Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 16:01:55 (4728)

1996-04-15 16:01:55# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[16:01]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tel að það eigi ekki að bæta við þorskkvótann á þessu fiskveiðiári. Við höfum náð árangri með friðun undanfarin ár og það er fráleitt að snúa nú af braut varkárni og skynsemi. Þingmenn Þjóðvaka hafa allir sömu afstöðu til þessa máls. Það tók mörg ár að fá í gegn skynsamlega viðmiðun, þ.e. að veiða tiltekið hlutfall úr veiðistofni en við höfum þó farið 20% fram úr þeirri viðmiðun í ár. Fiskifræðingar eru vitaskuld ekki alvitrir en ég fullyrði að þeir viti best Íslendinga um ástand þorskstofnsins. Það að halda því fram að Jakob Jakobsson hlusti ekki á skoðanir annarra, t.d. sjómanna, er fjarstæða. Þá þekkja menn einfaldlega ekki vel til. Ég starfaði í tæp 15 ár við útgerð og fiskvinnslu og þekki þessa umræðu betur en flestir hv. þm. Ég horfði upp á misvitrar ákvarðanir stjórnmálamanna sem bættu við kvóta þvert gegn ráðleggingum og voru þá að þjóna stundarhagsmunum og einstökum kjördæmum. Þetta leiddi til mikillar ofveiði og nær útrýmdi mörgum fiskstofnum.

Ég er stundum leiður á því að búa í landi með 260 þús. fiskifræðingum og ég tala nú ekki um þegar ýmsir þingmenn þykjast vita betur en færustu vísindamenn og flestir starfandi aðilar. Þorskstofnum var útrýmt við Nýfundnaland og í Barentshafi m.a. vegna þess að ekki var farið að ráðleggingum. Þorskstofninn okkar er núna í sögulegu lágmarki og það er fráleitt og ábyrgðarlaust að bæta við afla við fyrstu góðu fréttirnar í mörg ár.

Það liggja, herra forseti, ekki fyrir meðmæli Hafrannsóknastofnunar um aukningu á kvóta núna. Það mæla engin hagfræðileg rök fyrir aukningu og ábyrgir forustumenn úr greininni leggjast gegn henni. Við þingmenn eigum að sýna þorskstofninum og vísindunum þá virðingu að tala af ábyrgð og yfirvegun en ekki falla í gryfju yfirboða og skammsýni.