Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 15:01:03 (4634)

1996-04-12 15:01:03# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, TIO
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:01]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Áður en ég vík efnislega að því frv. sem hér er til umræðu, vil ég í tilefni af orðum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 4. þm. Austurl., lét falla um upplýsingar sem væntanlega má rekja til þingmanna Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi um afstöðu þingmanna til þessa máls í þingflokki Sjálfstfl., taka fram að það er augljóslega ranglega farið með þær upplýsingar. Á fundi í þingflokki Sjálfstfl. þegar þetta mál var tekið fyrir lýsti ég eindreginni andstöðu við málið og reikna ég með að hæstv. sjútvrh. geti staðfest það. Það er einfalt mál að fá það staðfest hjá þingflokksformanni Sjálfstfl. Hver ástæðan er fyrir því að þingmenn Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi hafa ekki tekið eftir þessu kann ég ekki að nefna. Ég hygg að þeir hafi báðir verið á þessum fundi. Annaðhvort hafa þeir dottað eða eitthvað sem verra er hefur gerst. Ég reikna með að ég kjósi að líta svo á sem þeir hafi eitthvað verið utan við sig á fundinum.

Það frv. til laga sem hér er um að ræða er ekki smámál þó mér heyrist á marga lund sem það muni ekki vekja mikla og hatramma umræðu í þinginu að þessu sinni. Ég heyri að ákveðnir þingmenn sem hafa verið andstæðingar aflamarkskerfisins eða aflahlutdeildarkerfisins telja þetta gott frv. Ég geri ráð fyrir því að þeir sjái ákveðna bresti í því kerfi sem við höfum notað á undanförnum árum og var staðfest með mjög eftirminnilegum hætti 1991 og svo aftur 1994--1995, en það er aflahlutdeildarkerfið.

Ég ætla ekki að dvelja við þá þætti frv. sem lúta að því að lagfæra stöðu krókabátanna sem var á marga lund erfið og kallaði á lagfæringu eftir þá löggjöf sem hér var sett á síðasta vori. Ég get að mörgu leyti fallist á þær lagfæringar, tel þær að mörgu leyti eðlilegar, en hlýt þó að skoða þær í ljósi meginatriðis málsins sem er að í raun og veru er verið að veita krókabátunum aflahlutdeild í heildaraflamarki. Það er meginmál frv., alvarlegasta atriðið í frv. og það atriði sem ég er mótfallinn og tel að muni skaða fiskeiðistjórnunarkerfið sem vissulega er ekki fullkomið en hefur þó verið það skásta sem við höfum getað fundið hér og hefur í raun og veru reynst betur en fiskveiðistjórnunarkerfi sem aðrar þjóðir hafa gripið til.

Ég vil geta þess sérstaklega að hingað til hefur ekki verið ágreiningur á milli mín og hæstv. sjútvrh. um að aflahlutdeildarkerfið sé besta kerfið sem við eigum kost á að notast við í fiskveiðistjórnun hér.

Ég vil aðeins ræða um aðdraganda þessa máls. Það var alveg ljóst við umræðu um stjórn fiskveiða síðastliðið vor að það yrði að breyta þeim málum talsvert. Það kom mér þó á óvart að við 3. umr. opnaði hæstv. sjútvrh. á þá hugmynd að aflahámarki krókabátanna yrði breytt í hlutdeild. Þetta gerðist við 3. umr. málsins og þó að það væri ekki útfært í smáatriðum, var þó ljóst að þarna var komið inn á atriði sem var veruleg breyting að því er ég tel frá þeim sjónarmiðum sem hæstv. sjútvrh. hafði jafnan lýst fram til þess tíma. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þennan kafla. Hæstv. sjútvrh. segir, með leyfi forseta:

,,Hér hefur verið fjallað um hvort hækka ætti þetta aflamark. Þegar það var sett fyrir ári voru sjónarmiðin á bak við það þau að miða við aflareynslu bátanna á árunum 1992 og 1993 og menn komust að þeirri niðurstöðu að það væri sanngjarnt að miða við veiðireynslu þeirra ára, að skerða ekki veiðireynslu þessara báta. Á sama tíma höfðu stærri skipin þurft að sæta skerðingu og þess vegna var það að menn settu þetta aflamark fast, að menn sögðu sem svo: Fyrst þessi hópur þarf ekki að sæta skerðingu miðað við veiðireynslu á sama tíma og aðrir gera það er eðlilegt að það festist. Nú erum við vonandi að horfa fram á það, þó að það verði ekki á þessu ári eða næsta fiskveiðiári, að aflaheimildir í þorskveiðum geti aukist á nýjan leik og þá tek ég undir með hv. frsm. sjútvn. að þá er eðlilegt að endurskoða hvort þetta aflamark geti ekki orðið að aflahlutdeild og færst til upp á við í réttu hlutfalli við aukningu á heildarafla.``

Þarna var sem sagt opnað á það sem er í raun og veru verið að gera í dag. Ég verð að viðurkenna að þetta kom mér nokkuð á óvart vegna þess hver þróun mála hefur verið á undanförnum árum. Ég mun koma nánar inn á það síðar meir, en þróunin hefur í stuttu máli verið sú að krókabátarnir hafa ekki verið að taka á sig skerðingu. Þeir hafa verið að auka afla sinn stórlega á meðan bátar og skip sem hafa verið í þessu aflahlutdeildarkerfi hafa borið hitann og þungann af skerðingunni.

Nú reikna ég með því að það hafi aldrei verið hugmyndin á bak við þetta kerfi að hlutdeildarkerfið ætti að vera hlutdeild í niðurskurði eingöngu heldur að menn hafi reiknað með því að þegar sá tími kæmi að afli ykist á miðunum á nýjan leik, þá yrði einmitt þeim skipum sem kusu hlutdeildarkerfið á sínum tíma bætt upp sú skerðing sem þau hafa orðið að þola. Það er sem sagt ekki bara í stríðu sem menn ætluðu að láta skipin með aflamarkið búa við hlutdeild í heildarafla heldur líka í blíðu og þess vegna er það nokkurt nýmæli þegar menn opna á þessa hugmynd. Ég held að ég fari ekki rangt með það að þetta er að minnsta kosti í fyrsta skipti sem ég heyrði hæstv. sjútvrh. tala á þeim nótum að krókabátarnir sem höfðu sífellt reynt að auka sinn afla á kostnað hinna ættu að fá fulla hlutdeild í aukningu aflans þegar betur áraði. Þó að þessi opnun færi fram af hálfu hæstv. sjútvrh. á vormánuðum, var ekki annað að sjá þegar aðalfundur Landssambands smábátaeigenda var haldinn 12.--13. okt., ég held að ég muni það rétt, að þetta sjónarmið hans hafi haldist því að í frásögnum blaða af þessum aðalfundi Landssambands smábátaeigenda lýsir hæstv. sjútvrh. í sjö atriðum hvað hann sé reiðubúinn til að skoða. En það kemur þó mjög skýrt fram að breytingarnar mættu ekki leiða til þess að 21.500 tonna aflapotturinn sem ætlaður er krókabátum stækkaði. Haft er eftir ráðherranum og ég leyfi mér að vitna í Fiskifréttir 20. október 1995, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ráðherrann sagði að aflahámark krókabáta hefði aukist á undanförnum árum úr 3.000 tonnum í 21.500 tonn af þorski. Þessi 21.500 tonn væri föst tala sem ekki yrði breytt þótt leyfilegur heildarþorskafli breyttist í framtíðinni.``

Þegar þetta er lesið, skil ég það svo að hæstv. sjútvrh. hafi litið á það sem grundvallaratriði í þessum viðræðum að við þessu yrði ekki hróflað. Nú skal ég samt viðurkenna að mér finnst að sjálfsögðu að það sé til umræðu eins og allt annað sem lýtur að stjórn fiskveiða, hvernig skynsamlegt sé að viðra hugmyndir um að veita þessum sérstaka útgerðarhópi krókabátanna hlutdeild í aflaaukningunni. Það er til umræðu eins og allt annað. En ég held þó að menn hljóti að taka tillit til þeirra tveggja ólíku sjónarmiða sem hér koma fram hjá hæstv. sjútvrh. og hljóta að undirstrika svipaðar áhyggjur og ég hef haft af þessu máli. Þær eru að ekki sé verjandi að sá útgerðarþátturinn sem hefur orðið að bera allan þungann þurfi að lifa við það að þegar aflinn glæðist, þá taki þeir til sín aukninguna á nákvæmlega sömu forsendum sem ekki hafa þolað neinn niðurskurð. Það þýðir að sjálfsögðu að það er verið að skerða þátt aflahlutdeildarbátanna í aukningunni því auðvitað er aflahlutdeild hlutfall af heildarafla. Ég vil því taka það fram að mér finnst að það hafi komið skýrt fram að í þessu máli hefur hæstv. sjútvrh. að minnsta kosti komið aftur inn á það sjónarmið sem hann varði í vor. Ég vil ekki nota neinar myndlíkingar eins og hér var verið að nota í dag um að eldingu hafi lostið niður í höfuðið á honum. Þær eru þeirra sem slíkt nota. En mér finnst að þetta beri vott um að hér sé um að ræða stefnubreytingu sem hafi verið viðruð í vor og sé nú staðfest í þessu frv. Ég hygg að þessi stefnubreyting muni hafa býsna miklar afleiðingar því það er þannig að meginmarkmið kvótakerfisins var að setja sjávarútveginum reglur sem rekstraraðilarnir gætu litið á sem almennar reglur, leikreglur, og þá hagað rekstri fyrirtækjanna eftir þessum almennu reglum. Ég hygg að enginn talsmaður þessa málaflokks nema hæstv. sjútvrh. hafi lagt eins afgerandi og sannfærandi áherslu á að það yrði að vera þannig rekstrarumhverfi í sjávarútveginum að menn gætu gert áætlanir, gætu reiknað með því að það væri stöðugleiki í þessu stjórnunarkerfi og þar mættu menn ekki búa við neinar kúvendingar. Ég hygg að ég geti vitnað í ræður hæstv. sjútvrh. þessu til stuðnings en tel mig ekki þurfa þess því að það er alkunna hversu mikla áherslu hann hefur lagt á þessi mál.

[15:15]

Viðskipti með aflaheimildir og þær leikreglur sem um þessi viðskipti hafa gilt hafa að sjálfsögðu miðað að því að ná fram hagræðingu í sjávarútvegi við þær erfiðu aðstæður sem hér hafa gilt á undanförnum árum. Hingað til hefur þetta tekist jafnvel þótt alvarleg göt hafi verið á kerfinu. Aflahlutdeildarkerfið og kvótaviðskiptin hafa styrkt stöðu útgerðarinnar á mjög erfiðum tímum. Það er því mjög mikilvægt að grafa ekki undan þeirri tiltrú sem fyrirtækin í landinu hafa haft á þessu stjórnkerfi. Þessi varnarbarátta hefur umfram allt tekist vegna þess að rekstrarforsendur útgerðarinnar hafa verið að styrkjast. Aflastjórnunarkerfið, fiskveiðistjórnunarkerfið hefur átt sinn þátt í því. Menn hafa getað gert áætlanir á almennum forsendum fyrirtækjareksturs á sama tíma og raunverulega hefur dregið úr pólitískum afskiptum af rekstri fyrirtækjanna í sjávarútvegi og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þetta hefur jú kannski verið eitt aðalafrek þeirra ríkisstjórna sem Davíð Oddsson hefur leitt undanfarin rúm fimm ár, þ.e. að hafa náð þessum árangri. Að vísu hefur einn hópur útgerðar, krókabátar, staðið utan þessa kerfis og sótt í krafti pólitísks þrýstings síaukinn hlut heildarafla á kostnað þeirra sem leikið hafa eftir hinum almennu reglum aflahlutdeildarkerfisins. Þessi sérstaki hópur sem ekki hefur tekið þátt í niðurskurðinum og hagræðingunni fær nú hlutdeild á sömu forsendum og aflahlutdeildarskipin í aukningunni. Þessi flokkur útgerðar sem ekki hefur orðið að þola niðurskurðinn fær nú hlutdeild í aukningunni. Þess utan fær hann lögbundið fyrirheit um að ef til niðurskurðar komi á nýjan leik þá skuli hann aðeins taka þátt í þeirri skerðingu að vissu marki. Hér er því komin upp ný tegund af hlutdeildarskipum sem eiga að taka fullan þátt í aukningu kvótans en eiga ekki að bera byrðarnar af samdrættinum. Þessi ákvörðun breytir því að mínu mati undirstöðum aflahlutdeildarkerfisins í grundvallaratriðum því að auðvitað getur það varla hafa verið meiningin að aflahlutdeildarkerfið væri einungis brúklegt í niðurskurðinum. Þetta hlutdeildarkerfi, sem komið var á fót 1991 og staðfest 1994 og 1995, byggist á þeirri meginreglu að skip á aflamarki hafi hlutdeild í heildarafla. Sú hlutdeild er seljanleg. Hlutdeildarkerfið er ekki hugsað sem skipulag á niðurskurði. Þeir sem verða að þola niðurskurð á aflahlutdeild sinni vegna almenns niðurskurðar hafa alltaf reiknað með því að hlutur þeirra í heildarafla haldist þegar niðurskurði lýkur og ástand miðanna gefur tilefni til aukningar á heildarafla. Í raun hefur niðurskurður aflamarksskipa verið mun meiri en heildarsamdráttur í botnfiskafla því að frá heildarafla hafa heimildir verið færðar í stórum stíl til krókabáta á undanförnum árum. Aflamarksskip hafa því orðið að sæta mun meiri skerðingu en útgerðir þeirra gátu reiknað með þegar kerfinu var komið á. Þessum niðurskurði hafa menn tekið, möglandi að vísu en þeir hafa tekið honum í þeirri fullvissu að þegar ástand miðanna batnaði yrði hlutur þeirra bættur á grundvelli aflahlutdeildarkerfisins. Nú er hins vegar ljóst að ekki er ætlunin með þessu frv. að gera það. Nú á að veita þeim sem mest hafa aukið afla sinn á kostnað aflahlutdeildarskipanna fulla hlutdeild í aukningunni þó þeir hafi ekki borið neinn þunga af niðurskurðinum.

Ekki nóg með það. Það er kveðið svo á í frv. að ef til niðurskurðar kemur á nýjan leik skuli þessi skip sem mest hafa tekið til sín frá aflamarksskipunum ekki taka þátt í að bera þann niðurskurð á sömu forsendum og aflamarksskipin. Þetta tel ég mjög alvarlegan hlut sem muni að vissu leyti grafa undan aflamarkskerfinu og ég hygg að það muni hafa víðtæk áhrif í þjóðfélaginu.

Þeir sem gerðu ráð fyrir því að geta treyst í grundvallaratriðum aflahlutdeildarkerfinu bæði í blíðu og stríðu átta sig nú á því að þessum grundvelli er ekki treystandi. Rekstur fyrirtækja færist með þessari ákvörðun frá ábyrgð stjórnenda og starfsfólks fyrirtækjanna inn á borð stjórnmálanna. Handleiðsluaðferðir eru á ný farnar að hafa áhrif á stjórn fiskveiða meira en áður var. Fjárfestar, fyrirtæki, einstaklingar og lífeyrissjóðir geta ekki treyst því að aflahlutdeild sé aflahlutdeild. Þeir vita nú að fjárfesting þeirra í sjávarútvegsfyrirtækjum, og þar með í aflahlutdeild sjávarútvegsfyrirtækja, var í raun fjárfesting í niðurskurði en ekki að sama skapi í aukningu. Þeir vita að í framtíðinni verður þeim ætlað að bera þungann af niðurskurði en ekki þeim sem hafa aukið afla sinn stöðugt og hafa leikið lausum hala utan þessa fiskveiðistjórnunarkerfis.

Tími minn er að verða á þrotum. Ég mun síðar í þessari umræðu koma þeim áhrifum sem flutningur aflaheimildar frá aflamarksbátum til krókabáta hefur haft á atvinnumunstur sjávarútvegsins og líka á byggðaþróun og stöðu einstakra byggðarlaga, ég mun koma að því síðar þegar tækifæri gefst til að tala hér öðru sinni en vil aðeins taka það fram í framhaldi af því sem ég hef sagt hér hingað til að ég held að þetta muni hafa skaðleg áhrif á fiskveiðistjórnunarkerfið. Ég held að það muni grafa undan fjárfestingum í sjávarútvegi og ég held að það muni líka hafa skaðleg áhrif á hlutabréfamarkaðinn.

Þetta eru þau atriði sem mig langaði til að koma að í upphafi og áskil mér rétt til að koma inn á fleiri þætti málsins í síðara skiptið sem ég hef tíma til að ræða þetta mál við 1. umr.