Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:06:07 (4739)

1996-04-15 17:06:07# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, JBH
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:06]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessa skýrslu. Síðan stenst ég ekki mátið að segja að um leið og ég hlýddi á mál hv. 4. þm. Austurl. rifjuðust upp fyrir mér gamlir góðir dagar. Það var eins og ég heyrði aftur endurvarp af ræðum hv. þm. þessi þrjú eða fjögur ár sem hann flutti svona dómsdagsræður yfir hausamótum okkar til þess að vara okkur við þeim þjóðarvoða sem fælist í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Enn er sami ástríðuhitinn og enn eru sömu viðvörunarorðin, sama ástríðan alveg ókulnuð. En ég tek það fram að þá lagði ég ævinlega hlustir við því sem hv. þm. sagði og alveg eins er það nú vegna þess að það kom á daginn að hann var einn þeirra þingmanna sem setja sig vel inn í málin og vissi hvað var á dagskrá. Ég dreg ekkert úr því og efa ekki að svo sé enn.

Það þarf ekki að segja mikið að mínu mati um þetta mál á þessu stigi. Landakortið í Evrópu er að breytast. Það á eftir að breytast enn meir á næstu missirum og árum, eftir inngöngu Finnlands í Evrópusambandið og þau tíðindi að Evrópusambandið á nú orðið sameiginleg landamæri að Rússlandi. Innan mjög skamms tíma verður það svo að því er varðar fleiri ríki í Mið- og Austur-Evrópu eftir því sem þessi allsherjarsamtök evrópskra lýðræðisríkja taka á sig mynd.

Innan Norðurlandanna gerðist það með aðild hinna tveggja, Finnlands og Svíþjóðar til viðbótar við Danmörku, að Evrópusambandinu að þau sem utan standa, Noregur með sín löngu landamæri og við Íslendingar, stóðum frammi fyrir nýjum landamærum. Það er að sjálfsögðu meiri vandi fyrir Noreg en fyrir okkur einfaldlega vegna þess að haf skilur lönd og málið er auðveldara viðfangs fyrir okkur af þeim sökum. En það er rétt að ef eitthvað hefur áþreifanlega ásýnd af hinu rótgróna Norðurlandasamstarfi, er það frjáls för Norðurlandabúa um svæðið allt og norræna vegabréfasambandið eða hvað sem það er kallað er áþreifanlegur veruleiki í lífi okkar og skiptir mjög miklu máli að viðhalda því.

Ef við stæðum frammi fyrir því í framhaldi af inngöngu Finna, Svía og Dana í Evrópusambandið að við yrðum aðgreind með þeim hætti með nýjum landamærum frá öðrum íbúum Norðurlanda skynjuðum við betur en ella að inntak Norðurlandasamstarfsins er að breytast, í samstarfi stjórnvalda er inntak þess sífellt minnkandi því miður. En með því að viðhalda frjálsri för fólks og með því að allur almenningur geti farið hindrunarlaust um þetta svæði getum við þó í samskiptum fólks innan Norðurlanda reynt að viðhalda þessu. Það er staðreynd að þrjú þessara landa hafa sótt um aðild að Schengen og gert þann fyrirvara, sem eðlilegt er. Þau vilja viðhalda norræna vegabréfasambandinu og það kallar þá á sérstaka samninga við Ísland og Noreg í framhaldi af því. Það er búið að bjóða þá aðild og fá umboð til þess og samstarfssamningur er þar af leiðandi á dagskrá með áheyrnaraðild. Það er athyglisverður punktur hvort það breytir eitthvað stjórnskipulegri stöðu málsins ef niðurstaða ríkjaráðstefnunnar yrði sú að ákvörðunarvald innan þess breyttist frá nauðsyn allsherjarsamþykkis yfir í meirihlutaákvarðanir á þessu málasviði. En kjarni málsins er sem sé sá að í framhaldi af þessari áheyrnaraðild er stefnt að gerð samninga um þátttöku þeirra í samstarfinu og við það miðað að þeirri samningsgerð verði lokið fyrir næstu áramót. Í óformlegum viðræðum hefur komið fram að samningurinn gæti í fyrsta lagi komið til framkvæmda gagnvart Norðurlöndum árið 1998 en það er rétt að löngu áður en hann kemur til framkvæmda þurfa allar upplýsingar að liggja fyrir ásamt pólitískri stefnumótun.

Að því er varðar mig og minn flokk get ég sagt að við höfum afar jákvæða afstöðu til þessa máls og því aðeins að einhverjir áþreifanlegir og mjög alvarlegir meinbugir fyndust á því teldum við það áhorfsmál að hafna slíku samstarfi. Þetta þarf engum að koma á óvart vegna þess að við erum einfaldlega þeirrar skoðunar í þingflokki jafnaðarmanna að við eigum heima í allsherjarsamtökum evrópskra lýðræðisríkja og þetta skref sem hér er stigið er tiltölulega lítið skref í þá átt en jákvætt svo langt sem það nær.

Ég tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þær upplýsingar sem hafa borist um kostnaðarþáttinn eru nokkuð undarlegar og bera svolítið með sér að þar séu menn að reyna að fegra kannski myndina eitthvað. Það kom fram í svari forsrh. áðan að endanlegar niðurstöður lægju ekki fyrir þannig að ég legg ekkert upp úr þeim tölum sem hér hafa verið nefndar um 400 millj., 150 millj. nettó beinlínis vegna Schengen. Hitt liggur fyrir að við stöndum frammi fyrir verulegum kostnaði af rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Við sitjum þar uppi með mikinn skuldahala frá liðinni tíð sem ekki hefur tekist að taka á. Ágreiningur var uppi um milli utanrrh. og samgrh. í fyrri ríkisstjórn og málinu vísað til hæstv. forsrh. sem er úrskurðaraðili í ágreiningi fagráðherra. Ég hef engar spurnir af því hvort sá úrskurður er nokkur orðinn. Þar að auki liggur fyrir að það þarf að gera breytingar og stækkun á flugstöðinni þannig að kostnaðarmálið er alla vega mjög verulegt í tengslum við þann rekstur.

Ég vil á þessu stigi málsins leyfa mér að beina nokkrum spurningum til hæstv. dómsmrh. í tilefni af þessari upplýsingagjöf, fyrst að því er varðar það sem hér segir á bls. 6 eftir að lýst er inntaki þeirra skuldbindinga sem hér var um að ræða. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í viðræðum hefur komið fram að ákvæði EES-samningsins um vöruflutninga munu gilda áfram í samskiptum Íslands og Noregs við önnur Schengen-ríki. Þetta þýðir að þótt Íslandi taki þátt í Schengen-samstarfinu mun Ísland ekki taka þátt í tollasambandi ESB og áfram verður beitt óbreyttum ákvæðum um tolleftirlit.``

Spurningin er þessi: Er verið að gefa í skyn eða er það svo að Íslendingar eigi þess kost að semja í þessu viðfangi um þátttöku í tollasamband ESB? Sé svo, hefur sá kostur verið skoðaður? Og ef þess er kostur, er þá ekki sjálfgefið að íslensk stjórnvöld og íslenska ríkisstjórnin kanni það mjög vandlega og óski eftir því að taka upp slíka samninga? Það væri þá að minnsta kosti eitt viðbótarskref í viðbót og væri afar jákvætt.

Önnur spurning um samstarfið að því er varðar vegabréfsáritanir. Hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar minntist á hinn sameiginlega lista yfir samninga ESB-ríkja um vegabréfaáritunarskuldbindingar væntanlega. Jafnframt segir hér að Íslendingar mundu trúlega verða að segja upp samningum um vegabréfaáritanir við 19 ríki. Það væri fróðlegt að fá að vita hvaða ríki þetta eru.

[17:15]

Að því er varðar málefni flóttamanna þar sem hlutur Íslendinga hefur verið smánarlegur á undanförnum árum en breyttist nokkuð með samstarfi okkar hæstv. dómsmrh. í tíð fyrri ríkisstjórnar og samkomulagi sem gert var þá um breytingar sem m.a. fól það í sér að við skyldum reyna að axla okkar skuldbindingar við að taka inn í landið þann lágmarksfjölda flóttamanna sem raunverulega voru samningar um, þá segir, með leyfi forseta: ,,Samningurinn hefur ákvæði um það hvaða ríki skuli teljast fyrsta hælisríki, þannig að umsækjanda um hæli verður ekki vísað á milli margra ríkja sem ekki vilja bera ábyrgð á honum.``

Þessa reglu kannast ég við og stundum hefur hún verið notuð af okkar hálfu til að koma af okkur mönnum yfir á þau ríki, sérstakega innan Norðurlandasamstarfsins, sem voru fyrstu viðtökuaðilar. En spurning mín í þessum punkti er einfaldlega þessi: Sú nýskipan sem tekin var upp að því er varðar það að veita viðtöku flóttamönnum og tryggja þeim viðunandi aðbúnað hér á landi, það að taka við þeim fullnægði þessum skuldbindingum o.s.frv. Er það með öllu óbreytt? Breytir þetta engu um yfirlýsta stefnu stjórnvalda um viðtöku flóttamanna og framkvæmd þeirra mála frá því sem nú er?

Fjórða málið varðar lögreglusamvinnu. Eins og fram hefur komið gengur Schengen-samningurinn út frá þeirri meginreglu að persónueftirlit skuli fellt niður vegna ferðalaga á milli ríkjanna. Það er út af fyrir sig jákvætt. Afnám persónueftirlits getur haft í för með sér skert öryggi og því eru í samningnum fjölmörg svokölluð stuðningsákvæði til að efla samstarf aðildarríkja varðandi öryggis- og afbrotamál. Aukin lögreglusamvinna er nefnd til og síðan talið upp í fjórum liðum margvíslegt annað milliþjóðlegt samstarf. Mín spurning er þessi að því er þetta varðar: Er hæstv. dómsmrh. fyrir sitt leyti sáttur við þessi svokölluðu stuðningsákvæði og það samstarf sem hér er nánar lýst? Mun það fullnægja þeim kröfum sem við gerum þannig að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu meinta skerta öryggi? Er eitthvað fleira sem hann getur sagt en það sem fram kemur í þessari knapporðu skýrslu um það efni? Og þá spyr ég hann sem hæstv. dómsmrh. hvort þetta hafi verið sérstaklega kannað og hvort ráðuneytið hafi fyrir sitt leyti komist að endanlegri niðurstöðu í efni.

Að því er varðar að lokum fimmta málið sem er fíkniefnin, þá er það auðvitað gríðarlega mikilvægt mál að íslensk stjórnvöld geti fullvissað allan almenning á Íslandi um að Ísland verði ekki fyrir vikið með þátttöku í þessu samkomulagi opið hús fyrir þá sem smygla fíkniefnum milli landa og að tök stjórnvalda á því máli séu ekki aðeins jafnörugg og verið hafa. Það er jafnframt spurning um það hvort samstarf sem á að vera milli lögregluyfirvalda á þessu sviði geti jafnvel þýtt að við ættum að vera betur í stakk búin til að ráðast að rótum þess vanda. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að sá vandi sem hlýst af samskiptum við Holland er alkunnur. En að því er varðar t.d. reynsluna í Skandinavíu, þá ber þar heimildum ekki að öllu leyti saman vegna þess að því hefur einnig verið haldið fram, og þá styðst ég við blaðafrásagnir, að samstarf lögregluyfirvalda í Evrópu almennt hafi m.a. leitt til þess að jafnvel meiri árangur hafi náðst en áður við að koma upp um fíkniefnasmygl og hafa hendur í hári glæpamanna af því tagi. En þetta er mjög þýðingarmikið mál og kemur til með að móta mjög afstöðu almennings til málsins. Þess vegna segi ég við hæstv. dómsmrh.: Getur hann hér og nú á þessu stigi málsins tekið af tvímæli í þessu efni eða gert betri og ítarlegri grein fyrir því hvernig dómsmálayfirvöld meta stöðu þess máls, að teknu auðvitað tilliti til sérstöðu Íslands sem eyríkis? Er einhver minnsta ástæða til að ætla að þátttaka okkar í þessu samstarfi slái vopnin úr höndum okkar, minnki getu okkar til þess að beita stjórnvaldsaðgerðum til að koma í veg fyrir innstreymi fíkniefna og skelfilegar afleiðingar af starfsemi slíkra glæpamanna?

Virðulegi forseti. Þetta eru þær spurningar sem ég vildi beina til hæstv. dómsmrh. af þessu tilefni. Ég heyrði í hinni innblásnu og ástríðuheitu ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að hann taldi það skelfilega tilhugsun að Ísland yrði með þessu samkomulagi eins konar landamæravörður lýðræðisríkjanna í Evrópubandalaginu, en hann tók það jafnframt fram að það væri auðvitað pólitíkin sem væri aðalatriði þessa máls en ekki kostnaðurinn sem er aukaatriði. Ég leyfði mér að skilja ræðu hans á þann veg að afstaða hans væri nokkuð mótuð af þeirri pólitísku afstöðu hans sem er kunn og ég virði út af fyrir sig, að hann er auðvitað eindreginn andstæðingur þess að við aukum samstarf okkar við Evrópusambandsþjóðirnar. Það er allt í lagi með þá skoðun út af fyrir sig. Ég er einfaldlega öndverðrar skoðunar.

Eitt er þó rétt að árétta að lokum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson dró annars vegar upp mynd af stjórnleysi að því er varðaði t.d. það að hafa tök á innstreymi fíkniefna og hafa hendur í hári glæpamanna á því sviði, en jafnframt dró hann upp mjög dramatíska mynd af þreföldu og miðstýrðu persónunjósnakerfi Schengen í stóru tölvunni og minni tölvunum og taldi einsýnt að þar væru á ferðinni meiri háttar persónunjósnir. Þetta tvennt getur varla farið saman að annars vegar séum við verr í stakk búin til þess að hafa eftirlit með glæpastarfsemi en hins vegar sé hún svo margefld og tröllaukin að jafnvel eðlilegum réttarsjónarmiðum einstaklinga eins og t.d. um skilyrðislausa virðingu fyrir einkalífi manna verði ekki fram haldið. Upplýsingamiðlun af þessu tagi er að sjálfsögðu snar þáttur í eftirliti og aðgerðum gegn glæpamönnum, en er hún að mati hæstv. dómsmrh. þess efnis að hún muni styrkja tök okkar við stjórnun slíkra mála. Eða er ástæða til þess að óttast að hún sé þvert á móti svo slök og laus í reipunum að það sé þveröfugt, að við séum verr í stakk búnir til þess að stjórna þessum málum en ella?