langt að mínu mati. Það mætti ganga miklu lengra í því að menn hafi áhrif á kjör sín og örlög. Sama gildir um verkfall. 10,1% geta sent restina af liðinu í verkfall eða 89,9%. Þetta er auðvitað betra en í dag vegna þess að í dag geta 50--60 manns sent 9 þúsund manns í verkfall eins og hefur gerst eða fellt kjarasamning. Þetta er mikið til bóta, en eins og hv. þingmenn sjá er þetta ekki nógu gott.

Metnaðurinn er nokkuð meiri þegar kemur að miðlunartillögu sáttasemjara. Þar skal helmingur atkvæða vera á móti henni til að fella hana og þó meira en þriðjungur allra atkvæðisbærra. Það nægir sem sagt að þriðjungurinn felli sáttatillöguna fyrir hinum tveim þriðju. Allt þetta kerfi, t.d. kosningar sem eru í frv., gengur út frá þeirri staðreynd að við búum við mikla félagslega deyfð í verkalýðshreyfingunni. Við búum við þann vanda að fólkið er ekki virkjað, það fer félagslega dautt í verkalýðshreyfingunni. Af hverju skyldi það nú vera? Það er út af skylduaðildinni. Það er af því að menn eru skyldaðir til að vera þarna og þeir eru þarna inni hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir hafa jafnvel ekki hugmynd um að þeir séu í stéttarfélagi. (Gripið fram í: Það þarf að vinna fyrir vaxtaokrinu.)

(Forseti (GÁ): Ég bið hv. þingmenn að gefa ræðumanni frið.)

Herra forseti. Vinnustaðarsamningur fyrir 250 starfsmenn eða fleiri er til mikilla bóta, sérstaklega í fiskvinnslunni. Þá er loksins í fyrsta skipti farið að taka tillit til fiskverkafólks og það mundi væntanlega leiða til þess að launin þar mundu jafnast og hækka, sérstaklega til þeirra sem gengur vel. Þetta hefur líka þann kost að þar fara hagsmunir fyrirtækis og starfsmanna saman. Þegar vel gengur í fyrirtækinu vegna góðs reksturs, geta menn vænst þess að fá hærri laun í samningum við viss fyrirtæki. Nú er það þannig að það er alltaf litið á einhverja meðaltalsstöðu þjóðarbúsins. Starfsmenn sem vinna hjá glimrandi góðu fyrirtæki og leggja hart að sér til að ná góðum árangri og góðum rekstri er ekki umbunað, ekki í samningum. Þeir verða að slást hver og einn fyrir sínum kjarasamningum eins og ég nefndi áðan.

Það hefur ekki komið fram í þessari umræðu, herra forseti, að þetta er gagnkvæmt. Fyrirtækin verða líka að kjósa um kjarasamning. Ég man reyndar ekki til þess að hafi gerst að fyrirtæki úti á mörkinni hafi þurft að kjósa um það hvort þau vilja samþykkja kjarasamning eða fella hann. Eða hvort þau vilja fara í verkbann eða ekki. Það er mikil breyting og rýrir væntanlega það ógnarvald VSÍ sem menn hafa verið að tala um hér.

Herra forseti. Það eru nokkur atriði þar sem ég vildi ganga lengra og vildi gjarnan láta skoða í hv. félmn. Ég vildi hafa þá reglu að helmingur þeirra sem á að senda í verkfall samþykkti það, að það verði aldrei gert þannig að hinn óvirki félagsmaður sé sendur í verkfall bara af því að hann er óvirkur. Sama ætti að gilda þegar kjarasamningur er felldur. Helmingur þeirra sem eiga að njóta kjarasamningsins verða að fella hann.

Ég mundi líka vilja skoða hvort ekki mætti lækka þetta mark, 250 manns í fyrirtæki eða á fyrirtækjasamningum, niður í svona 50 manns. Í dag semur hver og einn fyrir sig. Ef verkalýðshreyfingin heldur virkilega að hún sé að semja fyrir launþega í landinu, er það rangt. Hver og einn semur fyrir sig og í staðinn fyrir að fyrirtækið semji við kannski 50 starfsmenn ætti að gera einn allsherjarsamningur. Það mundi auka launajafnréttið, það fullyrði ég. Það yrði ekki liðið að sumir séu með 200--300 þús. kr. á mánuði á meðan einhver annar, bara af því að viðkomandi er kona eða óframfærinn, er með 50 þús. kr. á mánuði. Það yrði ekki liðið þannig að vinnustaðarsamningar munu auka jafnréttið.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi er þetta gott mál og þarft og mikið til bóta þótt margt mætti betur fara. Einkum er mikilvægt að launamenn þessa lands hafi meira um kjör sín og örlög að segja.