Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 12:32:03 (4621)

1996-04-12 12:32:03# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[12:32]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur komið áður við sögu þessarar virðulegu stofnunar og þeim mun sérkennilegra er það, hæstv. forseti, að það skuli ekki koma hingað fyrr en svo að það er að líða að þinglokum. Það eru 4--6 vikur eftir atvikum eftir af þinginu. Það er gríðarlegur málaskafl sem við eigum eftir að troða á næstu vikum og mánuðum. Það er því í raun og veru mjög sérkennilegt að fá þetta mál inn núna vegna þess að þetta er viðamikið og flókið mál, þetta er róttæk kerfisbreyting að sumu leyti og málið er viðamikið. Þess vegna tel ég einboðið að þetta mál geti ekki orðið að lögum á þessu þingi nema á einhvern afbrigðilegan hátt vegna þess að það er eftir að vinna mjög mikið í því af hálfu þingsins og auk þess er mér kunnugt um að ýmsir aðilar utan þings telja að umsagnir þeirra og ábendingar hafi ekki komist eðlilega til skila.

Ég ætla að koma að því í fyrsta lagi, hæstv. forseti, að í greinargerð frv. kemur fram að það hafi verið sett niður þriggja manna nefnd, 31. maí 1995, sem fékk það hlutverk að yfirfara og endurskoða frv. til lögreglulaga eins og það hafði verið samið og lagt fram af fyrri nefnd sem var skipuð 29. jan. 1992. Þessi þriggja manna nefnd frá 31. maí 1995 fór yfir málin, setti sér tiltekin markmið og hún sendi málið til umsagnar. Hún sendi málið til umsagnar til fjölmargra aðila, m.a. náttúrlega til Landssambands lögreglumanna og annarra þeirra aðila sem um þetta mál eiga að véla. Landssamband lögreglumanna sendi inn sínar umsagnir um málið eins og það lá fyrir eftir yfirferð þessarar þriggja manna nefndar en þá hafði málinu verið nokkuð breytt. En það var gengið frá málinu til framlagningar í þessari stofnun án þess að þessi umsögn fengi eðlilega meðferð í viðkomandi nefnd. Ég spyr hæstv. dómsmrh. að því hverju það sætir að jafnmikilvægir umsagnaraðilar og Landssamband lögreglumanna fær ekki að koma athugasemdum sínum á framfæri eðlilega, þ.e. þannig að tekið sé tillit til þeirra að einhverju leyti og þess getið áður en málið kemur inn í þessa virðulegu stofnun.

Í frumvarpsgreinargerðinni kemur fram að landssambandið sendi athugasemdir við upphafleg frumvarpsdrög en það voru þau drög sem lágu fyrir þriggja manna nefndinni sem fékk það hlutverk að endurskoða þessi upphaflegu frumvarpsdrög þannig að nýtt umsagnarferli um þau frumvarpsdrög sem var verið að vinna í viðkomandi nefnd fór ekki af stað með þeim hætti sem eðlilegt verður að teljast. Ég gagnrýni það þess vegna mjög ákveðið, hæstv. forseti, og spyr hæstv. dómsmrh. hverju það sæti að þriggja manna nefndin lauk aldrei við verkið eins og venja er að nefndir vinni mál sín. Þær klára verkin, ganga frá þeim að fengnum umsögnum frá mikilvægum umsagnaraðilum.

Ég legg áherslu á þetta atriði og segi um leið að ég tel að þessi veruleiki, þessi aðdragandi málsins tefji málið í þessari stofnun þar sem það er augljóst mál að eftir því sem meira vantar á að samkomulag hafi náðst um mál af þessum toga, jafnviðamikið mál og þetta, þá hlýtur það að taka lengri tíma inni í þessari stofnun þegar þar að kemur. Ég legg áherslu á þetta sem almennt atriði af minni hálfu.

Síðan kem ég að einstökum atriðum, herra forseti, til viðbótar við þau sem hér hafa verið nefnd af hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar.

Í fyrsta lagi að á sama tíma og frv. liggur frammi liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er náttúrlega alveg augljóst mál að þeir sem eiga starfssvið sitt undir þessu frv. hljóta að velta því fyrir sér hvort og hvernig málum þeirra verður komið fyrir með hliðsjón af því að á sama tíma er verið að undirbúa af hálfu framkvæmdarvaldsins verulegar breytingar á löggjöfinni um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég spyr hæstv. dómsmrh. á þessu stigi málsins, ég tel svo eðlilegt að nefnd fjalli um málið, hvernig hann sér samhengi þessara tveggja frumvarpa, annars vegar frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hins vegar frv. til lögreglulaga sem hér liggur fyrir. Það er fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra.

Í öðru lagi læt það koma fram sem almenna athugasemd af minni hálfu að mér finnst að eins og frv. lítur út vanti mjög mikilvægan þátt. Mér finnst að sumu leyti að þetta frv. og aðkoman að málinu sé gamaldags og menn gleymi því félagslega hlutverki sem lögreglan hefur sinnt í vaxandi mæli á undanförnum árum og áratugum. Það er alveg ljóst að lögreglan er að mörgu leyti eins konar félagsleg slysavarðstofa. Þangað koma alls konar mál af margvíslegu tagi og lögreglumenn hafa það hlutverk að koma skjólstæðingum sínum á framfæri við félagsmálastofnanir og heilbrigðisstofnanir af ýmsum toga. Ég hygg að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að staða lögreglunnar, staða lögreglumannsins í íslenska þjóðfélaginu er allt önnur núna en hún var t.d. fyrir 40--50 árum, ég tala ekki um þaðan af lengri tíma. Þess vegna snýst umræða um löggæslumál ekki eingöngu um menn með borðalagðar húfur eins og það hét fyrr á öldinni. Hér er í rauninni um að ræða einn veigamesta þáttinn í okkar félagslega öryggiskerfi að um sé að ræða vandað, vel menntað og traust lögreglulið sem hinn almenni maður getur borið tiltrú til, sérstaklega þegar eitthvað mikið bjátar á. Mér finnst að þetta félagslega hlutverk lögreglunnar vanti í frv. og þá hugsun sem frv. byggist á. Mér finnst að það þurfi að skrifa þessa félagslegu áherslu þar inn miklu skarpar en gert er í frv. Þetta er athugasemd mín nr. tvö við efnisatriði frv.

Þriðja athugasemd mín við efnisatriði frv. lýtur að 5. gr. og mér sýnist að nauðsynlegt sé að skoða það mál miklu betur. Út af fyrir sig tel ég að verksvið ríkislögreglustjóra sé að flestu leyti mjög vel skilgreint, hins vegar er spurning hvort það er eðlilegt að gera ráð fyrir því að rannsóknardeild ríkislögreglustjóra rannsaki kærur á hendur lögreglumönnum vegna brots í starfi. Það er mikið álitamál hvort það er rétt og skynsamlegt að yfirmaður lögreglumannanna hafi jafnframt það hlutverk að rannsaka brot þeirra í starfi. Ég tel það mikið álitamál og kem þessari athugasemd á framfæri við hæstv. dómsmrh. og kirkjumrh. og vil inna hann eftir skoðun hans á því.

Í fjórða lagi vík ég að atriði sem mér finnst vanta í þessa umfjöllun alla og ég sé ekki en hefur verið hluti af lögreglumálunum mjög lengi, mér liggur við að segja alltaf, og það er samspil lögreglunnar við björgunarmál. Ég held að það sé þannig í lögum að gert er ráð fyrir því að lögreglan hafi vissa yfirstjórn björgunarmálanna á sinni hendi þó að fjöldamargir aðrir aðilar komi þarna við sögu. Það er náttúrlega nauðsynlegt að draga inn í björgunarmálin opinberan aðila sem hægt er að ræða við, m.a. í þessari stofnun, ég tala nú ekki um ef eitthvað fer úrskeiðis en einnig við aðrar aðstæður og ég bendi í því sambandi á almannavarnir sem eru hluti af öryggiskerfi þjóðarinnar og eru á boðsviði hæstv. dómsmrh. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann sér samspil lögreglunnar við björgunarmálin fyrir sér.

Í fimmta lagi, hæstv. forseti, vík ég að atriði sem ég hygg að hafi komið til umræðu áður og lýtur að 2. mgr. 9. gr. frv. Hvað þýðir það sem þar stendur. Með leyfi forseta er það orðað svo:

,,Dómsmrh. er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum lögreglu lögregluvald tímabundið eða til að sinna sérstökum verkefnum.``

Hvað þýðir þetta? Er verið að opna fyrir einkavæðingu lögreglunnar með þessu eða hvað? Hvað er hér á ferðinni? Ég get svo sem ímyndað mér að í einhverjum tilvikum sé um það að ræða að þessir aðilar geti falið tilteknum aðilum að vinna ákveðin verk, t.d. ákveðnum lögreglumönnum sem ráðnir eru hjá ríkinu í tiltekin verkefni tímabundið. En hérna segir reyndar líka: ,,tímabundið eða til að sinna sérstökum verkefnum.`` Eru menn með það í huga að einhverjir aðrir aðilar utan lögreglunnar geti tekið að sér einhver verkefni af þessum toga, t.d., eftirlitsverkefni eða önnur slík verkefni eða hvað er átt er við? Ég spyr hæstv. ráðherra um það í fimmta lagi.

Í sjötta lagi ætlaði ég að víkja að 31. gr. frv., sem ég hygg að hafi komið nokkuð við sögu þegar, og láta koma fram þá spurningu mína hvort þar er verið að takmarka sérstaklega umfram það að menn geti ekki farið í verkfall. Er verið að takmarka það að lögreglumenn geti tekið þátt í almennri kjarabaráttu utan verkfallsboðunar, t.d. með öðrum opinberum starfsmönnum? Er ekki alveg skýrt að lögreglumenn geta þrátt fyrir þetta þó að það yrði samþykkt tekið þátt í kjarabaráttu með öðrum opinberum starfsmönnum þó svo verkfallsréttur þeirra sé takmarkaður? Þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um og þætti vænt um ef hann vildi svara.

Í sjöunda lagi ítreka ég þá spurningu sem fyrr hefur verið borin fram varðandi 1. mgr. 32. gr. en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Að öðru leyti er lögreglumönnum óheimilt að hafa með hendi launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja eða reka sálfstæða atvinnustarfsemi.``

Ég sé ekki betur en þetta gangi alls ekki. Hér er um að ræða svo mikla skerðingu á persónulegu frelsi þessara manna að það gengur ekki að hafa þetta svona. Hvernig er þetta hugsað? Ég ítreka spurningar um það mál sérstaklega til hæstv. dómsmrh.

[12:45]

Í áttunda lagi og síðasta af minni hálfu er það svo almennt atriði sem ég vildi koma á framfæri og taka undir það sem fram hefur komið fyrr og það er varðandi þátttöku kvenna í lögreglunni. Það gengur ekki að hafa þau mál eins og þau eru. Það er augljóst að ef lögreglan á að hafa sæmilega trausta stöðu gagnvart öllum aðilum í þjóðfélaginu, konum og körlum, þá verður verkaskipting að vera öðruvísi, t.d. á vettvangi Rannsóknarlögreglunnar. Það er alveg útilokað annað. Og það eru engar afsakanir til í þessum efnum, hvorki hæðarreglur né einhver önnur slík speki sem menn eru að finna hér upp. Það gengur ekki upp. Það verða að vera miklu fleiri konur í lögreglunni en nú er og það verður að ganga skipulega í það verk. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hér hefur komið fram hjá ýmsum hv. þingmönnum að á þessu máli á að taka. Það á að tryggja það með sérstöku ráðningarátaki t.d. í 2, 3, 4, 5 ár að það verði ráðnar fleiri konur til verka þarna en karlar. Þetta er einföld ákvörðun sem er hægt að taka og það skiptir mjög miklu máli í sambandi við ýmis afbrot og ýmis vandamál að það sé einmitt þannig að konur geti komið á vettvang þegar um er að ræða mál sem snerta konur sérstaklega og nauðsynlegt er að fjallað sé um af nærfærni.

Þetta voru þau almennu atriði sem ég vildi koma á framfæri, hæstv. forseti, um leið og ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Mér finnst augljóst að jafnviðamikið mál og þetta hlýtur að þurfa meðferð á fleiri þingum en þessu. Það er of stuttur tími eftir til vorsins til þess að hægt sé að ljúka þessu máli með þeim vandaða hætti sem sæmir þessari stofnun.