Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:04:14 (4441)

1996-03-22 22:04:14# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:04]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Atriðið varðandi stjórn félaga er löggjafaratriði. Það er hægt að ræða þetta síðar. Mér finnst hins vegar miður að hæstv. félmrh. skuli ekki reyna að nýta það tækifæri sem umræðan gefur. Hún hefur að mörgu leyti verið málefnaleg og snýst um form og innihald. Hæstv. ráðherra segir að það hafi ekki verið mikil gagnrýni á einstaka þætti frv. Það er að sumu leyti rétt hjá hæstv. félmrh. Hins vegar hafa menn gert mjög margar athugasemdir við formið, einkum að löggjöf skuli vera lögð fram með þessum hætti. Sú hreyfing sem farin er í gang í þjóðfélaginu gegn ríkisstjórninni getur stefnt næstu kjarasamningum í hættu. Því þykir mér mjög miður að hæstv. félmrh. skuli ekki grípa tækifærið núna í þessari umræðu og freista þess að koma málinu út úr þessum farvegi, sem hann að vísu telur eðlilegan en okkur í stjórnarandstöðunni finnst óeðlilegur. Látum vera þótt hann hlusti ekki á stjórnarandstöðuna en þetta er mál sem gervöll verkalýðshreyfingin er andsnúin. Menn hafa sagt: Komið með þetta mál aftur inn á þann vettvang þar sem það var. Það er það sem verkalýðshreyfingin í þessu landi vill. Það veldur mér miklum vonbrigðum ef hæstv. ráðherra ætlar að halda fast við þessa einstrengingslegu stefnu sem stefnir öllum vinnumarkaðinum í uppnám.