Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 12:05:36 (4368)

1996-03-22 12:05:36# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[12:05]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á ummælum þingmannsins varðandi þau ákvæði sem er að finna í frv. um vinnustaðarfélög. Eitt er það að hafa áhuga á þeirri hugmynd að skipuleggja vinnumarkaðinn í slík félög en annað sú útfærsla sem hér er. Að mínu viti gengur hún þvert á núverandi skipulag verkalýðshreyfingarinnar og mundi raska því verulega. Hér er verið að tala um stofnun nýrra verkalýðsfélaga í fyrirtækjum með 250 starfsmenn eða fleiri og eins og fram kom í gær getur verið þar um að ræða 60 fyrirtæki og 33 ríkisstofnanir. Það er augljóst að ef þessu ákvæði væri fylgt eftir með mörgum vinnustaðarfélögum, skapaði það algerlega nýtt ástand á vinnumarkaðinum.

En meginatriðið er það að samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands ríkir félagafrelsi hér á landi. Það er ekkert sem bannar fólki á vinnustöðum að stofna slík félög, en verkalýðshreyfingin hefur kosið að skipuleggja sig með þeim hætti sem raun ber vitni og mætti hún reyndar svo sannarlega taka sitt skipulag til endurskoðunar. En það er hennar að ákveða hvernig skipulagið er og ég spyr hv. þm.: Finnst honum rétt að ríkisvaldið, eða í þessu tilviki núverandi ríkisstjórn, taki af þeim þann rétt með þeim hætti sem hér er verið að gera?