Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:24:07 (4592)

1996-04-11 19:24:07# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir að hafa greitt fyrir þessu máli í dag í umræðunum. Það hefur hjálpað til við að skýra það og ég er honum þakklátur fyrir að taka þátt í umræðunum með þeim hætti sem hann gerir og benda á ýmis atriði. Hann ræðir um hækkun á byggingarvísitölu og segir að hún hafi víðtækar afleiðingar. Má ég minna hann og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson á að í tíð okkar, þegar við vorum saman í ríkisstjórn, kom fram tillaga um að falla algjörlega frá þessum endurgreiðslum. En það var hætt við það eftir áramótin og horfið frá því ráði vegna þess að þá hafði þetta svo mikil áhrif á lánskjaravísitöluna. Nú hefur henni verið breytt þannig að áhrifin eru sáralítil. Það er séríslenskt fyrirbrigði að vera með slíkar endurgreiðslur á þessum stað og það er góð regla sem ég veit að bæði prófessorar og fyrrv. fjármálaráðherrar skilja og þekkja að breikka stofnana, fækka undanþágum og reyna að halda hlutföllunum lágum. Ég held því að það vel verjandi að afla fjár með þessum hætti.