Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:16:37 (4648)

1996-04-12 16:16:37# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:16]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Maður sem stundaði krókaveiðar á smábát fyrir tíu árum, fyrir níu árum, átta árum, sjö árum o.s.frv. hefur sannarlega mátt þola gríðarlegan samdrátt í aflaheimildum sínum. Hann hefur mátt þola meiri samdrátt en nokkur annar útgerðarmaður. Enginn aðili hefur orðið fyrir eins mikilli skerðingu á sóknargetu sinni og þeir sem voru fyrir á smábátunum að veiða með krók. Menn koma hér fram og segja að krókamenn hafi ekki mátt þola neinn samdrátt. Það er fjarstæða. Þeir hafa mátt þola meiri samdrátt en nokkrir aðrir, það er staðreyndin. (TIO: Hvenær varð þessi flokkur bara til? Hann varð til núna á síðustu árum.) Það er rangt, hv. þm. Menn hafa stundað hér veiðar með króka á smábátum um alllangan tíma, líklega 1000 ár eða svo þannig að það er ekki rétt að þessi flokkur sé nýr.