Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 11:26:37 (4367)

1996-03-22 11:26:37# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[11:26]

Ágúst Einarsson (frh.):

Ég fagna því að hæstv. ráðherra er kominn í salinn. Við reyndum að nýta aðeins tímann á meðan. Ég nefndi áðan að málin voru í skoðun í þessari nefnd en þar var um tvíþætt ágreiningsatriði að ræða. Í fyrsta lagi var ekki fengin niðurstaða um efnisatriðin og í öðru lagi var það álitamál hvort lögfesta ætti samskiptreglur á vinnumarkaði. Aðalatriðið í þessari umræðu er að við erum að taka til endurskoðunar 60 ára gömul lög og þessi lög hafa verið varin breytingum nær allan þann tíma. Er það vegna þess að lagasetningin upprunalega var svo góð? Ég efast um að svo sé. Ástæðan er miklu fremur sú að menn eru mjög hræddir við breytingar á þessari löggjöf vegna þess hve viðkvæm hún er í öllum samskiptum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda. Sagan kennir okkur að á þessari öld hafa verið mjög harðvítug átök milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga og löggjöfin var á sínum tíma mikið ágreiningsefni eins og ég mun koma að síðar. En breytingar á henni eru það viðkvæmar, sérstaklega innan verkalýðshreyfingarinnar, að þar verður að fara af gætni. Þetta frv., hæstv. félmrh., er mjög vont vegna þess að það stofnar í hættu nauðsynlegum endurbótum á leikreglum okkar á vinnumarkaði. Málið var sett að ástæðulausu í uppnám. Það var engin ástæða af hálfu ríkisstjórnarinnar, herra forseti. Það lá fyrir að vinna var í gangi og henni miðaði vel áfram. Auðvitað geta menn alltaf kvartað yfir því að hún hefði mátt ganga betur, en menn höfðu sest niður og voru að ræða mjög marga af þeim þáttum sem síðan kemur fram sem niðurstaða í þessu frv.

Þess vegna ber að taka þetta frv. út af borðinu. Ríkisstjórnin gerði best í því að draga frv. til baka og leyfa aðilum vinnumarkaðarins að fjalla nánar um þau efnisatriði sem þar eru til umræðu. Það má segja að það versta varðandi þetta frv. sé með hvaða hætti það kemur fram og að það skuli vera með lagasetningu settar leikreglur án nauðsynlegs samráðs við viðkomandi aðila. Það hefur verið farið ágætlega yfir þennan þátt í umræðunni og ég vitna þar til ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur í gær. Það hafa einnig verið færð fyrir því rök að hugsanlega stangist frv. á við alþjóðasamninga og íslensk lög. Það segir sig náttúrlega sjálft að það gengur ekki að setja fram frv. sem felur í sér hugsanleg lögbrot á alþjóðlegum samningum varðandi leikreglur á almennum vinnumarkaði.

[11:30]

Hitt sem þarf að skoða varðandi þennan málaflokk, fyrir utan þessa formlegu aðkomu og yfirleitt hvort setja eigi lög, eru efnisatriði frv. Að hve miklu leyti þau geta horft til bóta eða verið til tjóns varðandi samskipti á vinnumarkaði. Það er í sjálfu sér önnur umræða sem ég mun fara í hér þó svo að farvegurinn hefði átt að vera annar.

Ég vil í upphafi geta þess varðandi 1. gr. frv., þar sem kveðið er á um vinnustaðarfélög, að ég styð þessa grein, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Starfsmönnum fyrirtækis, þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 250 starfsmenn, er þó heimilt að stofna þar stéttarfélag, enda séu að lágmarki 3/4 þeirra félagsmenn. Fer það þá eitt stéttarfélaga með samningsumboð fyrir starfsmenn.``

Auðvitað þarf að skoða orðalagið betur, bæði fjöldann og með hvaða hætti aðlögun ætti að vera að þessu ákvæði, en ég vek fyrst athygli á því að hér er um heimildarákvæði að ræða. Það er þá frjálst val í nokkrum fyrirtækjum hérlendis hvort menn kjósi að haga samningsmálum sínum með þessum hætti. Ég mun koma betur að vinnustaðarmálinu síðar.

Önnur ákvæði í frv. lúta að því að setja upp girðingar við boðun verkfalls eða vinnustöðvunar, þ.e. fjalla um að setja upp girðingar og ferli við afgreiðslu kjarasamninga og í þriðja lagi fjalla þau um tiltekna málsmeðferð varðandi miðlunartillögur sem sáttasemjari hefur heimild til að leggja til. Þessar girðingar, sem eru settar upp varðandi afgreiðslu bæði samninga og boðun verkfalls, fela í sér verulegar breytingar frá núgildandi lögum og þeirri venju sem hefur ríkt á þessum vettvangi. Þá er auðvitað fyrsta spurningin: Er yfirleitt rétt að kveða skýrar á um boðun vinnustöðvunar og afgreiðslu samninga í almennri atkvæðagreiðslu? Horfir slíkt fyrirkomulag til bóta miðað við núverandi fyrirkomulag sem felst í því að félagsfundur samþykkir yfirleitt heimild til stjórnar og trúnaðarmannaráðs varðandi vinnustöðvanir, samningar samþykktir á félagsfundum en ekki tilgreind lágmarksþátttaka? Mín skoðun er sú að það gæti horft til bóta að setja ferli sem tryggir betri aðkomu einstakra launþega og þá vinnuveitenda eða atvinnurekenda, þ.e. einstakra fyrirtækja, varðandi þennan þátt, þ.e. boðun vinnustöðvunar og afgreiðslu samninga. Ég held að slík umræða um þann þátt sé nauðsynleg. Hún hefur einnig farið fram í því nefndarstarfi sem vikið var að þó að ekki væri komin sú formfesting á þá útfærslu sem er í frv. Ég bendi einnig á að varðandi kjarasamninga opinberra starfsmanna eru að nokkru leyti slíkar girðingar, sem ég kýs að kalla svo. Við getum lýst þessu líka með því að gert er ráð fyrir ákveðnu þátttökuferli einstakra launþega varðandi afgreiðslu mála.

Hér er hins vegar lagt upp með að það þurfi að vera lágmarksþátttaka varðandi samninga, 20% þátttaka. Ef um hlutastarfsmenn er að ræða þá er það þriðjungur og ef póstafgreiðsla er viðhöfð þá er ekki gert ráð fyrir neinni lágmarksþátttöku. Vinnustöðvun, þá er gert ráð fyrir 20% þátttöku þannig að 10% geta kveðið upp úr um það. Hér eru settar ákveðnar tölur inn í frv. og mér finnst að það þurfi að skoða mun betur hvort þær girðingar séu of háar sem þar eru settar. Ég bendi hins vegar á að varðandi vinnustöðvunina eru þarna sett lægri mörk heldur en eru á opinberum vinnumarkaði. Þær girðingar hafa hins vegar verið taldar býsna háar. Þetta er hins vegar allt spurning um það hvaða sátt menn gætu fundið í þessari útfærslu ef menn vilja á annað borð hafa ferlið með þeim hætti að kveðið sé á um þetta í slíkum atkvæðagreiðslum.

Varðandi miðlunartillögu, þá eru ákvæði í frv. um störf sáttasemjara og gert er ráð fyrir viðræðuáætlun svo og miðlunartillögu. Afgreiðsla miðlunartillögu þarf líka að hljóta tiltekinn atkvæðafjölda og þar eru sett upp ansi ströng skilyrði þannig að í praxís verður varla hægt að búa við það í þessu formi ef menn huga að lögfestingu málsins með þeim hætti sem ég tel ekki vera æskilega.

Þess er hins vegar að geta að í grg. frv. er töluvert vitnað til fyrirkomulags í Danmörku. Þar er fyrirkomulagið þannig að aðilar vinnumarkaðarins hafa að langmestu leyti möguleika á því að ráða málum sínum sjálfir án þess að löggjöfin sé að koma að þeim þætti eins og hér er gert ráð fyrir. Vitaskuld eru aðrar hefðir í öðrum löndum um þennan þátt en það ber hins vegar að fara varlega í breytingar á þessum málaflokki.

Herra forseti. Ég sé að hæstv. félmrh. hefur ekki stoppað lengi við í salnum. (Félmrh.: Hann er hér.) Hann er þarna, fyrirgefið, ég sá hann ekki. Ég veit að hann hlustar með athygli héðan úr hliðarsal en ég tel nauðsynlegt að hann gefi gaum að þessari umræðu bæði hjá mér og öðrum þingmönnum eins og hann hefur reyndar gert í þessari umræðu.

Það er eitt sem er grundvallaratriði varðandi þessa umfjöllun, og kemur m.a. fram í því nál. sem vinnuhópurinn vann að, að það eru til tveir skólar uppi um skipulag á vinnumarkaði, þ.e. að gefa einstaklingum meira ráðrúm í kjarasamningsgerðinni, og þá á þann hátt að almenna reglan sé að um einstaklingsbundna launasamninga sé að ræða. Svo er það hin aðferðafræðin sem miðar að því að samningar séu í höndum skipulagðra samtaka launafólks. Fyrri leiðin hefur oft verið kennd við Nýja-Sjáland sem er að hluta til rétt en þetta fyrirkomulag, um einstaklingsbundna launasamninga sem meginkerfi, þekkist víðar. Hins vegar er okkar hefð öll á þann hátt að skipulögð samtök launafólks mæti skipulögðum samtökum vinnuveitenda og það er hin evrópska þróun á þessum vettvangi.

Þetta er afdráttarlaust í frv. í samræmi við okkar hefð og í sjálfu sér er enginn ágreiningur held ég um það meðal stjórnmálaflokka hér að það eigi að fara síðari leiðina, þ.e. að launþegar eigi að hafa þann rétt að skipuleggja sig og fara með samningsrétt og það séu skipulögð samtök sem koma að samningum um kaup og kjör. Nú er það hins vegar svo að heyrst hefur andstæð skoðun varðandi þennan þátt sem hefur komið sterklega fram hjá talsmönnum Vinnuveitendasambandsins sem vilja brjóta niður þennan samningamátt eða samtakamátt launafólks og fara yfir í kerfi einstaklingsbundinna launasamninga og gefa þeim meira vægi bæði hvað varðar löggjöf og praxís. Það er ekki beint kveðið á um nálgun að þeirri leið í frv. og að mínu mati kemur ekki til greina að viðhafa slíkan ramma um kjarasamninga hér á landi.

Hins vegar liggur andi frv. nokkuð ljós fyrir. Andinn stefnir í þá átt sem ég var að lýsa. Vinnuveitendur hafa kveðið upp úr um sína stefnumörkun varðandi þennan þátt. Þeir vilja helst mæta miðstýrðir sundurlausum hópi launþega á vinnumarkaði. Þetta kom einnig skýrt fram í umræðunni í gær þegar hv. þm. Pétur Blöndal lýsti framtíðarsýn sinni um vinnumarkaðsmál. Það er þessi andi frv., tilurð frv., framlagning og öll sú umræða sem hefur verið undanfarnar viku, sem ekki einungis endurspeglast í frv. heldur einnig í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, það er þessi pólitíska stefna sem endurspeglast í starfi ríkisstjórnarinnar sem ég er að mæla gegn. Það er hin pólitíska stefna ríkisstjórnarinnar, sem ég er andvígur, sem kemur fram hér í átökum ríkisvaldsins núna við nær alla launþega landsins. Það er ekki nóg með að öllu sé hleypt í uppnám sem viðvíkur opinberum starfsmönnum heldur er einnig lagt til atlögu við stéttarfélögin á almenna vinnumarkaðnum og þá fyrst og fremst í ljósi þess að kjarasamningar verða lausir um næstu áramót og menn vilja tryggja betri vopn fyrir vinnuveitendur í því ferli. Það er þessi hugsunarháttur sem mér finnst vera ámælisverður við framlagningu frv. Hugsunarhátturinn kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart, þetta endurspeglar hins vegar ágætlega stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem er borin hér fram af hæstv. félmrh. Hefur hann vafalítið einhvern tímann verið í betri vist heldur en nú um stundir.

Varðandi þann þátt í frv. sem viðvíkur sáttasemjara þá er gert ráð fyrir viðræðuáætlun, og ég vil geta þess að það var mál sem var rætt ítarlega í starfshópnum, og þar lagt til samhljóða að sett yrði upp eitthvert slíkt ferli. Hins vegar eru í frv. sjálfu hlutir sem eru ekki góðir og kippa að hluta til baka hugmyndinni á bak við viðræðuáætlunina og það eru einkum tvö atriði. Í fyrsta lagi er hægt að semja sig undan tengitillögu og í öðru lagi er hægt að tengja saman mjög óskylda kjarasamninga til að loka dæmi á heildarvettvangi. Þetta finnst mér orka mjög tvímælis því að ef við ættum að reyna að ná fram endurbótum á því ferli sem varðar samninga hér á landi, þá á það að vera að reyna að draga úr miðstýringu, auka ákvörðunarrétt einstakra launþega og fyrirtækja í því ferli og gefa mönnum betri kost á því að koma að svo veigamiklu máli sem samningar um kaup og kjör eru.

Einnig er í frv. gert ráð fyrir mjög miklu valdi sáttasemjara. Ég held að það verði menn að skoða ívið betur en gert er í frv., hvort þarna sé ekki farið um of. Ég nefndi erfiðleikana við það að nálgast breytingar á þessari löggjöf og við verðum líka að ræða það aðeins. Maður getur spurt sig: Er löggjöf ,,einkaeign``, þeirra aðila sem hún fjallar um? Þessum lögum hefur ekki verið breytt í 60 ár af þeim ástæðum sem ég rakti áðan. Þetta eru viðkvæm mál og þess vegna er svo mikið atriði, ef menn vilja breyta samskiptareglum, að það sé gert þannig í fyrsta lagi að þeir aðilar sem málið varðar komi að því og í öðru lagi að ef um það næst samkomulag að láta samskiptareglur gilda án þess að um lagasetningu verði að ræða. Ef menn kjósa svo að settur sé rammi um eitthvert tiltekið ferli, þá á löggjafinn vitaskuld að skoða það gaumgæfilega.

[11:45]

Vinnulöggjöf er ekki einkamál vinnuveitanda eða verkalýðs- og stéttarfélags. Þetta er mál sem kemur öllum landsmönnum við og mál sem endurspeglar líka mismunandi sjónarmið sem koma fram í stefnu stjórnmálaflokka. Það er með þessa löggjöf eins og margt annað að menn geta haft og eiga að hafa á henni mismunandi skoðanir og takast þá á um hana. En það er engin löggjöf heilög, hvorki þessi löggjöf né önnur. Við eigum alltaf að vera reiðubúin til að endurmeta hlutina ef við teljum að þannig sé hægt að betrumbæta.

Nú er ég ekki með þessu að segja að það sé endilega gert í þessu frumvarpi. Öll málsmeðferðin og aðkoman að því er fyrir neðan allar hellur enda hef ég lagt til að frumvarpið verði dregið til baka. Það á hins vegar ekki að hindra okkur í því að taka til umræðu skipulag á vinnumarkaði. Hverju er þar ábótavant? Hvernig getum við gert hluti betur? Ég vil nefna staðreyndir sem eiga að vekja okkur til umhugsunar. Laun hér á landi eru miklu lægri en er í nágrannalöndunum. Við erum með lengri vinnudag en er í nágrannalöndunum. Fólk hérlendis nær sæmilegum lífskjörum með löngum vinnudegi. Það liggur fyrir að við höfum misst fólk til útlanda vegna lágra launa og við erum hér með eina minnstu framleiðni íslenskra fyrirtækja í Evrópu. Við erum mjög léleg í þessum fyrirtækjarekstri sem er hinn aðilinn að þessu samningsferli.

Landsframleiðsla á hverja unna klukkustund hér á landi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Það er sömuleiðis staðreynd að vöxtur þjóðarframleiðslu, vöxtur verðmætasköpunar hér á landi hefur meira og minna staðið í stað undanfarin ár. Á flestum alþjóðlegum mælikvörðum innan OECD, og það eru yfirleitt tekin 21--24 ríki, og erum við yfirleitt í 16., 17. og 18. sæti. Við erum mjög neðarlega hvað varðar kjör launafólks miðað við önnur lönd. Það er fjölmargt að í okkar þjóðfélagi sem við höfum tekist á um við ríkisstjórnina á öðrum vettvangi, hvort sem það viðvíkur stjórnarstefnu í ríkisfjármálum eða á öðrum sviðum.

Án þess að ég sé í sjálfu sér að úttala mig nákvæmlega um það, þá er sú skoðun þekkt að það séu einir fjórir þættir sem þurfa endurbóta við. Þetta eru fjórir þættir sem Þorvaldur Gylfason prófessor hefur stundum dregið fram. Hann segir að ein af ástæðunum fyrir því hvað við erum orðin aftarlega á merinni sé skipulag okkar varðandi nýtingu sjávarfangs, þ.e. skipulag veiðanna. Það tengist umræðu um veiðileyfagjald o.fl. Það er í öðru lagi hvað ríkisvaldið er mikill þátttakandi á fjármagnsmarkaði þar sem viðgengst óhæf stjórnun að hluta til og óhagkvæmni. Það þriðja sem hann hefur nefnt er skipulag á vinnumarkaði, en hann gerir reyndar minna úr því en hinum þáttunum. Í fjórða lagi er það skipulag landbúnaðarmála.

Vitaskuld eru þetta þættir sem við eigum að hugleiða. Við eigum að hugleiða af hverju laun eru hér lág. Af hverju erum við að dragast aftur úr? Ég ætla ekki að fara í almenna efnahagsumræðu um þetta mál en við eigum að spyrja okkur: Er eitthvað í skipulagi vinnumarkaðarins sem gerir það að verkum að við drögumst hratt aftur úr öðrum þjóðum? Ég er ekki frá því að svo sé. Það er ýmislegt þar sem betur má fara. Það má einmitt vísa í vinnuhópinn sem var að vinna að þessum málum. Þar er m.a. sagt að viðræðuáætlun skuli koma til og sett upp ferli varðandi samninga. Við höfum oft búið við erfiðleika í samskiptum á vinnumarkaði og það hefur ekki skilað okkur mjög miklu. Þessi hugmyndafræði finnur sér svo aftur stað í frv. Það er sömuleiðis gert skýrara varðandi samningsumboð og þess háttar hluti. Það var rætt um það í vinnuhópnum. Vinnuhópurinn fjallaði aðeins lítillega um rétt launafólks til að skipuleggja sig í stéttarfélög á vinnustað en gerir enga tillögu um það efni. Það hefur komið fram opinberlega að það er lagst gegn þeim þætti, a.m.k. vilja menn sjá betri útfærslu á þeim þáttum.

Einn af stóru þáttunum í frv. viðkemur eins og ég nefndi boðun verkfalls og afgreiðslu samninga. Vinnuhópurinn var ekki kominn með neinar mótaðar tillögur á því sviði. Ég geri hins vegar ráð fyrir að menn hafi verið að fjalla um þann þátt þegar frumhlaup hæstv. félmrh. var það að leggja frv. fram eins og hann gerði. Það versta við allt þetta mál er e.t.v. að það kemur hugsanlega í veg fyrir að menn nái saman um skynsamlegar breytingar, skapar úlfúð þegar kemur að næstu kjarasamningum, úlfúð milli ríkisvalds og launþega, bullandi ágreining í þjóðfélaginu um þátt löggjafans í þessu og gerir það að verkum að kjarasamningar verða vafalítið mjög erfiðir í næstu samningum.

Það vantar hins vegar mjög margt í þetta frv. Það vantar meiri hugsun í frv. Það vantar t.d. betri ákvæði um það að taka á miðstýringu vinnuveitendamegin. Þróun undanfarinna ára, við skulum segja síðustu fimm til tíu ára, á vinnuveitendahliðinni hefur verið öll í þá átt að auka miðstýringu stórkostlega. Þessi miðstýring kemur m.a. fram í því að það er orðið útilokað að gera samninga þó svo það séu líka til landssambönd. Það er starfað eftir starfsgreinum innan Vinnuveitendasambandsins. Samningsumboðið er hins vegar alltaf falið miðstýrðri hreyfingu, þ.e. Vinnuveitendasambandinu, skrifstofu Vinnuveitendasambandsins. Og meira að segja þegar kemur að sérkjaraviðræðum einstakra stéttarfélaga, þá mæta vinnuveitendur alltaf með það að fela starfsmönnum sínum í Garðastræti samningsgerð. Þetta tel ég vera slæma þróun og það hefði þurft að bregðast við henni í nýjum leikreglum á vinnumarkaði vegna þess að það er einnig áhyggjuefni að við erum ekki einungis að tala um miðstýringu vinnuveitendamegin hvað varðar samninga um kaup og kjör heldur á fjölmörgum öðrum þáttum. Það er miðstýring í fjármagni. Þetta eru ekki mörg fyrirtæki eða aðilar vinnuveitendamegin. Ætli það séu ekki svona 30--40 manns ef maður telur upp einstaklingana sem fara með allt vald vinnuveitendamegin, bæði hvað viðvíkur samningum um kaup og kjör og einnig ýmsum fjárhagslegum áhrifum í gegnum þau fyrirtæki sem starfa á markaði. Þessi stefna í átt til miðstýringar af hálfu vinnuveitenda er vitaskuld launþegum ekki hagkvæm. Og þó svo menn segi að verkalýðshreyfingin sé miðstýrð, sem hún er að nokkru leyti, sérstaklega í hinum stóru samflotum þar sem menn þó gera það af fúsum og frjálsum vilja, þá er miðstýringin launþegamegin miklu minni en nokkurn tíma vinnuveitendamegin. Það sem ég tel ámælisvert í frv. er að þar er engin hugsun um að reyna að brjóta þessa miðstýringu vinnuveitendamegin á bak aftur eða reyna að draga úr henni. Það er auðséð hverra hagsmuna er verið að gæta með frv., með þeim rökstuðningi sem hefur komið fram í þessu máli og með því að taka ekki inn í þetta betri leikreglur varðandi vinnuveitendahliðina. Ég nefni t.d. atkvæðagreiðsluferlið sem á að gilda fyrir báða aðila. Það hefði þurft að skoða vandlega hvort menn hefðu getað dreift því ákvörðunarferli meira en gert er í frv. Má þá t.d. nefna hvort það hefði komið til álita að það væru ekki framkvæmdastjórarnir sem greiddu atkvæði fyrir hönd sinna fyrirtækja heldur ef til vill hluthafarnir. Þá væri verið að færa valdið enn utar í hringinn. Ég teldi það koma mjög til greina. En það er engin umræða um þennan þátt. Umræðan er öll á því að það eigi að hafa vit fyrir verkalýðshreyfingunni og hvernig hún hagar sínum málum. Það er ekki verið að setja neinar skorður á vinnuveitendahliðina.

Það er einn þáttur sem ég hefði kosið að hefði verið tekinn upp í þessari umræðu, þ.e. hvort ekki væri ástæða til ef menn eru að gera breytingar að efla atvinnulýðræði t.d. í því formi sem þekkist víða erlendis að starfsmenn fyrirtækja eigi mann í stjórn þeirra. Þetta þekkist mjög víða. Þetta er m.a. í stefnuskrá Þjóðvaka en látum það vera. Hugmyndin er ekki ný. Ég teldi vel koma til greina, sérstaklega í tengslum við hugmyndafræðina um að fara vinnustaðarsamningaleiðina sem ég styð heils hugar, að skoða þann þátt að starfsmenn komi að stjórnun þessara fyrirtækja í meira mæli en gert er.

Varðandi vinnustaðarákvæðið sem er í 1. gr. frv. og ég hef lýst yfir stuðningi við, þá á það mál sér forsögu. Fyrir 16 árum flutti þáv. þingmaður, Vilmundur heitinn Gylfason, þetta mál inn í þingsali. Hann gerði það síðast á 105. löggjafarþingi 1982. Þá talaði hann um að það ætti að opna þessa löggjöf á þann hátt að heimila starfsemi vinnustaðarfélaga á vinnustöðum. Hann talaði reyndar um að ef það störfuðu fleiri en 25 launþegar vinnustað þá þyrftu tveir þriðju hlutar þátttakenda að lýsa sig samþykka þessu fyrirkomulagi. Í frv. ríkisstjórnarinnar endurspeglast þessi sama hugsun. Ekki veit ég hvort hæstv. félmrh. hefði órað fyrir þessu fyrir 16 eða 18 árum þegar þessi mál voru fyrst til umræðu. Og það má vera að það hafi ekki heldur hvarflað að Vilmundi Gylfasyni að þessi hugmyndafræði ætti eftir að koma fram í stjfrv. 16 árum síðar, borin fram af hæstv. félmrh. Páli Péturssyni. Ég efast um að nokkurt okkar sem tókum þátt í þessari umræðu á þeim tíma hafi séð fyrir að það mundi gerast svona. En þessu ber að fagna.

Ég vil nota tækifærið þegar þetta mál kemur upp að vekja athygli á þeim brautryðjendum sem oft og tíðum tala fyrir daufum eyrum og síðan tekur langan tíma að finna fótfestu fyrir þessum sjónarmiðum og næst kannski ekki fyrr en hálfum öðrum áratug seinna.

Ég minni á hina pólitísku baráttu Vilmundar Gylfasonar fyrir verðtryggingu sem fékk síðan rúm í löggjöf rétt fyrir 1980.

Ég nefndi hugtakið frjálst fiskverð sem var umdeilt og hann kom með á sínum tíma. Menn lögðust þar margir mjög á móti. Það finnst öllum í dag sjálfsagður hlutur og skilja reyndar ekkert annað hugtak og skilja ekki af hverju það eru deilur um frjálst fiskverð.

[12:00]

Ég nefni vinnustaðarsamningana sem er þriðji þátturinn sem fær nú forgöngu eða mjög alvarlega umræðu á þessum vettvangi. Eitt af stóru málunum Vilmundar, bein kosning framkvæmdarvaldsins, er ókomið enn og e.t.v. verðum við að bíða nokkurn tíma þar til það kemur fram í löggjöf eða frv. af hálfu stjórnvalda. En ég er sannfærður um að sú hugmyndafræði mun síðar ná fram að ganga.

Ég ætlaði að gera dálítið betur að umtalsefni vinnustaðarfélögin. Ég vil hvetja menn til að kynna sér upphaflegu greinargerðina með frv. Hún var mjög athyglisverð og lýsir miklu betur en í sjálfu sér hefur komið fram í umræðunni hinni sögulegu þróun varðandi breytingar á þessari vinnulöggjöf. Ég hef því miður ekki tíma til að fara ofan í það, en ég vil geta þess varðandi vinnustaðarfyrirkomulagið að auðvitað er þetta breyting á kjarabaráttu. Það er hins vegar ekki verið að rústa neinu. Hér er verið að breyta kjarabaráttu á þann hátt að kjarasamningarnir fara með tilteknum skilyrðum inn í einstök fyrirtæki. Þetta þýðir að launþegar geta nýtt sér góða stöðu einstakra fyrirtækja. Þetta þýðir að ólíkar starfsgreinar koma saman að sinni kjarabaráttu, verkamaður og skrifstofumaður. Og þetta er fyrst og fremst jafnlaunastefna. Þetta er láglaunavernd vegna þess að allir sem hafa komið að atvinnurekstri vita að það er fullt af fyrirtækjasamningum í gangi. En þeir eru allir gagnvart þeim sem betur mega sín í fyrirtækjunum. Stjórarnir eða jafnvel verkstjórar fá að gera fyrirtækjasamning en ekki fólkið á gólfinu, ekki konurnar í láglaunastörfunum eða verkafólkið á lægstu töxtunum. Ég þekki þetta ósköp vel, ég hef starfað um 15 ára skeið í atvinnulífinu og þekki þessa kjarasamninga út og inn, bæði opinbera samninga og neðanjarðarsamninga fyrirtækja. Þetta fyrirkomulag sem hér er varlega verið að opna á, það væru ekki nema 5--6 félög sem þetta ætti við, mun leiða til betri kjara launafólks. Þá vil ég hins vegar sjá fyrirtækin sjálf koma að samningaborðinu, ekki miðstýrt Garðastrætisvald heldur fyrirtækin sjálf sem brjóta þá upp miðstýringuna þeim megin frá.

Ég vil benda á að þetta vinnustaðarfyrirkomulag er í stefnu Alþýðusambandsins frá 1958 þótt ekki hafi gengið vel að koma því í framkvæmd. Það var m.a. það sem ég ætlaði að vitna betur til en til þess gefst ekki tækifæri núna. Ég held að menn eigi að taka þessa hugmynd mjög alvarlega og gefa sér betra ráðrúm til að fara ofan í þetta. Það er mikil skynsemi í þeirri útfærslu sem hér er lögð er til og menn eiga að skoða hana mjög alvarlega.

Vitaskuld hefðu þessir efnisþættir frv. þurft að koma til nánari skoðunar innan nefndarinnar. Ég hefði kosið að frv. yrði dregið til baka svo mönnum gæfist betra ráðrúm til að tala um þetta á yfirvegaðan hátt og finna út úr því með hvaða hætti menn breyta samskiptareglum þannig að vel fari á. Þessi flumbrugangur varðandi frv. stofnar öllu málinu í hættu. Við eigum að skoða uppstokkun á vinnumarkaði með opnum huga, en það verður vitaskuld aldrei gert nema um það ríki sátt í hvers konar farvegi sú umræða fer fram. Aðgangur ríkisstjórnarinnar að launþegum landsins og öll hennar framkoma endurspeglar miðstýringarstefnu vinnuveitendavaldsins í landinu. Hún skapar ekki raunhæfa möguleika fyrir skipulögð samtök launafólks til að koma að málinu með eðlilegum hætti. Þess vegna, herra forseti, ber að taka þetta frv. út af borðinu.