Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:27:19 (4417)

1996-03-22 17:27:19# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:27]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alls ekki fallist á að ég hafi talað óskýrt úr þessum ræðustól. Ég hef margítrekað að vilji ríkisstjórnarinnar standi til þess að frv. verði að lögum á þessu þingi. En við höfnum ekki að skoða réttmætar og eðlilegar athugasemdir þeirra aðila sem best til þekkja. Við viljum ýta undir samráð af því tagi og ekki hafna því. Við erum sem sagt ósammála því sem kemur fram í ályktun formannafundar Alþýðusambandsins að með því að vilja lögfesta þessar leikreglur, þá hafi þessu samstarfi verið hafnað. Við erum ósammála því. Og ég vænti þess að Alþýðusambandið vilji, eins og því ber skylda til, félagsmanna sinn vegna, leita allra ráða og tækifæra til þess að hafa áhrif á þá löggjöf sem hér á að samþykkja. (SJS: Það breytir ekki afstöðu verkalýðshreyfingarinnar þó að þið séuð henni ósammála.)