Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:11:50 (4644)

1996-04-12 16:11:50# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Að mínu áliti hefur það alltaf gefið auga leið að án þess að stjórna þessum flota mundum við aldrei ná neinum árangri í stjórn fiskveiða. Þegar menn leyfðu að hingað kæmu ný skip með nýjar veiðiheimildir hefði alltaf átt að liggja ljóst fyrir að þau þrengdu lífsrými þeirra sem fyrir voru. Það átti öllum að vera ljóst. Hvað svo sem þeim er úthlutað, getur það ekki verið öðruvísi en á kostnað þeirra sem fyrir eru. Annað er útilokað.