Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:08:03 (4641)

1996-04-12 16:08:03# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:08]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér datt í hug meðan hv. þm. var að tala að nú væri sennilega hinn raunverulegi flm. frv. og hugmyndasmiður kominn í ræðustól. Reyndar missti hv. þm. það út úr sér. ,,Þess vegna gátum við flutt þetta frv.``, sagði hv. þm. Það er fyrst og fremst ráðherra sem ber ábyrgð á þessu frv. að mínu áliti og flytur það. (EOK: Er það ekki flutt af þingflokkunum?) Það er stutt af þingflokkunum svona í meginatriðum eftir því sem ég best veit.

Það kom fram hjá hv. þm. að nú væri búið að koma í veg fyrir að flotinn gæti haldið áfram að aukast og smábátaflotinn mundi minnka. Mig langar að spyrja hvort hann telur ekki koma til greina í meðförum hv. sjútvn. á þessu máli að það verði sett einhvers konar þak á það sem komi til úthlutunar til smábátaflotans, að hún sé ekki algerlega fest við þessi 13,9% af aflaheimildum, heldur verði sett þak. Ég ætla ekki að nefna tölu í því sambandi. Mér dettur í hug 30--35 þús. vegna þess að smábátaflotinn kemur ekki til með að stækka frekar eins og kom fram í hans máli.