Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 19:46:32 (4192)

1996-03-21 19:46:32# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[19:46]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrirgefst þó hann þekki ekki sögu Alþfl. vel. Hann hefur ekki verið svo lengi í flokknum. En í þá tíð lögðu atvinnurekendur fram 40 brtt. við frv. ráðherrans en aðeins ein var tekin til greina og ekkert samráð var haft við þá um samningu frv. Alþfl. virðist ekki hafa lært neitt geysilega mikið á þessum 60 árum því þegar þáverandi félmrh., flokksbróðir hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, skipaði nefnd til að kanna þessi mál og undirbúa frv. fékk BHMR ekki að eiga fulltrúa í þessari nefnd og ekki bankamenn. En það fengu BSRB, ASÍ og ýmsir fleiri. Hvers eiga þessir hópar að gjalda ef ekki á að hafa samráð við þá?

Ég heyri að hv. þm. hefur, eins og ég sagði áðan, ákveðnari skoðanir en hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Hún kom hins vegar upp í andsvari og þar var hún mjög skorinorð um afstöðu sína til frv. Hún sagði: ,,Eins og þetta frv. liggur fyrir, er ég gjörsamlega andvíg því.`` Er hv. þm. Össur Skarphéðinsson þar sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur? Vill hann taka undir þessi orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur?